Hoppa yfir valmynd
24. mars 1997 Forsætisráðuneytið

09/1997 - Úrskurður frá 24. mars 1997 í málinu nr. A-9/1997

Hinn 24. mars 1997 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-9/1997:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 6. mars sl., kærði [...] synjun sjávarútvegsráðuneytisins, dagsetta þann sama dag, um að afhenda henni eintak af skýrslu nefndar ráðuneytisins um hvalveiðar sem skilað var til sjávarútvegsráðherra 3. mars sl.

Með bréfi, dagsettu 7. mars sl., var kæran send sjávarútvegsráðuneytinu og því gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun fyrir kl. 12 á hádegi hinn 12. mars sl. Jafnframt var þess óskað að ráðuneytið léti úrskurðarnefndinni í té sem trúnaðarmál það skjal, sem kæran lýtur að, innan þessa frests.

Umsögn sjávarútvegsráðuneytisins, dagsett 11. mars sl., barst nefndinni 12. mars sl., ásamt ljósriti af umræddu skjali sem dagsett er 26. febrúar 1997.

Málsatvik

Atvik þessa máls eru í stuttu máli þau að kærandi ritaði sjávarútvegsráðherra bréf, dagsett 6. mars sl., þar sem hún óskaði "eftir því að fá nú þegar afhent eintak af skýrslu nefndar sjávarútvegsráðuneytisins um hvalveiðar, sem skilað var til þín 3. mars", eins og orðrétt segir í bréfinu. Til stuðnings beiðninni vísaði kærandi til 3.gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Sjávarútvegsráðuneytið svaraði beiðni kæranda með símbréfi, dagsettu 6. mars sl. Í símbréfinu er m.a. svo að orði komist: "Þann 25. júlí 1996 skipaði sjávarútvegsráðherra starfshóp til að undirbúa tillögu til þingsályktunar varðandi hvalveiðar Íslendinga, er lögð skyldi fyrir Alþingi. Þann 3. mars sl. skilaði starfshópurinn tillögu sinni til ráðherra. Ráðherra kynnti skýrslu starfshópsins á fundi ríkisstjórnarinnar þann 5. mars. Umfjöllun ríkisstjórnar um skýrsluna er ekki lokið." Synjaði ráðuneytið beiðni kæranda um eintak af umræddri skýrslu að svo stöddu með vísan til 1. tölul. 4. gr. upplýsingalaga.

Í fyrrgreindri umsögn sjávarútvegsráðuneytisins, dagsettri 11. mars sl., kemur ennfremur fram að sjávarútvegráðherra hafi skipað starfshópinn í samráði við forsætisráðherra og utanríkisráðherra og hafi m.a. setið í honum fulltrúar frá ráðuneytum þeirra auk fulltrúa sjávarútvegsráðuneytisins. Í umsögninni færir ráðuneytið frekari rök fyrir hinni kærðu ákvörðun, en með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þeim röksemdum í úrskurði þessum, heldur hefur úrskurðarnefnd haft þær til hliðsjónar við úrlausn þessa máls.

Niðurstaða

Í 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr." Skv. 1. tölul. 4. gr. laganna tekur réttur almennings til aðgangs að gögnum ekki til "fundargerða ríkisráðs og ríkisstjórnar, minnisgreina á ráðherrafundum og skjala sem tekin hafa verið saman fyrir slíka fundi."

Markmið hins tilvitnaða ákvæðis í 1. tölul. 4. gr. upplýsingalaga er, með tilliti til almannahagsmuna, að ríkisstjórn og einstakir ráðherrar geti fjallað á fundum sínum um pólitísk mál og mótað í sameiningu stefnu í mikilvægum málum án þess að þeim sé skylt að veita almenningi aðgang að gögnum sem tekin hafa verið saman fyrir þá fundi. Svo sem fram kemur í fyrrgreindri umsögn sjávarútvegsráðuneytisins er sú ákvörðun að leggja þingsályktun[artillögu] fyrir Alþingi um það, hvort hvalveiðar hefjist aftur við Ísland, svo mikilvæg, að mati ráðuneytisins, að hún verður ekki lögð fram án þess að ákvörðun um það hafi áður verið rædd í ríkisstjórn.
Sjávarútvegsráðuneytið hefur upplýst að skýrsla sú, sem kærandi hefur óskað eftir aðgangi að, hafi verið tekin saman fyrir ríkisstjórnarfund af fulltrúum fleiri en eins ráðherra. Samkvæmt því og með hliðsjón af eðli þess máls, sem hér um ræðir, verður sú ákvörðun ráðuneytisins, að synja kæranda um aðgang að skýrslunni, staðfest með vísun til 1. tölul. 4. gr. upplýsingalaga.

Úrskurðarorð:

Staðfest er sú ákvörðun sjávarútvegsráðuneytisins að synja kæranda um aðgang að skýrslu starfshóps á vegum ráðuneytisins um hvalveiðar sem dagsett er 26. febrúar 1997.

Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta