Hoppa yfir valmynd
19. mars 1997 Forsætisráðuneytið

08/1997 - Úrskurður frá 19. mars 1997 í málinu nr. A-8/1997

Hinn 19. mars 1997 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-8/1997:

Kæruefni
Með bréfum, dagsettum 4. mars sl., sem bárust nefndinni 5. mars sl., krafðist [...] úrskurðar "vegna synjunar iðnaðarráðherra og Landsvirkjunar á að veita upplýsingar um mögulegt söluverð raforku í stórsölu o. fl.", þ. á m. vegna synjunar þessara aðila "að upplýsa um raforkuverð vegna mögulegrar stóriðju í Hvalfirði o. fl.". Jafnframt gerir hann þá kröfu að tveir nefndarmanna, þeir Eiríkur Tómasson og Valtýr Sigurðsson, víki sæti úr nefndinni meðan fjallað er um málið vegna vanhæfis.

Með bréfi, dagsettu 6. mars sl., var kæran á hendur iðnaðarráðherra send honum og honum gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun sinni. Sömuleiðis var kæran á hendur Landsvirkjun send fyrirtækinu með bréfi, dagsettu 6. mars sl., þar sem því var gefinn kostur á að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun sinni. Báðum aðilum var veittur frestur til kl. 12 á hádegi hinn 12. mars sl. Þann dag barst umsögn iðnaðarráðherra, en daginn áður hafði umsögn Landsvirkjunar borist.

Málsatvik
Atvik þessa máls eru í stuttu máli þau að með bréfum, dagsettum 28. janúar sl., til iðnaðarráðuneytisins, Landsvirkjunar og stjórnar Veitustofnana Reykjavíkur óskaði kærandi "upplýsinga um mögulega stórsölu á rafmagni, sem iðnaðarráðuneytið, Landsvirkjun og stjórn Veitustofnana Reykjavíkur tengist". Sérstaklega fór hann fram á upplýsingar um "sölu á rafmagni til Columbia Venture álversins hafi samningur verið gerður þar um", en "einnig aðrar mögulegar stórsölur ef um þær er að ræða." Óskaði kærandi "sem ítarlegastra upplýsinga um mögulegar tekjur af raforkusölunni og einnig um kostnað vegna þessarar sölu sérstaklega og hvernig þessir liðir eru taldir hafa áhrif á raforkuverð til almennings."

Iðnaðarráðuneytið svaraði beiðni kæranda með bréfi, dagsettu 5. febrúar sl. Í svarbréfinu segir orðrétt: "Ráðuneytið telur sér ekki skylt að afla sérstaklega gagna sem erindi yðar varðar. Þá getur ráðuneytið ekki veitt yður aðgang að fyrirliggjandi upplýsingum, sem varðað gætu erindi yðar, einkum með vísan til 5.gr. upplýsingalaga nr. 50/1996".
Í umsögn iðnaðarráðherra, dagsettri 11. mars s.l., segir að "orkusölusamningar vegna hugsanlegs álvers Columbia Ventures Corporation hafa ekki verið undirritaðir". Ennfremur er þar upplýst að í iðnaðarráðuneytinu liggi "fyrir ýmis gögn er varða ýmsa þætti samningaviðræðna við Columbia Ventures Corporation á ýmsum stigum þeirra. Eru þau í formi bréfaskrifta, minnisblaða til ríkisstjórnarinnar o.fl., en lítið er að finna um hið eiginlega raforkuverð."

Landsvirkjun svaraði beiðni kæranda sömuleiðis með bréfi, dagsettu 5. febrúar sl., þar sem staðfest var að samningaviðræður hefðu átt sér stað um nokkurt skeið um raforkusölu til hugsanlegs álvers Columbia Ventures á Grundartanga. Samningar um slíka sölu hefðu hins vegar ekki enn verið undirritaðir. Ennfremur sagði í svarbréfi fyrirtækisins að það teldi sér "ekki rétt að veita upplýsingar um verðákvæði í eða mögulegar tekjur af einstökum raforkusamningum", auk þess sem þar var tekið fram að í samningaviðræðum fyrirtækisins og Columbia Ventures hefðu aðilar orðið "sammála um að opinbera ekki skilmála um orkuverð."

Í umsögn Landsvirkjunar, dagsettri 11. mars s.l., er áréttað að enn hafi "ekki verið undirritaðir neinir orkusölusamningar vegna hugsanlegs álvers Columbia Ventures Corporation í Hvalfirði, þótt fyrir liggi drög að rammasamningi." Þá kemur þar og fram að til staðar séu hjá fyrirtækinu gögn "um hugsanlegar samningsniðurstöður og um útreikninga sem á þeim eru byggðir."

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunum, þ. á m. fyrir kröfunni um að tveir nefndarmanna víki sæti við meðferð þessa máls, annars vegar, og hinum kærðu ákvörðunum, hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

1.
Þar eð kærandi krefst þess að tveir af þremur nefndarmönnum víki sæti vegna vanhæfis til meðferðar þessa máls hafa þeir allir fjallað um kröfuna, sbr. niðurlag 4. mgr. 5. gr. stjórnsýslulaga, sbr. og 1. mgr. 34. gr. laganna.
Það er samdóma álit nefndarinnar að þeir tveir nefndarmenn, sem kærandi telur vanhæfa, séu hvorki svo við málið riðnir né málsaðila né hafi þeir á annan hátt svo persónulegra og verulegra hagsmuna að gæta varðandi málsúrslit, að unnt sé að draga óhlutdrægni þeirra í efa með réttu, sbr. 3. gr. stjórnsýslulaga, einkum 6. tölul. hennar. Ástæður þær, sem kærandi greinir í kæru sinni og hann telur að leiða eigi til þess að umræddir nefndarmenn séu vanhæfir, eru málinu og aðilum þess óviðkomandi. Kröfu hans um að þeir víki sæti við meðferð þessa máls er því hafnað.

2.
Í 1. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Lög þessi taka til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga." Í greinargerð, sem fylgdi frumvarpi til laganna, er þetta ákvæði m.a. skýrt svo að lögin gildi almennt "ekki um einkaaðila, en undir hugtakið einkaaðilar falla m.a. félög einkaréttarlegs eðlis, eins og hlutafélög og sameignarfélög, þótt þau séu í opinberri eigu."
Skv. 1. gr. laga um Landsvirkjun nr. 42/1983 er Landsvirkjun sameignarfyrirtæki ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar. Samkvæmt framansögðu taka upplýsingalög því ekki til fyrirtækisins og ber þegar af þeirri ástæðu að vísa framkominni kæru á hendur því frá nefndinni.

3.
Kærandi hefur í fyrsta lagi farið fram á aðgang að tilteknu skjali, þ.e. rafmagnssamningi milli Landsvirkjunar og Columbia Ventures Corporation vegna fyrirhugaðs álvers á Grundartanga í Hvalfirði. Þá verður að skilja beiðni hans svo að hann óski í annan stað eftir upplýsingum um fyrirhugaða sölu á raforku til þessa orkunotanda sérstaklega. Loks æskir hann upplýsinga um "aðrar mögulegar stórsölur" á raforku án þess að tilgreina nánar hver eða hverjir kunni að vera væntanlegir kaupendur af orkunni.

Í 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga er að finna svohljóðandi ákvæði: "Sá sem fer fram á aðgang að gögnum skal tilgreina þau gögn sem hann óskar að kynna sér. Þá getur hann óskað eftir að fá að kynna sér upplýsingar um tiltekið mál án þess að tilgreina einstök gögn sem málið varða." Beiðni kæranda um aðgang að fyrrgreindum samningi fellur undir fyrri málslið hinnar tilvitnuðu málsgreinar og beiðni hans um upplýsingar um fyrirhugaða sölu til ákveðins notanda undir síðari málslið hennar. Beiðni kæranda um aðgang að öðrum upplýsingum beinist aftur á móti hvorki að tilteknu skjali né varðar hún tiltekið mál, eins og áskilið er í 1. mgr. 10.gr. upplýsingalaga. Þegar af þeirri ástæðu var iðnaðarráðherra óskylt að veita honum þær upplýsingar skv. 3. gr. laganna og ber því að staðfesta synjun ráðherra að því er þær varðar.

Bæði ráðherra og Landsvirkjun hafa upplýst í umsögnum sínum til nefndarinnar að sá samningur, sem kærandi hefur óskað eftir aðgangi að, hafi ekki verið undirritaður. Hins vegar er upplýst af hálfu ráðherra að í ráðuneyti hans liggi "fyrir ýmis gögn er varða ýmsa þætti samningaviðræðna við Columbia Ventures Corporation á ýmsum stigum þeirra."

Í 5. gr. upplýsingalaga segir m.a. að óheimilt sé að veita almenningi "aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila." Með vísun til fyrrgreindra umsagna iðnaðarráðherra og Landsvirkjunar verða upplýsingar um raforkuverð og raforkusölu Landsvirkjunar til fyrirhugaðs álvers á Grundartanga í Hvalfirði á vegum Columbia Ventures Corporation að teljast varða mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni beggja þessara fyrirtækja í skilningi 5. gr. upplýsingalaga. Af þeirri ástæðu ber að staðfesta þá ákvörðun ráðherra að synja kæranda um aðgang að gögnum er hafa að geyma umræddar upplýsingar.

Úrskurðarorð:
Kröfu kæranda um að Eiríkur Tómasson og Valtýr Sigurðsson víki sæti við meðferð máls þessa er hafnað.
Kæru hans á hendur Landsvirkjun er vísað frá.
Synjun iðnaðarráðherra um að veita honum aðgang að gögnum, er hafa að geyma upplýsingar um raforkuverð og raforkusölu Landsvirkjunar til stórra orkukaupenda, þ. á m. til fyrirhugaðs álvers á Grundartanga í Hvalfirði á vegum Columbia Ventures Corporation, er staðfest.

Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta