Hoppa yfir valmynd
4. mars 1997 Forsætisráðuneytið

05/1997 - Úrskurður frá 4. mars 1997 í málinu nr. A-5/1997

Hinn 4. mars 1997 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-5/1997:


Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 19. febrúar sl., sem barst nefndinni 24. febrúar sl., lagði [...], m.a. "fram kæru vegna niðurstöðu og mismunandi svara ráðuneyta ríkisins við fyrirspurn [...] um verktaka (arkitekta/verkfræðinga) sem unnið hafa fyrir ráðuneytin sl. 5 ár."

Kærunni fylgdu bréf kæranda til félagsmálaráðuneytis, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta, landbúnaðarráðuneytis, menntamálaráðuneytis, samgönguráðuneytis, sjávarútvegsráðuneytis og utanríkisráðuneytis, svo og svarbréf þessara ráðuneyta sem gerð verður nánari grein fyrir hér á eftir. Verður að skilja kæruna svo að kærandi krefjist þess að framangreindum ráðuneytum verði gert skylt að veita honum aðgang að umbeðnum upplýsingum.
Eins og mál þetta er vaxið taldi nefndin ekki ástæðu til þess að gefa hinum kærðu stjórnvöldum kost á að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir hinum kærðu ákvörðunum.

Málsatvik

Atvik þessa máls eru í stuttu máli þau að með samhljóða bréfi, dagsettu 6. febrúar sl., fór kærandi fram á upplýsingar frá þeim ráðuneytum sem talineru upp hér að framan. Nánar tiltekið fór hann fram á upplýsingar um:

1. Nöfn arkitekta og verkfræðinga, sem hafa unnið verktakavinnu fyrir hlutaðeigandi ráðuneyti síðastliðin fimm ár. -
2. Sundurliðaðar greiðslur ráðuneytisins/ríkisins til áðurnefndra aðila yfir sama tímabil.

Í svari félagsmálaráðuneytisins við bréfi kæranda, dagsettu 10. febrúar sl., segir m.a.: "Eins og fram kom í símtali starfsmanns ráðuneytisins við yður í dag er fallist á að veita yður aðgang að gögnum þeim er þér óskið eftir undir lið 1 í erindinu, enda eru þær upplýsingar aðgengilegar í ráðuneytinu, og getið þér vitjað þeirra þar. - Ráðuneytið lítur aftur á móti svo á að upplýsingar þær er þér óskið eftir í 2. tölul. erindis yðar falli undir lög nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 1. gr. þeirra laga. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1996 gilda upplýsingalög ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt lögum nr. 121/1989. - Samkvæmt framansögðu mun ráðuneytið afgreiða 2. tölul. erindis yðar á grundvelli laga nr. 121/1989 en ekki upplýsingalaga. Stefnt er að afgreiðslu þess sem fyrst, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 121/1989."

Í svarbréfi iðnaðar- og viðskiptaráðuneytanna, dagsettu 11. febrúar sl., segir m.a.: "Samkvæmt 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er stjórnvöldum skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum er varða tiltekið mál, þó með þeim takmörkunum sem í lögunum greinir. Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. skal sá sem fer fram á aðgang að gögnum tilgreina þau gögn sem hann óskar að kynna sér. Þá getur hann óskað eftir að fá að kynna sér upplýsingar um tiltekið mál án þess að tilgreina einstök gögn sem málið varða. - Með hliðsjón af framangreindu telur ráðuneytið sér ekki skylt að afla sérstakra gagna sem erindi yðar varðar auk þess sem ekki er nægilega tilgreint að hvaða máli erindið lýtur."

Menntamálaráðuneytið, samgönguráðuneytið og sjávarútvegsráðuneytið synjuðu öll beiðni kæranda með hliðstæðum rökstuðningi og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytin, sbr. svarbréf ráðuneytanna þriggja, dagsett 10., 11. og 14. febrúar sl.

Í svarbréfi landbúnaðarráðuneytisins, dagsettu 10. febrúar sl., er upplýst að einungis einn aðili, sem um getur í beiðni kæranda, hafi unnið fyrir ráðuneytið á umræddu tímabili. Í bréfinu kemur fram heiti þessa aðila og fjárhæð á greiðslu til hans.

Í svarbréfi utanríkisráðuneytisins, dagsettu 14. febrúar sl., er m.a. komist svo að orði: "Þar sem umbeðnar upplýsingar geta snert hagsmuni hlutaðeigandi aðila hefur þeim verið gefinn kostur á að tjá sig um beiðnina. Aðilum hefur verið gefinn 4 vikna frestur til að tjá sig um málið. Endanlegrar afgreiðslu erindis yðar er því að vænta innan 21 dags héðan í frá."

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinum kærðu ákvörðunum hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn þessa máls.

Niðurstaða

1.

Í upphafi 14. gr. upplýsingalaga segir svo: "Heimilt er að bera synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögum þessum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn."
Af fyrrgreindu svarbréfi landbúnaðarráðuneytisins er ljóst að það hefur orðið við beiðni kæranda. Af þeim sökum verður kæru á hendur því ráðuneyti vísað frá nefndinni.

Þá er ennfremur ljóst af svarbréfi utanríkisráðuneytisins að það hefur ekki tekið afstöðu til beiðni kæranda, hvorki orðið við henni né synjað henni. Verður kæru á hendur því ráðuneyti þar af leiðandi einnig vísað frá nefndinni.
Í svarbréfi félagsmálaráðuneytisins kemur fram að það hafi veitt kæranda upplýsingar samkvæmt fyrri tölulið í beiðni hans. Verður kæru á hendur því ráðuneyti þar af leiðandi vísað frá nefndinni að því er þann tölulið varðar.
Í síðari tölulið í beiðni sinni fer kærandi fram á aðgang að upplýsingum um greiðslur til arkitekta og verkfræðinga úr ríkissjóði á fimm ára tímabili. Með vísun til eðlis þessara upplýsinga og þess, að þær er að finna í ríkisbókhaldi, er úrskurðarnefnd þeirrar skoðunar að þessi beiðni kæranda eigi undir lög um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 1. gr. þeirra laga, og þar með ekki undir upplýsingalög, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna. Samkvæmt því er kæru á synjun iðnaðar- og viðskiptaráðuneytanna, menntamálaráðuneytisins, samgönguráðuneytisins og sjávarútvegsráðuneytisins um að veita kæranda aðgang að upplýsingum samkvæmt síðari tölulið í beiðni hans vísað frá nefndinni, sbr. 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Þar með er afgreiðsla félagsmálaráðuneytisins á umræddum lið í beiðni kæranda staðfest.


2.

Í 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr." Í 1. mgr. 10. gr. laganna segir enn fremur: "Sá sem fer fram á aðgang að gögnum skal tilgreina þau gögn sem hann óskar að kynna sér. Þá getur hann óskað eftir að fá að kynna sér upplýsingar um tiltekið mál án þess að tilgreina einstök gögn sem málið varða."
Í fyrri tölulið í beiðni sinni fer kærandi fram á aðgang að upplýsingum um nöfn arkitekta og verkfræðinga, sem hafa unnið verktakavinnu fyrir hlutaðeigandi ráðuneyti síðastliðin fimm ár. Í beiðninni eru þannig hvorki tilgreind þau gögn, sem kærandi óskar að kynna sér, né tiltekið það mál, sem hann óskar upplýsinga um, eins og áskilið er í 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt því var ofangreindum ráðuneytum ekki skylt að veita honum umbeðnar upplýsingar skv. 3. gr. laganna.

Rétt er að taka fram að ekki er í úrskurði þessum tekin afstaða til þess hvort ofangreindum ráðuneytum hafi verið heimilt að láta kæranda í té upplýsingar samkvæmt fyrra tölulið í beiðni hans, sbr. 3. mgr. 3. gr. upplýsingalaga.

Úrskurðarorð:

Kæru á hendur landbúnaðarráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu er vísað frá.

Kæru á hendur félagsmálaráðuneytinu, að því er varðar fyrri tölulið í beiðni kæranda, er vísað frá, en afgreiðsla ráðuneytisins á síðari tölulið í beiðni hans er staðfest.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytunum, menntamálaráðuneytinu, samgönguráðuneytinu og sjávarútvegsráðuneytinu er ekki skylt að veita kæranda aðgang að umbeðnum upplýsingum samkvæmt fyrri tölulið í beiðni hans. Að öðru leyti er kæru á hendur umræddum ráðuneytum vísað frá.

Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta