Hoppa yfir valmynd
10. ágúst 2001 Forsætisráðuneytið

A-125/2001 Úrskurður frá 10. ágúst 2001

ÚRSKURÐUR



Hinn 10. ágúst 2001 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-125/2001:

Kæruefni

Með símbréfi, dagsettu 26. júlí sl., kærði […], fréttamaður, f.h. […], synjun menntamálaráðuneytisins, dagsetta þann dag, um að veita honum aðgang að minnisblöðum og bréfum í vörslum ráðuneytisins varðandi ráðuneytið og Framkvæmdasýslu ríkisins vegna byggingarnefndar Þjóðleikhússins.

Eins og mál þetta er vaxið, taldi úrskurðarnefnd ekki ástæðu til þess að leita umsagnar menntamálaráðuneytisins um kæruna, sbr. 2. mgr. 16. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Málsatvik

Kærandi óskaði eftir því við menntamálaráðuneytið með beiðni, dagsettri 20. júlí sl., að fá ljósrit af öllum minnisblöðum og bréfum í vörslum ráðuneytisins varðandi ráðuneytið og Framkvæmdasýslu ríkisins vegna byggingarnefndar Þjóðleikhússins.

Menntamálaráðuneytið hafnaði beiðninni með bréfi, dagsettu 26. júlí sl. Ekki er ástæða til þess að gera grein fyrir röksemdum ráðuneytisins fyrir synjun sinni, en með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, hefur úrskurðarnefnd haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndar, dagettri 26. júlí sl., segir kærandi orðrétt: "Ég hef í dag móttekið synjun ráðuneytisins við umsókn minni … Í synjuninni er vísað til ummæla sem höfð hafa verið eftir ríkissaksóknara í fjölmiðlum um að embætti hans muni í náinni framtíð hlutast til um rannsókn á málum tengdum byggingarnefndinni og því synjað með vísan til 1. mgr. 2. gr. laganna", þ.e. upplýsingalaga. Síðan segir: "Ég mótmæli þessum rökstuðningi ráðuneytisins og tel eðli gagna, sem óumdeilanlega hafa verið opinber fram að þessu, breytist ekki við það að þau kunni að koma að gagni við opinbera rannsókn. Ég tel það fráleita stjórnsýslu og með öllu andstæða anda upplýsingalaganna að synja um aðgang að öllum gögnum sem varða slíkt mál á þessum forsendum, sem byggjast á rýmstu túlkun á undanþáguákvæði 1. mgr. 2. gr. laganna."

Í tilefni af þessu kærumáli sem og öðrum kærumálum, sem lotið hafa að synjun stjórnvalda um að veita aðgang að gögnum, tengdum byggingarframkvæmdum við Þjóðleikhúsið og byggingarnefnd leikhússins, ákvað úrskurðarnefnd að senda ríkissaksóknara svofellda fyrirspurn með bréfi, dagsettu 31. júlí sl.: "Í fréttum hefur verið greint frá því að þér, herra ríkissaksóknari, hafið lagt fyrir lögreglu að hefja opinbera rannsókn á máli sem varðar m.a. byggingarframkvæmdir við Þjóðleikhúsið og byggingarnefnd leikhússins. Þar sem í 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er tekið fram, að lögin gildi ekki um rannsókn eða saksókn í opinberu máli, er þess virðingarfyllst farið á leit við yður að þér staðfestið að umrædd rannsókn sé hafin, t.d. með því að láta úrskurðarnefnd í té sem trúnaðarmál ljósrit af bréfi yðar til ríkislögreglustjóra sem vísað hefur verið til í fréttum. Ennfremur er þess óskað að þér eða ríkislögreglustjóri upplýsi nefndina um það hvort þau gögn, sem fyrrgreind kærumál lúta að, verði eða kunni að verða tekin til skoðunar vegna rannsóknarinnar, svo og hversu langt aftur í tímann rannsóknin muni eða kunni að ná."

Í svarbréfi ríkissaksóknara, dagsettu 3. ágúst sl., er eftirfarandi tekið fram: "Með bréfi, dagsettu 27. f.m. var efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjórans falið að hefja lögreglurannsókn á ætluðum refsiverðum auðgunarbrotum [A] í tengslum við vöruúttektir hans í nafni byggingarnefndar Þjóðleikhússins. Að beiðni nefndarinnar fylgir hér með ljósrit af því bréfi. – Ætla má að þau gögn sem fyrrgreind kærumál lúta muni verða til skoðunar við lögreglurannsókn málsins. Ekki þykir fært á þessu stigi að segja til um hversu langt aftur í tímann lögreglurannsókn muni ná, það mun að einhverju leyti ráðast af því sem athugun ríkisendurskoðunar á fjármála- og umsýslustörfum [A] leiðir í ljós."

Niðurstaða


Í niðurlagi 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga segir að lögin gildi ekki um "rannsókn eða saksókn í opinberu máli." Þótt þau skjöl um samskipti menntamálaráðuneytisins og Framkvæmdasýslu ríkisins, vegna byggingarnefndar Þjóðleikhússins, sem kærandi hefur óskað eftir aðgangi að, hafi ekki verið afhent lögreglu eða ákæruvaldi hefur því verið lýst yfir af hálfu ríkissaksóknara að ætla megi að þau verði til skoðunar við rannsókn lögreglu á ætluðum refsiverðum auðgunarbrotum fyrrverandi formanns byggingarnefndarinnar. Þar eð sú rannsókn er nú hafin verður synjun um aðgang að umræddum skjölum ekki kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál skv. 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Ber því að vísa máli þessu frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kæru […], f.h. […], á hendur menntamálaráðuneytinu er vísað frá úrskurðarnefnd.

Eiríkur Tómasson, formaður
Valtýr Sigurðsson


Sérálit Elínar Hirst

Ég undirrituð er ósammála meirihluta úrskurðarnefndar um þá túlkun á niðurlagi 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga sem fram kemur í niðurstöðu úrskurðarins. Ég tel ekki rétt að synja um aðgang að hinum umbeðnu gögnum þar sem ekki er hægt að ráða það af svari ríkissaksóknara frá 3. ágúst sl. hvort umbeðin gögn verði tekin til rannsóknar eður ei.
Elín Hirst


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta