Hoppa yfir valmynd
22. júlí 2010 Innviðaráðuneytið

Drög að reglugerð um flutning á hættulegum farmi til umsagnar

Til umsagnar eru nú hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu drög að endurskoðaðri reglugerð um flutning á hættulegum farmi. Þeir sem óska geta sent umsagnir sínar á netfangið [email protected] fram til miðvikudags 11. ágúst næstkomandi.

Helstu breytingar í drögunum frá núgildandi reglugerð um flutning á hættulegum farmi nr. 984/2000 eru að hluti meginmáls ADR viðauka A og B við alþjóðasamning Sameinuðu þjóðanna um flutning á hættulegum farmi á vegum er tekinn upp í meginmál reglugerðarinnar og í viðauka I - XIX við reglugerðardrögin, en efni þeirra hefur til þessa eingöngu að takmörkuðu leyti komið fram í löggjöf hér á landi. Reglugerðin er því stór að sniðum eða 258 bls. að lengd, en með því að setja efni viðaukanna í reglugerðardrögin og viðauka við þau má ætla að reglur og umgjörð um flutning á hættulegum farmi hér á landi verði mun ítarlegri en verið hefur og auðveldara fyrir þá sem málið varðar að átta sig á þeim kröfum sem gerðar eru á þessu sviði. Mikilvægt er að rétt sé að að málum staðið við flutning á hættulegum farmi, því ella geta átt sér stað stórslys með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Því er brýnt að þetta umhverfi sé eins traust og kostur er og er endurskoðaðri reglugerð ætlað að bæta öryggi í flutningi á hættulegum farmi hér á landi.

Aðrar breytingar frá núgildandi reglugerð eru helstar þessar:

I.            Markmið og gildissvið reglugerðarinnar er skýrt nánar en í gildandi reglugerð og tekið fram í 3. gr. í hvaða tilfellum og hvar reglurnar gildi.

II.           Skilgreiningar eru endurskoðaðar, sbr. 5. gr.

III.          Ákvæði um öryggisbúnað við flutning á hættulegum farmi eru hert, sbr. 10. gr.

IV.         Kröfur til sendanda, flytjanda, móttakanda, þess sem lestar hættulegan farm, setur hættulegan farm í umbúðir og sá sem fyllir á tank eru skilgreindar nánar í 17. - 21. gr.

V.          Í stað sérstakrar reglugerðar um starf öryggisráðgjafa (núgildandi reglugerð nr.607/2001) við flutning á hættulegum farmi kemur hlutverk og ábyrgð hans fram í IV. og V. kafla draganna.

VI.        ADR réttindi eru skilgreind sérstaklega í VI. kafla draganna og hvað í þeim felst, en ADR réttindi skiptast í almenn og sérstök réttindi, sem aftur skiptast í 3 réttindaflokka.

VII.      Auknar kröfur eru gerðar til náms til ADR réttinda, svo og til þeirra sem hyggjast stunda kennslu í flutningi á hættulegum farmi.

VIII.    Kröfur til eftirlits með flutningi á hættulegum farmi eru endurskilgreindar.

IX.      Felld er niður krafa um prófnefnd sem er í núgildandi reglugerð.

X.       Heimilt verður að nota tanka og ökutæki til flutninga á hættulegum farmi sem smíðuð voru fyrir 1. janúar 1997, þó svo að þau uppfylli ekki kröfur samkvæmt reglugerðinni (um gerð og búnað þeirra), ef þau uppfylla að öðru leyti öryggiskröfur.

Með reglugerð þessari er innleiddar samevrópskar reglur um flutning á hættulegum farmi landi, skipgengum vatnaleiðum og með járnbrautum sem koma fram í tilskipun ESB nr. 2008/68/EB. Þar sem ekki fyrirfinnast skipgengar vatnaleiðir og járnbrautir á Íslandi er þeim kafla tilskipunarinnar sleppt við innleiðingu hennar.

Eins og áður segir óskast athugasemdir við drög þessi sendar ráðuneytinu eigi síðar en 11. ágúst næstkomadi á netfangið [email protected].

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta