Hoppa yfir valmynd
7. september 2007 Innviðaráðuneytið

Nýr loftferðasamningur við Malasíu og breyting á loftferðasamningi við Rússland

Fulltrúar Íslands og Malasíu hafa áritað fyrsta loftferðasamninginn sem gerður er milli landanna. Samningurinn tekur gildi þegar við áritun.

Atlanta þota merkt MASKargo í Malasíu.
Atlanta þota merkt MASKargo í Malasíu.

Samninginn árituðu Helgi Ágústsson sendiherra og P. Chandrasekaran vara ráðuneytisstjóri 3. september síðastliðinn í Kuala Lumpur í Malasíu. Auk Helga voru viðstödd lokaviðræður um samninginn af hálfu Íslands þau Halldór S. Kristjánsson skrifstofustjóri í samgönguráðuneytinu og Ástríður Scheving Thorsteinsson, lögfræðingur í ráðuneytinu.

Í samningnum sem felast mjög víðtæk flugréttindi fyrir flugrekendur ríkjanna. Samningurinn tekur til áætlunar- og leiguflugs án takmarkana á tíðni og flutningsmagni til ákvörðunarstaða í ríkjunum auk áfanga- og viðkomustaða á flugleiðinni. Samningurinn við Malasíu styrkir möguleika íslenskra flugrekenda sem hafa sinnt og vilja sinna verkefnum í þessum heimshluta.

Þá var þann 17. ágúst sl. var gengið frá breytingu á viðauka við núgildandi loftferðasamning Íslands og Rússlands frá 1998. Við samninginn var bætt við nýjum áfangastað í Rússlandi, St. Pétursborg, auk annarra breytinga sem gerðar voru á viðauka. Nýr viðauki samningsins hefur þegar tekið gildi.

Íslensk stjórnvöld hafa undanfarin misseri lagt áherslu á að fjölga loftferðasamningum við ýmis fjarlæg ríki, einkum í Mið-Austurlöndum, Austurlöndum fjær og og Suður-Ameríku. Aukin starfsemi íslenskra flugfélaga á erlendum vettvangi ýtir undir gerð loftferðasamninga við sífellt fleiri ríki. Loftferðasamningar tryggja réttindi og stöðu flugfélaga samningsaðila til flugs milli aðildarríkja og þriðju ríkja.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta