Hoppa yfir valmynd
3. janúar 2024 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Auglýst eftir umsóknum í Þróunarsjóð námsgagna og Sprotasjóð

Mennta- og barnamálaráðuneytið auglýsir eftir umsóknum í Þróunarsjóð námsgagna og Sprotasjóð.

Sótt er um styrkina hjá Rannís sem annast umsýslu sjóðanna fyrir hönd ráðuneytisins. Umsóknarfrestur er til 15. febrúar 2024 kl. 15.00.

Þróunarsjóður námsgagna

Hlutverk Þróunarsjóðs námsgagna er að stuðla að nýsköpun, þróun, gerð og útgáfu námsgagna fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla í því markmiði að tryggja framboð og fjölbreytileika námsgagna í samræmi við þarfir nemenda og skóla.

Við úthlutun verður tekið tillit til hvort námsefnið styðji við grunnþætti menntunar og hversu aðgengilegt það verður nemendum.

Áherslur sjóðsins árið 2024:

  1. Námsefni ætlað börnum með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn vegna tungumálakennslu.
  2. Námsefni sem styður við stærðfræði og náttúrugreinar.
  3. Námsefni sem miðar að markvissri eflingu íslensks orðaforða og hugtakaskilnings í ýmsum námsgreinum.

Stefna sjóðsins er að námsefnið sem styrkt er verði gefið út með rafrænum hætti og gert aðgengilegt á netinu, þegar við á. Hægt er að sækja um almennan þróunarstyrk fyrir allt að 2 m.kr. en einnig um þróunar- og útgáfustyrk fyrir allt að 4 m.kr. Stjórn sjóðsins hefur ákveðið að veita að hámarki tveimur umsóknum þennan hámarksstyrk, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Árlega styrkir sjóðurinn námsefnisgerð á öllum skólastigum. Árið 2023 veitti Þróunarsjóður námsgagna 78,5 milljónum króna til alls 35 verkefna.

Sprotasjóður

Hlutverk Sprotasjóðs er að styðja við þróun og nýjungar í skólastarfi í leik-, grunn- og framhaldsskólum samræmi við reglugerð, menntastefnu og aðalnámskrá.

Áherslur sjóðsins árið 2024:

  1. Farsæld barna og ungmenna með áherslu á umburðarlyndi, fjölbreytileika og inngildingu nemenda.
  2. Teymiskennsla og samstarf.

Einnig er hægt að senda inn umsóknir sem ekki falla undir þessi áherslusvið. Allar umsóknir eru metnar út frá matskvarða sjóðsins.

Á hverju ári styrkir sjóðurinn tugi verkefna alls staðar af landinu sem stuðla að þróun og nýsköpun í skólastarfi. Árið 2023 veitti Sprotasjóður 56,8 milljónir króna til 25 verkefna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta