Mál nr. 34/2024. Úrskurður kærunefndar útboðsmála.
Úrskurður kærunefndar útboðsmála 12. mars 2025
í máli nr. 34/2024:
Exton ehf.
gegn
Akureyrarbæ og
Atendi ehf.
Lykilorð
Útboðsgögn. Tæknilegt hæfi. Skaðabótaskylda. Málskostnaður.
Útdráttur
Ágreiningur málsins laut að útboði varnaraðila, A, varðandi kaup á nýju hljóðkerfi fyrir tónleikasalinn Hamraborg í menningarhúsinu Hofi en A hafði gert bindandi samning við AE áður en kæra málsins barst nefndinni. Kærunefnd útboðsmála hafnaði kröfum kæranda, E, um að ákvörðun A um að velja tilboð AE yrði felld úr gildi og að samningur A við AE yrði lýstur óvirkur. Að þessu frágengnu krafðist E þess að kærunefnd útboðsmála myndi veita álit á skaðabótaskyldu A gagnvart honum en við úrlausn kröfunnar leysti nefndin úr ágreiningi aðila um hvort A hefði verið heimilt að leggja til grundvallar að AE uppfyllti skilyrði útboðsgagna um reynslu af sambærilegu verki á grundvelli reynslu starfsmanna félagsins. Í úrskurði nefndarinnar var lagt til grundvallar að skilyrðið hefði lotið að reynslu bjóðanda og yrði ekki túlkað með þeim hætti að reynsla starfsmanna af sambærilegum verkum hefði dugað til. Þá var ekki talið að skilyrðið túlkað með þessum hætti væri í andstöðu við 15. gr. laga nr. 120/2016 eða þau ákvæði laganna sem lytu að tæknilegri og faglegri getu. Þar sem hvorki AE né A hefðu bent á eða haldið því fram að fyrirtækið hefði sjálft komið að verki sem uppfyllti umrætt skilyrði komst nefndin að þeirri niðurstöðu að ákvörðun A um að velja tilboð AE hefði verið í andstöðu við ákvæði útboðsgagna og 1. mgr. 66. gr. laga nr. 120/2016. Jafnframt komst nefndin að þeirri niðurstöðu að E hefði átt raunhæfa möguleika á því að verða fyrir valinu í hinu kærða útboði og að möguleikar hans hefðu skerst við brot A. Var það því álit nefndarinnar að A væri skaðabótaskyldur gagnvart E vegna kostnaðar hans af því að undirbúa tilboð sitt og taka þátt í hinu kærða útboðinu. Þá var jafnframt fallist á kröfu E um málskostnað úr hendi A.
Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 24. september 2024 kærði Exton ehf. (hér eftir „kærandi“) útboð Akureyrarbæjar (hér eftir „varnaraðili“) auðkennt „Hof menningarhús. Hljóðkerfi“.
Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun varnaraðila um að ganga til samninga við Atendi ehf. í hinu kærða útboði. Komi í ljós að samningur hafi þegar verið gerður krefst kærandi þess að kærunefnd útboðsmála lýsi hann óvirkan. Þá gerir kærandi jafnframt kröfu um að nefndin veiti álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda og að varnaraðila verði gert að greiða kæranda málskostnað.
Kæran var kynnt varnaraðila og Atendi ehf. og þeim gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum. Varnaraðili krefst þess í greinargerð sinni 30. september 2024 að öllum kröfum kæranda verði vísað frá eða hafnað. Atendi ehf. lagði fram athugasemdir 10. október 2024 og krefst þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað.
Með ákvörðun kærunefndar útboðsmála 23. október 2024 hafnaði nefndin stöðvunarkröfu kæranda.
Lokaathugasemdir kæranda bárust nefndinni 12. nóvember 2024.
Með tölvupósti 6. febrúar 2025 tilkynnti kærunefnd útboðsmála aðilum að við meðferð og úrlausn málsins myndi nefndin einnig líta til gagna sem aðilar hefðu lagt fram við meðferð máls nr. 9/2024 og að gögn máls nr. 9/2024 teldust þar með hluti af málsgögnum þessa máls.
Með tölvupósti 3. mars 2025 til varnaraðila óskaði nefndin eftir að varnaraðili legði fram tilboð og tilboðsgögn kæranda. Varnaraðili svaraði beiðninni 3. og 4. mars 2025 og afhenti umbeðin gögn. Þá benti varnaraðili á að eftir yfirferð og leiðréttingu á tilboði kæranda hefði það numið 72.933.658 krónum og verið 208% yfir kostnaðaráætlun.
I
Varnaraðili auglýsti hið kærða útboð innanlands í desember 2023 og óskaði þar eftir tilboðum í nýtt hljóðkerfi fyrir tónleikasalinn Hamraborg í menningarhúsinu Hofi. Í kafla 1.2 í verklýsingu var gerð grein fyrir tæknilegum kröfum til fronthátalara (aðalkerfis) en á meðal krafnanna var að hljóðstyrkur kerfis í hvíld skyldi ekki vera „meiri en 24 dBA (Slow) við 1 metra“, sbr. kaflinn „Umhverfishljóð“.
Í grein 1.2 í útboðslýsingu kom fram að þeir bjóðendur, sem kæmu til álita sem verktakar eftir opnun og yfirferð tilboða, skyldu að beiðni varnaraðila láta honum í té tilgreindar upplýsingar, þ.m.t. skrá yfir helstu verk og lýsingu á reynslu bjóðanda í sambærilegum verkum ásamt staðfestingu á reynslu hönnuðar á sambærilegum verkum. Þá kom eftirfarandi fram í greininni:
Verktaki skal skila með tilboði sínu að hann uppfylli skilyrði um reynslu af hönnun og uppsetningu búnaðar í sambærilegu verki þ.e. með tilliti til stærðar salar og salar með fjölþættri starfsemi eins og menningarhúss. Auk þess skal bjóðandi skila með tilboði sínu að hann hafi a.m.k. 2 ára reynslu af sambærilegum verkum.
Auk framangreinds kom fram í grein 8.0 í útboðslýsingu að yfirstjórnandi verksins og/eða verkstjóri verktaka skyldi vera með að minnsta kosti 2 ára starfsreynslu af sambærilegum verkum. Í grein 1.1 í verklýsingu kom fram að bjóðandi skyldi sýna fram á að hönnuður hefði reynslu af hönnun sambærilegra hljóðkerfa og/eða hefði hlotið vottun frá framleiðanda væri hönnuðurinn sjálfur ekki starfsmaður framleiðanda. Þá sagði í grein 1.6 verklýsingar að á meðal umbeðinna gagna væri staðfesting á reynslu og hæfni hönnuðar á sambærilegum verkum.
Í grein 4.5 í útboðslýsingu kom fram að varnaraðili myndi taka hagstæðasta tilboði sem uppfyllti kröfur útboðsgagna. Þá kom fram að varnaraðili áskildi sér rétt til að taka hvaða tilboði sem væri eða hafna þeim öllum.
Tilboð voru opnuð 26. febrúar 2024 en samkvæmt fundargerð opnunarfundar bárust sjö tilboð. Tilboð Hljóðfærahússins ehf. var lægst að fjárhæð 24.318.931 krónum og þar á eftir kom tilboð Atendi ehf. að fjárhæð 29.405.843 krónum. Tilboð kæranda nam 65.728.266 krónum. Þá nam kostnaðaráætlun varnaraðila 35.000.000 krónum.
Útboðið hefur áður komið til kasta kærunefndar útboðsmála, sbr. úrskurðir nefndarinnar 21. ágúst 2024 í málum 9/2024 og 11/2024. Með úrskurði í máli nr. 11/2024 felldi nefndin úr gildi ákvörðun varnaraðila um val á tilboði Atendi ehf. á þeim grundvelli að ekki lægi nægjanlega fyrir að búnaður félagsins uppfyllti þær lágmarkskröfur sem gerðar voru til hljóðstyrk kerfis í hvíld.
Með ódagsettu bréfi, sem mun hafa verið sent til bjóðenda 2. september 2024, upplýsti varnaraðili að hann hefði ákveðið að taka nýja ákvörðun um val tilboðs í útboðinu. Með bréfinu var öllum bjóðendum gefinn kostur á að leggja fram frekari upplýsingar til að sýna fram á að búnaður þeirra uppfyllti kröfur um hljóðstyrk kerfis í hvíld. Frestur til að skila upplýsingunum var veittur til 16. september 2024.
Með bréfi 18. september 2024, sem mun hafa verið sent til allra bjóðenda, upplýsti varnaraðili að þrír aðilar hefðu sent inn frekari gögn, þar með talið kærandi og Atendi ehf. Bæði kærandi og Atendi ehf. hefðu skilað fullnægjandi gögnum þar sem sýnt hefði verið fram á með fullnægjandi mælingum að hljóðstyrkur væri undir 24dBA og stæðist umræddar kröfur. Í niðurlagi bréfsins var rakið að Atendi ehf. ætti hagkvæmasta tilboðið og varnaraðili myndi ganga til samninga við félagið um hljóðkerfi í Hofi.
Varnaraðili og Atendi ehf. undirrituðu með rafrænum hætti samning í kjölfar útboðsins að morgni 24. september 2024 en lokið hafði verið við undirritun samningsins klukkan 8:13. Kæra málsins var móttekin síðar sama dag eða klukkan 16:12.
II
Kærandi byggir á að varnaraðili hafi brotið gegn lögum nr. 120/2016. Tilkynning varnaraðila um val tilboðs hafi ekki fullnægt kröfum 85. gr. laganna enda hafi hún hvorki haft að geyma yfirlýsingu um nákvæman biðtíma samningsgerðar né aðrar þær upplýsingar sem áskildar séu samkvæmt lagaákvæðinu. Tilkynning sé háð sömu annmörkum og kærunefnd útboðsmála hafi bent á í ákvörðun sinni í máli nr. 9/2024 og hafi biðtími ekki byrjað að líða við tilkynninguna, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 3/2018. Þá verði reynslu starfsmanna Atendi ehf. ekki jafnað til reynslu fyrirtækisins, sbr. úrskurð nefndarinnar nr. 9/2024, og hafi Atendi ehf. verið gefinn kostur á að skila inn upplýsingum um fleiri sambærileg verkefni sé um að ræða brot gegn 5. mgr. 66. gr. laga nr. 120/2016.
Í lokaathugasemdum sínum gerir kærandi athugasemdir við niðurstöðu nefndarinnar í máli nr. 9/2024 þar sem lagt hafi verið til grundvallar að varnaraðila hafi ekki verið skylt að auglýsa innkaupin á Evrópska efnahagssvæðinu. Ríkar kröfur verði að gera til opinberra aðila þegar kemur að útreikningum á áætluðu virði samninga. Allar upphæðir í umræddri kostnaðaráætlun gefi það sterklega til kynna að þær séu settar fram án þess að raunveruleg greining á áætluðu virði samningsins hafi legið fyrir þegar útboðið var auglýst. Það sé að mati kæranda mikilvæg forsenda fyrir útreikningum á áætluðu virði samninga.
Kærandi rekur fyrirmæli 2. mgr. 83. gr. laga nr. 120/2016 og lögskýringargögn með því ákvæði auk úrskurðar kærunefndar útboðsmála þar sem ekki hafi verið gerðar athugasemdir við kostnaðaráætlun sem hafi meðal annars verið byggð á niðurstöðu þverfaglegs starfshóps. Í máli þessu og í nr. 9/2024 hafi engar slíkar upplýsingar legið fyrir um gerð umræddar kostnaðaráætlunar og séu það óásættanleg vinnubrögð að mati kæranda. Samkvæmt grein 5.1 í útboðslýsingu hafi verið tiltekið að verktaki fengi aðgang að rafmagni fyrir verktæki og lýsingu, ásamt aðgangi að rými fyrir geymslu á verkfærum og kaffiaðstöðu ásamt afnot af skæralyftu. Í útboðsgögnum hafi auk þess verið tiltekið að varnaraðili útvegaði eftirlitsmann sem myndi annast eftirlit á byggingastað og að ráðgjöf í tengslum við verkefnið hafi verið í höndum Raftákn ehf.
Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 120/2016 skuli við útreikning á áætluðu virði samnings miða við heildarfjárhæð samnings og með réttu hafi útreikningar varnaraðila sömuleiðis átt að taka mið af öllum þessum útgjöldum sem óumdeilt sé að tengist umræddum innkaupum órjúfanlegum böndum. Samkvæmt 26. gr. laga nr. 120/2016 skuli við útreikning á áætluðu virði verksamnings miða við kostnað við verkið auk áætlaðs heildarverðmætis vöru og þjónustu sem kaupandi lætur fyrirtæki í té, að því tilskildu að það sé nauðsynlegt við framkvæmd verksins. Þegar innkaupum á fyrirhuguðu verki eða þjónustu sé skipt upp í fleiri sjálfstæða samninga skuli miða við samanlagt virði allra samninganna samkvæmt 29. gr. laga nr. 120/2016. Sama eigi við þegar innkaupum á vöru af svipaðri tegund er skipt upp í fleiri sjálfstæða samninga. Sé samanlagt virði allra samninganna yfir viðmiðunarfjárhæðum skal líta svo á að verðgildi hvers og eins samnings sé einnig yfir viðmiðunarmörkum.
Samkvæmt ÍST 30:2012 sé auk þess gerður greinarmunur á aukaverkum og viðbótarverkum og séu bæði hugtökin skilgreind í staðlinum. Í grein 5.2 í útboðslýsingu sé að finna áskilnað varnaraðila þess efnis að óska eftir viðbótarverkum en þrátt fyrir það sé ekki gert ráð fyrir viðbótarverkum í kostnaðaráætlun varnaraðila. Þá hafni kærandi sjónarmiðum kærunefndar í máli nr. 9/2024 þess efnis að fjárhæðir tilboða hafi gefi til kynna að ekki hafi verið skylt að auglýsa innkaupin á Evrópska efnahagssvæðinu enda hafi það einungis verið tilboð kæranda og varnaraðila, Atendi sem á endanum hafi staðið eftir að öðrum tilboðum hafi verið hafnað af varnaraðila sem ógildum.
Niðurstaða nefndarinnar í máli 9/2024 hafi að of miklu leyti tekið mið af hagsmunum ID electronic ehf. en það hafi einmitt komið fram í úrskurði nefndarinnar að innkaupaferlið hafi enn verið í gangi og að varnaraðili kynni að taka ákvörðun um val á tilboði annars bjóðanda í framhaldinu. Þessi niðurstaða hafi á hinn bóginn haft þær afleiðingar að innkaupin hafi tekið stefnu sem ólíklegt sé að nokkur aðili hafi nokkurn tímann getað ímyndað sér og það eitt og sér sé grafalvarlegt mál að mati kæranda. Kærandi telur mikilvægt að kærunefnd útboðsmála skoði þessi mál að nýju og endurskoði þá niðurstöðu að varnaraðila hafi ekki verið skylt að auglýsa innkaupin á Evrópska efnahagssvæðinu. Enda sé sú niðurstaða bersýnilega röng að mati kæranda og hafi það í för með sér að réttarúrræði kærunefndarinnar séu fyrir vikið mun takmarkaðri en þau réttilega eigi að vera samkvæmt ákvæðum laganna.
Kærandi bendi á að varnaraðili hafi samþykkt tilboð endanlega, áður en biðtími samkvæmt 86. gr. laganna hafi byrjað að líða. Varnaraðili hafi því gert bindandi samning við bjóðanda á miðjum tilboðstíma og það eigi engum að dyljast hversu alvarlegt brot það sé á ákvæðum laga um opinber innkaup. Árétti kærandi því kröfu sína um að kærunefnd útboðsmála lýsing fyrirliggjandi samning óvirkan á grundvelli 115 gr. laga nr. 120/2016 og/eða beiti öðrum viðeigandi úrræðum sem nefndin hafi samkvæmt ákvæðum laga um opinber innkaup, sbr. einnig úrskurð nefndarinnar í máli nr. 49/2023.
Kærandi hafni sjónarmiðum varnaraðila um að hann hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Varnaraðila hafi verið í lófa lagið að hafna tilboði kæranda á þeim grundvelli að það hafi verið yfir kostnaðaráætlun varnaraðila en varnaraðili hafi kosið að gera það ekki. Hafi það gefið kæranda réttmæta ástæðu til að ætla að tilboði hans yrði ekki hafnað á þessu forsendum. Málatilbúnaður varnaraðila þess efnis að kærandi hafi ekki geta búist við því að tilboði hans yrði tekið með vísan til 2. mgr. 82. gr. laga nr. 120/2016 sé ótrúleg að mati kæranda. Samkvæmt þessari túlkun varnaraðila sé kaupendum óheimilt að ganga að tilboðum þótt þau séu einungis einni krónu yfir fjárhagsáætlun kaupanda, ef ekki hafi verið settur fram sérstakur áskilnaður um slíkt. Sú túlkun sé á skjön við úrskurði kærunefndar og markmið laganna, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 41/2021. Í þessu sambandi sé einnig á það bent að kærunefnd útboðsmála hafi tekið fram í úrskurði sínum í máli 9/2024 að ekki hafi verið hægt að útiloka að tilboð kæranda yrði að endingu fyrir valinu.
Varnaraðili virðist ganga út frá því í greinargerð sinni að kærandi hafi mátt vita það að biðtími hafi verið útrunninn enda hafi kærandi notið aðstoðar lögfræðings vegna málsins. Við þennan málflutning hafi kærandi margt að athuga. Í fyrsta lagi sé það lagt til grundvallar að kærandi hafi ráðfært sig við lögfræðing um leið og hann móttók tölvupóst varnaraðila, sem sé ekki í samræmi við raunveruleikann. Í öðru lagi sé síður en svo hægt að fallast á þau sjónarmið varnaraðila að kærandi hafi getað gengið að því vísu að túlka mætti umræddan tölvupóst varnaraðila sem sendur var þann 18. september sl. sem formlega tilkynningu varnaraðila um val tilboðs og að útilokað hafi verið að önnur formlegri tilkynning yrði send. Í þessu sambandi sé á hinn bóginn rétt að benda á það að varnaraðili hafi enn ekki sent tilkynningu um töku tilboðs sem bindi enda á formlegt innkaupaferli. Það hafi ekki verið fyrr en ákvörðun nefndarinnar hafi legið fyrir að kærandi hafi fengið upplýsingar um að komist hafi bindandi samningur milli aðila. Varnaraðili horfi framhjá þeirri staðreynd að kærandi sé einnig bjóðandi þegar varnaraðili bendi á það að öll vafaatriði útboðsgagna skuli túlkuð bjóðendum í hag. Þá hafi kærunefndin sérstaklega tiltekið í úrskurði sínum í máli 9/2024 að nefndin hafi almennt miðað við að skilyrði útboðsskilmála sem lúti að reynslu bjóðenda af sambærilegum verkum skuli skýrð með þeim hætti að þar sé um að ræða reynslu þess fyrirtækis sem hafi komið en ekki starfsmanna þess, sbr. til hliðsjónar ákvörðun nefndarinnar 14. júlí 2022 í máli nr. 20/2022 og úrskurð nefndarinnar 22. september 2023 í máli nr. 31/2023. Sé því ekki hægt að fallast á að slík túlkun sé í andstöðu við meðalhófsreglu 15. gr. laga um opinber innkaup.
III
Varnaraðili byggir á að kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins, eins og sé áskilið samkvæmt 1. mgr. 105. gr. laga nr. 120/2016. Tilboð kæranda hafi verið hafi verið 93,5% hærri en kostnaðaráætlun og hafi varnaraðili ekki áskilið sér rétt til að taka hærra tilboði en sem hafi numið kostnaðaráætlun. Af þessu leiði að tilboð kæranda hafi verið óaðgengilegt í skilningi 2. mgr. 82. gr. laga nr. 120/2016 og þar með skorti kæranda lögvarða hagsmuni.
Hvað varðar kröfu kæranda um óvirkni samningsins tekur varnaraðili fram að kærunefnd útboðsmála geti aðeins lýst samning óvirkan sem sé yfir viðmiðunarfjárhæðum á EES-svæðinu, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 115. gr. laga nr. 120/2016. Samningsvirði sé undir þessum mörkum, líkt og hafi verið staðfest með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 9/2024, og geti nefndin því ekki lýst samninginn óvirkan.
Í samhengi við kröfu kæranda um álit á skaðabótaskyldu tekur varnaraðili fram að þar sem kæra snúist fyrst og fremst um val á tilboði og kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af þeirri niðurstöðu beri að hafna kröfu hans um álit á skaðabótaskyldu. Kærandi hafi tekið þátt í útboðinu en þar sem hann hafi boðið verð sem hafi verið 93,5% hærra en kostnaðaráætlun þá hafi hann ekki getað búist við að tilboði hans yrði tekið með vísan til 2. mgr. 82. gr. laga nr. 120/2016 enda slík niðurstaða ólögmæt. Því sé enginn grundvöllur fyrir skaðabótaskyldu af hálfu varnaraðila samkvæmt orðalagi 1. mgr. 119. gr. laga nr. 120/2016. Eins og fram hafi komið sé tilboð kæranda óaðgengilegt skv. 2. mgr. 82. gr. laga nr. 120/2016 og því geti framkvæmd varnaraðila á útboðinu ekki skert möguleika kæranda á vali í útboðinu, jafnvel þótt einhverjir hnökrar hafi verið á formlegri framkvæmd. Af sömu ástæðum eigi kærandi því síður möguleika á skaðabótum skv. 2. mgr. 119. gr. laga nr. 120/2016. Þetta hafi kæranda mátt vera ljóst.
Í samhengi við val á tilboði Atendi ehf. þá vísar varnaraðili til röksemda Atendi ehf. í máli nr. 9/2024 varðandi reynslu starfsmanna þess. Af 72. gr. laga nr. 120/2016 leiði að heimilt sé að vísa til mannauðs þegar metin sé tæknileg og faglega geta. Kröfur um reynslu bjóðanda án nánari tilgreiningar sé samkvæmt almennri málskýringu hægt að túlka sem reynslu starfsmanna fyrirtækisins enda sé slík reynsla að lokum það sem skipti máli. Ef ekki megi líta til reynslu starfsmanna bjóðanda þá hljóti að þurfa að taka það skýrar fram. Valinn bjóðandi hafi túlkað útboðsgögnin þannig og lýst því nákvæmlega hvernig reynsla fyrirtækisins hafi orðið til í tilboði sínu.
Í útboðsgögnum hafi aðeins verið rætt um að verktaki skyldi með tilboði sínu sýna fram á að hann uppfyllti skilyrði um reynslu af hönnun og uppsetningu í búnaðar í sambærilegu verki og skyldi skila staðfestingu á að hann hafi að minnsta kosti 2 ára reynslu af sambærilegum verkum. Samkvæmt almennri málvenju geti verktaki verið einstaklingur ef því sé að skipta. Hér sé auk þess talað um bjóðanda en ekki fyrirtækið sem slíkt. Þetta geti valdið misskilningi. Þá megi ráða af grein 4.5 í útboðs- og samningsskilmálum, sem mæli fyrir um að áskilnað verkkaupa til að láta minniháttar vöntun eða formannmarka á fylgigögnum ekki hafa áhrif á gildi tilboða, að varnaraðili hafi ekki ætlað að hafa strangt mat á þessum kröfum. Útboðsgögn séu mismunandi hvað þetta varði. Í sumum tilfellum séu ákvæði mjög skýr og vafalaus um hvers sé krafist og ófrávíkjanleg ákvæði um frávísun tilboða. Meta verði hvert tilvik fyrir sig í ljósi orðalags útboðsgagna.
Fyrst ekki hafi verið kveðið skýrar á um það í útboðsgögnum sé að mati varnaraðila andstætt meðalhófsreglu 15. gr. laga nr. 120/2016 að horfa framhjá reynslu bjóðanda sem felist í reynslu tæknimanna hans sem hafi augljóslega þá þekkingu og reynslu sem þurfi til verkefnisins samkvæmt kröfum útboðsgagna. Ef kaupandi vilji útiloka að bjóðandi byggi á reynslu starfsmanna sinna, sem hafi öðlast hana í öðrum fyrirtækjum, þá þurfi hann að taka það skýrar fram í útboðsgögnum. Úrskurðir kærunefndar útboðsmála hljóti að taka mið af beinu orðalagi útboðsgagna. Túlka beri allan vafa í útboðsgögnum bjóðanda í hag. Þá sé það einnig andstætt meginreglu 15. gr. laga nr. 120/2016 um samkeppni að túlka orðalag útboðsgagna svo þröngt, andstætt almennri málvenju, að ekki megi við mat á reynslu fyrirtækis horfa til reynslu starfsmanna þess.
Í 12. gr. reglugerðar 955/2016 sé kveðið á um gögn til að sannreyna efnahagslega og fjárhagslega stöðu og tæknilega getu bjóðanda. Í c. lið 2. mgr. kemur fram að hægt sé að jafnaði að færa sönnur á tæknilega getu bjóðanda með tilvísun til tæknimanna eða þeirra tæknilegu aðila sem komi að málinu, hvort sem þeir heyri beint undir fyrirtæki bjóðanda eða ekki, einkum þeirra sem beri ábyrgð á gæðaeftirliti og þegar um sé að ræða opinbera verksamninga, þeirra sem verktaki geti leitað til vegna framkvæmdar verksins. Í ljósi framangreinds taldi Atendi ehf. að fyrirtækið uppfyllti án nokkurs vafa kröfu útboðsgagna um reynslu og lýsti því nákvæmlega hvaða starfsmenn hefðu slíka reynslu og frá hvaða fyrirtæki, í tilboði sínu. Í þessu samhengi sé einnig vísað til úrskurðar nefndarinnar í máli nr. 14/2006 þar sem leyst hafi verið úr sambærilegu tilviki og hér reyni á. Þar hafi nefndin lagt til grundvallar að óheimilt hafi verið að líta framhjá reynslu starfsmanna fyrirtækis við mat á tæknilegu hæfi fyrirtækis en í lögum nr. 94/2001 um opinber innkaup, sem hafi verið í gildi þegar úrskurðurinn hafi verið kveðinn upp, hafi verið ákvæði sambærilegt því sem er að finna í núgildandi lögum og reglugerð, sbr. 31. gr. laga nr. 94/2001.
Í báðum þeim úrskurðum sem kærunefnd útboðsmála hafi vísað til í úrskurði 9/2024 hafi verið fjallað um stórar verkframkvæmdir, sem lúti öðrum lögmálum en þjónustuútboð eins og það sem hér um ræði. Í úrskurði 31/2023 hafi verið fjallað um byggingu verknámsaðstöðu við Fjölbrautarskólann í Breiðholti og í úrskurði 20/2022 hafi verið fjallað um byggingu og fullnaðarfrágang leikskóla og lóðar í Urriðaholti. Í stórum verkframkvæmdum geti eðlilega skipt verkkaupa miklu máli að fyrirtækið sem samið sé við hafi áður komið að sambærilegum verkum og að innan fyrirtækisins hafi þannig skapast reynsla starfsmanna í stórum hópi sem þurfi að samhæfa sína vinnu samkvæmt ströngum verkferlum. Þau rök eigi ekki við hér, enda mun einfaldara verkefni að ræða í þjónustu- og vöruútboði, þar sem starfsmenn hafi þó samt sem áður unnið slík verkefni saman áður að hluta til í öðru fyrirtæki.
Framangreindu til viðbótar tekur varnaraðili fram að með bréfi til bjóðenda 2. september 2024 hafi öllum bjóðendum verið gefið tækifæri til að skila inn gögnum/mæliblöðum til að sýna fram á þá kröfu sem komi fram í 3. mgr. í kafla 1.2. í útboðslýsingu. Kærandi hafi ekki gert athugasemd við það fyrirkomulag og skilað staðfestingu varðandi sitt hljóðkerfi 16. september 2024 eins og fram komi í kæru. Atendi ehf. hafi skilað inn fullnægjandi upplýsingum um sitt hljóðkerfi. Tilboð félagsins sé því bæði gilt og uppfylli kröfur um tæknilega getu. Aðeins einn bjóðandi til viðbótar hafi skilað upplýsingum um boðið hljóðkerfi en þau gögn hafi ekki verið fullnægjandi.
Varnaraðili fallist á að bréf hans til bjóðenda 18. september 2024 hafi ekki uppfyllt kröfur 85. gr. laga nr. 120/2016 um skýrleika. Þó beri að hafa í huga að í lögum nr. 120/2016 sé skýrlega tilgreint hversu langur biðtíminn sé og hafi kærandi haft löglærðan aðila sér til aðstoðar. Þótt bréf varnaraðila hafi mátt vera nákvæmara, þá breyti það ekki þeirri staðreynd að kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af vali á tilboði enda tilboð hans langt yfir kostnaðaráætlun og því óaðgengilegt samkvæmt 2. mgr. 82. gr. laga nr. 120/2016. Varnaraðili telji miður að mistekist hafi að senda fullnægjandi tilkynningu um val á tilboði og muni framvegis gæta þess að hafa slíkar tilkynningar í lagi. Varnaraðili hafi þegar kæran hafi borist nefndinni þegar gert bindandi samning við Atendi ehf. að liðnum fimm daga biðtíma en bréf til bjóðenda hafi verið sent 18. september 2024 en kæra borist 24. sama mánaðar. Kærandi hafi mátt vita að biðtíma hafi verið lokið. Verði samningur við Atendi ehf. því ekki felldur úr gildi samkvæmt 114. gr. laga nr. 120/2016 þótt tilkynning varnaraðila um val á tilboði hafi mátt vera nákvæmari auk þess sem óvirkni eigi aðeins við um samninga sem séu yfir viðmiðunarmörkum um útboðsskyldu á EES-svæðinu.
Atendi ehf. byggir meðal annars á að ekki séu lagaskilyrði til að lýsa samning óvirkan þar sem innkaupin hafi verið undir viðmiðunarfjárhæðum, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 9/2024. Þá hafi kærandi engar athugasemdir gert við þá aðferðarfræði sem notast hafi verið við í kjölfar úrskurðar nefndarinnar. Þvert á móti hafi kærandi tekið þátt í ferlinu með öflun og afhendingu gagna sem kærandi hafi vitað að yrðu notuð við mat á tilboðum bjóðenda. Loks leggi Atendi ehf. áherslu á að félagið uppfylli skilyrði um hæfi auk þess sem kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af málsástæðum sínum og kröfum þar sem tilboð hans hafi verið 188% yfir kostnaðaráætlun og umtalsvert hærra en önnur tilboð. Það hafi því verið ljóst að kærandi hafi ekki átt möguleika á að tilboði hans yrði tekið.
IV
A
Ágreiningur þessa máls lýtur að útboði varnaraðila varðandi kaup á nýju hljóðkerfi fyrir tónleikasalinn Hamraborg í menningarhúsinu Hofi. Lagt verður til grundvallar að kærandi, sem þátttakandi í hinu kærða útboði, hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins, sbr. 1. mgr. 105. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.
Kærandi krefst þess meðal annars að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun varnaraðila um að ganga til samninga við Atendi ehf. í hinu kærða útboði. Þá krefst kærandi þess að samningur varnaraðila og Atendi ehf. verði lýstur óvirkur.
Fyrir liggur í málinu að Atendi ehf. og varnaraðili undirrituðu samning að morgni 24. september 2024. Hefur þannig komist á bindandi samningur samkvæmt 1. mgr. 114. gr. laga nr. 120/2016 og verður þegar af þeirri ástæðu að hafna kröfu kæranda um að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun varnaraðila um að ganga til samninga við Atendi ehf.
Við mat á kröfu kæranda um að fyrrgreindur samningur verði lýstur óvirkur er til þess að líta að samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 120/2016 hefur kærunefnd útboðsmála aðeins heimild til að lýsa samninga óvirka sem eru yfir viðmiðunarfjárhæðum samkvæmt 4. mgr. 23. gr. laganna. Í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 9/2024, sem rekið var á milli aðila þessa máls og laut að sama útboði og deilt er um í þessu máli, lagði nefndin til grundvallar að verðmæti innkaupanna hefði ekki náð viðmiðunarfjárhæðum 4. mgr. 23. gr. laga nr. 120/2016. Við þetta mat leit nefndin meðal annars til sundurliðaðrar kostnaðaráætlunar varnaraðila og annarra fyrirliggjandi gagna. Þá tók nefndin fram að fjárhæðir annarra tilboða sem bárust í útboðinu styddu ekki við sjónarmið kæranda um að kostnaðaráætlunin hefði byggst á óraunhæfum væntingum eða hafi sérstaklega verið gerð í því skyni að innkaupin yrðu undir viðmiðunarfjárhæðum vegna útboðsskyldu á Evrópska efnahagssvæðinu.
Að mati kærunefndar útboðsmála liggja ekki fyrir nýjar upplýsingar sem eru til þess fallnar að hagga framangreindu mati nefndarinnar í máli nr. 9/2024. Verður því að leggja til grundvallar innkaup varnaraðila hafi ekki náð viðmiðunarfjárhæðum 4. mgr. 23. gr. laga nr. 120/2016. Þegar af þessari ástæðu verður að hafna kröfu kæranda um að samningur varnaraðila og Atendi ehf. verði lýstur óvirkur.
B
Að framangreindu frágengu þarf að taka afstöðu til krafna kæranda um að nefndin veiti álit á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart honum og varnaraðila verði gert að greiða honum málskostnað. Hvað varðar fyrrnefndu kröfuna kemur fram í 1. mgr. 119. gr. laga nr. 120/2016 að kaupandi sé skaðabótaskyldur vegna tjóns sem brot á lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim hefur í för með sér fyrir fyrirtæki. Fyrirtæki þurfi einungis að sanna að það hafi átt raunhæfa möguleika á að verða valið af kaupanda og möguleikar þess hafi skerst við brotið.
Kærandi byggir meðal annars á að tilkynning varnaraðila um val á tilboði Atendi ehf. hafi verið í andstöðu við lög nr. 120/2016 og samningur því gerður áður en biðtími samningsgerðar var liðinn.
Í 1. mgr. 85. gr. laga nr. 120/2016 er meðal annars mælt fyrir um að kaupandi skuli tilkynna bjóðendum um ákvarðanir um val tilboðs. Í 2. mgr. 85. gr. segir að í tilkynningu um ákvörðun um val tilboðs skuli meðal annars koma fram upplýsingar um eiginleika og kosti þess tilboðs sem kaupandi valdi með hliðsjón af valforsendum útboðsgagna ásamt yfirlýsingu um nákvæman biðtíma samningsgerðar samkvæmt 86. gr. laganna. Í 1. mgr. 86. gr. kemur fram að óheimilt sé að gera samning í kjölfar ákvörðunar um val tilboðs fyrr en að liðnum fimm daga biðtíma vegna innkaupa yfir innlendum viðmiðunarfjárhæðum samkvæmt 1. mgr. 23. gr. laganna.
Varnaraðili tilkynnti bjóðendum um val tilboðs með bréfi 18. september 2024. Umrætt bréf hafði ekki að geyma yfirlýsingu um nákvæman biðtíma samningsgerðar eins og áskilið er samkvæmt 2. mgr. 85. gr. laga nr. 120/2016. Verður því að telja að biðtími samkvæmt 86. gr. laganna hafi ekki byrjað að líða við tilkynninguna, sbr. úrskurð kærunefndar útboðsmála í máli nr. 3/2018 og ákvörðun nefndarinnar í máli nr. 9/2024. Rétt þykir að benda á að hér er um að ræða sama annmarka og var á fyrri tilkynningu varnaraðila um val tilboðs í útboðinu, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 9/2024. Samkvæmt þessu verður að telja að samningur varnaraðila við Atendi ehf., sem gerður var að morgni 24. september 2024, hafi verið gerður áður en biðtími samningsgerðar var liðinn.
Samkvæmt framangreindu verður að leggja til grundvallar að varnaraðili hafi brotið gegn 85. og 86. gr. laga nr. 120/2016 við meðferð útboðsins. Á hinn bóginn verður að telja að þetta brot nægi ekki eitt og sér til þess að unnt sé að leggja til grundvallar að kærandi hafi haft raunhæfa möguleika til að verða valinn í útboðinu og að möguleikar hans hafi skerst við brotið, sbr. 1. mgr. 119. gr. laga nr. 120/2016.
C
Kærandi byggir einnig á að Atendi ehf. hafi ekki fullnægt skilyrði útboðsgagna um reynslu af sambærilegu verki og að varnaraðila hafi því verið óheimilt að taka tilboði fyrirtækisins. Varnaraðili heldur því á hinn bóginn fram að Atendi ehf. hafi fullnægt skilyrðinu á grundvelli reynslu starfsmanna fyrirtækisins.
Samkvæmt c. lið 1. mgr. 69. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup er kaupanda heimilt að setja skilyrði fyrir þátttöku fyrirtækja á grundvelli tæknilegrar og faglegrar getu. Í 1. mgr. 72. gr. segir að tæknileg og fagleg geta fyrirtækis skuli vera það trygg að það geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart kaupanda. Í því skyni sé kaupanda heimilt að setja skilyrði um að fyrirtæki hafi nauðsynlegan mannauð, tækniúrræði og reynslu til að framkvæma samning í samræmi við viðeigandi gæðastaðal. Þá segir í 2. mgr. 72. gr. að kaupandi geti krafist þess að fyrirtæki hafi nægilega reynslu og sýni fram á það með viðeigandi gögnum í tengslum við samninga sem fyrirtækið hafi áður framkvæmt. Kaupanda sé heimilt að álykta að fyrirtæki skorti faglega getu þegar hann hefur komist að raun um hagsmunaárekstra fyrirtækisins sem geti haft neikvæð áhrif á efndir samnings.
Í 5. mgr. 74. gr. segir að fyrirtæki geti fært sönnur á tæknilega getu sína samkvæmt 72. gr. með einni eða fleiri öðrum aðferðum sem taldar skuli upp í reglugerð sem ráðherra setji, eftir því sem nauðsynlegt er eftir eðli, umfangi, mikilvægi eða fyrirhugaðri notkun verks, vöru eða þjónustu, sbr. 12. gr. reglugerðar nr. 955/2016. Samkvæmt a. lið 2. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar er skrá yfir þau verk sem unnin hafa verið á undanförnum fimm árum, ásamt vottorðum um fullnægjandi efndir og niðurstöðu mikilvægustu verksamninga, á meðal þeirra aðferða sem skal að jafnaði vera hægt að færa sönnur á tæknilega getu bjóðanda með. Þá leiðir af c. lið 2. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar að einnig skal að jafnaði vera hægt að færa sönnur á tæknilega getu bjóðanda með tilvísun til tæknimanna eða þeirra tæknilegu aðila sem koma að málinu, hvort sem þeir heyra beint undir fyrirtæki bjóðanda eða ekki, einkum þeirra sem bera ábyrgð á gæðaeftirliti og, þegar um er að ræða opinbera verksamninga, þeirra sem verktaki getur leitað til vegna framkvæmdar verksins.
Eins og er nánar rakið í kafla I hér að framan var gert að skilyrði í grein 1.2 í útboðsgögnum að bjóðandi, sem einnig var nefndur verktaki í gögnunum, skyldi hafa reynslu af hönnun og uppsetningu búnaðar í sambærilegu verki. Auk þess var gert að skilyrði að bjóðandi skyldi hafa að minnsta kosti tveggja ára reynslu af sambærilegum verkum. Þá kom fram í greininni að bjóðandi skyldi, kæmi hann til álita sem verktaki og eftir því væri óskað, leggja fram skrá yfir helstu verk og lýsingu á reynslu bjóðanda í sambærilegum verkum. Auk framangreinds var gert að skilyrði að hönnuður hefði reynslu af hönnun sambærilegra hljóðkerfa og/eða hafi hlotið vottun frá framleiðanda væri hönnuðurinn sjálfur ekki starfsmaður framleiðanda.
Í tilboðsgögnum Atendi ehf. var bæði vísað til verka sem félagið sjálft hafði komið að auk verka sem starfsmenn þess höfðu komið að fyrir hönd fyrrverandi vinnuveitanda. Þá var í tilboðsgögnum rakið að þrír einstaklingar myndu sjá um hönnun kerfanna og fjallað um hvaða verkum þeir hefðu komið að.
Í minnisblaði varnaraðila frá 29. febrúar 2024 vegna yfirferðar á tilboðum kemur fram að Atendi ehf. hafi uppfyllt skilyrðið um sambærileg verk og í dæmaskyni vísað til verkanna „Harpa, Hof, Grieg Hallen“. Óumdeilt er í málinu að starfsmenn Atendi ehf. sinntu umræddum verkum fyrir hönd kæranda sem var fyrrverandi vinnuveitandi þeirra. Þá hafa hvorki Atendi ehf. né varnaraðili bent á eða haldið því fram að þau verk sem fyrirtækið hefur komið sjálft að hafi uppfyllt skilyrði útboðsgagna um sambærileg verk. Verður því að meta hvort að varnaraðili hafi verið heimilt að líta svo á að Atendi ehf. hafi uppfyllt umrætt skilyrði á grundvelli reynslu starfsmanna þess.
Kærunefnd útboðsmála hefur almennt miðað við að skilyrði útboðsskilmála sem lúta að reynslu bjóðenda af sambærilegum verkum skuli skýrð með þeim hætti að þar sé um að ræða reynslu þess fyrirtækis sem kom að viðkomandi verki en ekki starfsmanna þess, sbr. ákvarðanir nefndarinnar í málum nr. 20/2022 og 44/2024 og úrskurð nefndarinnar í máli nr. 31/2023. Í síðastnefnda málinu lagði kærunefndin jafnframt til grundvallar að heimild, til að leggja reynslu starfsmanna að jöfnu við almenna reynslu og hæfni fyrirtækis, yrði ekki leidd af 76. gr. laga nr. 120/2016.
Í útboðsgögnum var gerður greinarmunur á annars vegar reynslu einstaklinga sem komu að verkinu á vegum bjóðanda og hins vegar reynslu bjóðanda sjálfs. Þá var í útboðsgögnum ekki að finna heimild fyrir varnaraðila til að taka tillit til reynslu starfsmanna við mat á hvort bjóðandi hefði komið að sambærilegu verki heldur var sérstaklega tiltekið að bjóðanda bæri að leggja fram skrá yfir helstu verk og lýsingu á reynslu hans í sambærilegum verkum, sbr. til hliðsjónar fyrrnefndan a. lið 2. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 955/2016. Verður því ekki fallist á með varnaraðila að bjóðanda hafi verið heimilt að færa sönnur á tæknilega getu sína að þessu leyti með vísan til tæknimanna eða þeirra tæknilegu aðila sem kæmu að málinu eftir c. lið 2. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 955/2016.
Að framangreindu gættu og með hliðsjón af útboðsgögnum að öðru leyti verður lagt til grundvallar að skilyrðið um sambærileg verk hafi lotið að reynslu bjóðanda og verði ekki túlkað með þeim hætti að reynsla starfsmanna af sambærilegum verkum dugi til. Þá verður að telja, eins og atvikum er hér háttað, að skilyrðið túlkað með þessum hætti sé hvorki í andstöðu við meginreglur 15. gr. laga nr. 120/2016 né þau ákvæði laganna sem lúta að tæknilegri og faglegri getu. Loks verður að telja að úrskurður kærunefndar útboðsmála í máli nr. 14/2006 hafi ekki þýðingu við úrlausn þessa máls enda voru atvik þar önnur og ekki uppi samskonar vafi um túlkun útboðsgagna.
Svo sem fyrr segir hefur hvorki Atendi ehf. né varnaraðili bent á eða haldið því fram að fyrirtækið hafi sjálft komið að verki sem uppfyllti umrætt skilyrði. Að þessu og öðru framangreindu gættu verður að telja að ákvörðun varnaraðila um að velja tilboð Atendi ehf. í útboðinu hafi verið í andstöðu við ákvæði útboðsgagna og 1. mgr. 66. gr. laga nr. 120/2016.
D
Af 1. mgr. 119. gr. laga nr. 120/2016 leiðir að ekki er nægjanlegt að fyrir liggi brot gegn lögum nr. 120/2016 heldur verður fyrirtæki einnig að sanna að það hafi átt raunhæfa möguleika á að verða valið af kaupanda og möguleikar þess hafi skerst við brotið.
Varnaraðili hefur meðal annars byggt á að kærandi hafi ekki átt raunhæfa möguleika á að verða valinn í útboðinu þar sem tilboð hans hafi verið verulega yfir kostnaðaráætlun og því óaðgengilegt í skilningi 2. mgr. 82. gr. laga nr. 120/2016. Þar segir meðal annars að tilboð teljist óaðgengilegt ef bjóðandi býður hærra verð en fyrir fram ákveðin fjárhagsáætlun kaupanda gerir ráð fyrir, nema kaupandi hafi áskilið sér rétt til að taka slíku tilboði. Þá leiðir af a. lið 1. mgr. 66. gr. laganna að ekki skal taka tilboði sem er óaðgengilegt samkvæmt 82. gr. laganna.
Í grein 4.5 í útboðsgögnum kom fram að varnaraðili áskildi sér rétt til að taka hvaða tilboði sem er og þykir mega líta svo á að varnaraðili hafi þannig áskilið sér rétt til að taka tilboðum yfir kostnaðaráætlun sinni, sbr. 2. mgr. 82. gr. laga nr. 120/2016. Finnur sér þetta einnig stoð í þeirri staðreynd að varnaraðili hafnaði ekki tilboði kæranda með vísan til 2. mgr. 82. gr. laga nr. 120/2016 heldur lagði mat á hvort tilboðið uppfyllti skilyrði útboðsgagna. Þá gaf varnaraðili kæranda, líkt og öðrum bjóðendum, kost á að leggja fram frekari gögn til að sýna fram á að kerfi hans uppfyllti kröfur um hljóðstyrk kerfisins í hvíld og lagði mat á hvort þau gögn væru fullnægjandi. Að mati nefndarinnar er vandséð hvaða ástæður lágu að baki þessari málsmeðferð ef varnaraðili taldi sér skylt að hafna tilboði kæranda á grundvelli 2. mgr. 82. gr. laga nr. 120/2016. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á með varnaraðila að sú staðreynd að tilboð kæranda hafi verið töluvert yfir kostnaðaráætlun varnaraðila girði fyrir að kærandi hafi haft raunhæfa möguleika til að verða valinn í útboðinu.
Svo sem áður hefur verið rakið óskaði varnaraðili eftir því við alla bjóðendur í útboðinu að þeir legðu fram gögn til að sýna fram á að uppfylltar væru kröfur útboðsgagna um hljóðstyrk kerfis í hvíld. Í bréfi varnaraðila 18. september 2024 til bjóðenda kom fram að þrjú fyrirtæki hefðu skilað inn frekari gögnum en aðeins kærandi og Atendi ehf. hefðu uppfyllt umrædda kröfu á grundvelli framlagðra gagna. Samkvæmt þessu verður að miða við að val varnaraðila hafi staðið á milli tilboða kæranda og Atendi ehf. en svo sem fyrr segir er það niðurstaða nefndarinnar að varnaraðila hafi ekki verið heimilt að velja tilboð Atendi ehf. í útboðinu.
Að öllu framangreindu gættu er það mat nefndarinnar að kærandi hafi átt raunhæfa möguleika á því að verða fyrir valinu í hinu kærða útboði og að möguleikar hans hafi skerst við brot varnaraðila. Það er því álit nefndarinnar varnaraðili sé skaðabótaskyldur gagnvart kæranda vegna kostnaðar hans af því að undirbúa tilboð sitt og taka þátt í hinu kærða útboði, sbr. 1. mgr. 119. gr. laga nr. 120/2016.
Samkvæmt framangreindum málsúrslitum verður varnaraðila gert að greiða kæranda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn í samræmi við það sem greinir í úrskurðarorði.
Úrskurðarorð:
Varnaraðili, Akureyrarbær, er skaðabótaskyldur gagnvart kæranda, Exton ehf., vegna kostnaðar hans af þátttöku í útboði auðkennt „Hof menningarhús. Hljóðkerfi“.
Varnaraðili greiði kæranda 1.250.000 krónur í málskostnað.
Öðrum kröfum kæranda er hafnað.
Reykjavík, 12. mars 2025
Reimar Pétursson
Kristín Haraldsdóttir
Auður Finnbogadóttir