Hoppa yfir valmynd
7. apríl 1997 Forsætisráðuneytið

10/1997 - Úrskurður frá 7. apríl 1997 í málinu nr. A-10/1997

Hinn 7. apríl 1997 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-10/1997:


Kæruefni
Með bréfi, dagsettu 14. mars sl., en mótteknu 19. mars sl., kærði [...] synjun Akureyrarbæjar um að veita honum "upplýsingar um launakjör bæjarstjórans á Akureyri." Skilja verður kæruna svo að hún taki til synjunar bæjarins um að verða við beiðnum um upplýsingar, sem kærandi fór fram á með bréfum, dagsettum 17. febrúar og 5. mars sl.

Með bréfi, dagsettu 22. mars sl., var kæran send Akureyrarbæ og bænum gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir hinum kærðu ákvörðunum fyrir kl. 12 á hádegi hinn 26. mars sl. Jafnframt var þess óskað í því bréfi, svo og í bréfi, dagsettu 25. mars sl., að bærinn léti úrskurðarnefnd í té sem trúnaðarmál, ef til væru, þau gögn sem kæran lýtur að. Samkvæmt beiðni bæjarlögmanns var fyrrgreindur frestur framlengdur til hádegis hinn 1. apríl sl.

Þann dag barst nefndinni umsögn bæjarins ásamt ráðningarsamningi bæjarstjóra, sem dagsettur er 15. júlí 1994, og reglum um kaup og kjör bæjarfulltrúa og þeirra sem starfa í nefndum hjá Akureyrarbæ kjörtímabilið 1994-1998 sem dagsettar eru 23. febrúar 1995.

Málsatvik
Atvik þessa máls eru í stuttu máli þau að með bréfi, dagsettu 17. febrúar sl., óskaði kærandi "eftir að fá upplýsingar um eftirfarandi:
    1. Föst laun bæjarstjóra.
    2. Heildarlaun bæjarstjóra árið 1996.
    3. Sundurliðun heildarlauna, þ.e. mánaðarlaun, yfirvinna, nefndarlaun, bílastyrkir o.s.frv.
    4. Afrit af launasamningi.
    5. Yfirlit um nefndir og ráð sem bæjarstjóri situr í.
    6. Reglur um greiðslur vegna setu bæjarstjóra í nefndum og ráðum."

Akureyrarbær svaraði beiðni kæranda með bréfi, dagsettu 4. mars sl., þar sem henni er hafnað. Í bréfinu er m.a. vísað til þess að upplýsingalög nr. 50/1996 geri ráð fyrir að skylt sé að veita aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál. Hins vegar sé stjórnvöldum ekki skylt að taka saman upplýsingar með þeim hætti sem ráð virðist fyrir gert í beiðninni. Að því marki, sem umbeðnar upplýsingar teljist gögn, falli þær undir upplýsingar sem allar séu hluti af skrám er lúti lögum nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga.

Svarbréfi þessu svaraði kærandi með öðru bréfi, dagsettu 5. mars sl., þar sem hann kemst m.a. svo að orði: "[...] óskar eftir því að fá upplýsingar um eftirfarandi með tilvísun til upplýsingalaga nr. 50/1996. Vegna fyrri neitunar um svipaðar upplýsingar samkvæmt bréfi dagsettu 4. 3. 1997 er hér um endurnýjaða og aðeins breytta fyrirspurn að ræða.
    1. Óskað er eftir upplýsingum um föst laun bæjarstjóra.
    2. Óskað er eftir upplýsingum um önnur föst kjör bæjarstjóra."

Akureyrarbær svaraði þessari síðari beiðni kæranda með bréfi, dagsettu 13. mars sl., þar sem henni er hafnað eins og þeirri fyrri með vísun til upplýsingalaga og laga um skráningu og meðferð persónuupplýsinga.
Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.


Niðurstaða

1.
Í 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga er tekið fram að lögin gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt lögum um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Við skýringu á gildissviði þeirra laga verður að taka mið af því að þau er sérlög í samanburði við upplýsingalög, en síðarnefndu lögin kveða almennt á um rétt almennings til aðgangs að gögnum í vörslum stjórnvalda.

Í 1. gr. laga nr. 121/1989 segir orðrétt: "Lög þessi taka til hvers konar kerfisbundinnar skráningar og annarrar meðferðar á persónuupplýsingum. Lögin eiga við hvort heldur sem skráning er vélræn eða handunnin." Í athugasemdum, er fylgdu frumvarpi til laganna, er það sagt vera meginmarkmið þeirra "að tryggja mönnum vernd gegn hættu á misnotkun upplýsinga um einkamálefni þeirra sem varðveittar eru og skráðar hafa verið með kerfisbundnum hætti." Með vísun til þessa og athugasemda, er fylgdu 1. gr. frumvarpsins, þar sem m.a. er tekið fram að utan gildissviðs þess falli einstakar tilviljunarkenndar skrár, verður að líta svo á að gildissvið laganna sé einskorðað við kerfisbundna skráningu á persónuupplýsingum, hvort sem hún er vélræn eða handunnin, svo og við eftirfarandi meðferð á slíkum upplýsingum sem skráðar hafa verið með þessum hætti.

Samkvæmt framansögðu er það álit úrskurðarnefndar að 5. gr. laga nr. 121/1989 taki til aðgangs að upplýsingum um heildarlaun bæjarstjórans á Akureyri og sundurliðun þeirra launa, sbr. 2. og 3. lið í upphaflegri beiðni kæranda frá 17. febrúar sl., enda eru þær upplýsingar skráðar með kerfisbundnum hætti í bókhaldi Akureyrarbæjar. Aðgangur að skjölum um þau atriði, sem tilgreind eru í 1. og 4. - 6. lið upphaflegu beiðninnar og síðari beiðninni frá 5. mars sl., falli á hinn bóginn utan gildissviðs laga nr. 121/1989. Þar með fellur aðgangur að skjölum þeim, sem til eru um þessi atriði, þ.e. ráðningarsamningi bæjarstjóra og reglum um kaup og kjör bæjarfulltrúa og þeirra sem starfa í nefndum hjá Akureyrarbæ kjörtímabilið 1994-1998, undir upplýsingalög, sbr. 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 10. gr. laganna.

2.
Í 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr."

Í 5. gr. laganna segir: "Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á." Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til laganna, segir svo um skýringu á þessu ákvæði: "Að því er snertir laun opinberra starfsmanna þá eru upplýsingar um föst laun og önnur föst kjör opinberra starfsmanna ekki undanþegnar aðgangi almennings." Þegar allsherjarnefnd Alþingis afgreiddi frumvarpið frá sér til 2. umræðu er ennfremur svo að orði komist í áliti hennar: "Í athugasemdum við 5. gr. frumvarpsins kemur fram að ákvæði greinarinnar standi ekki í vegi fyrir því að almenningur fái aðgang að gögnum um föst laun og önnur föst launakjör opinberra starfsmanna. Að því leyti sem slík upplýsingagjöf fellur undir ákvæði frumvarps þessa en ekki ákvæði laga nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, leggur nefndin sérstaka áherslu á að skýra beri ákvæði 5. gr. svo að með lögum þessum sé ekki aðeins tryggður aðgangur að upplýsingum um föst laun opinberra starfsmanna heldur einnig að þeim einstaklingsbundnu samningum sem gerðir hafa verið við starfsmenn um önnur föst kjör þeirra, svo sem fasta (ómælda) yfirvinnu, akstursgjald o.fl."

Með vísun til þessa er það niðurstaða nefndarinnar að veita beri kæranda aðgang að þeim tveimur skjölum, sem að framan eru greind, enda hafa þau að geyma sömu upplýsingar og vísað er til í hinum tilvitnuðu lögskýringargögnum.

Úrskurðarorð:
Akureyrarbæ ber að veita kæranda [...] aðgang að eftirgreindum skjölum: Ráðningarsamningi bæjarstjóra, sem dagsettur er 15. júlí 1994, og reglum um kaup og kjör bæjarfulltrúa og þeirra sem starfa í nefndum hjá Akureyrarbæ kjörtímabilið 1994-1998 sem dagsettar eru 23. febrúar 1995.

Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta