Hoppa yfir valmynd
18. september 2020 Innviðaráðuneytið

Fyrstu Svansvottuðu endurbæturnar á Norðurlöndunum

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, afhenti í dag Andra Þór Arinbjarnarsyni, framkvæmdastjóra Reita, leyfi fyrir fyrstu Svansvottuðu endurbætur á húsnæði á Norðurlöndunum. Um er að ræða endurbætur á skrifstofuhúsnæði Umhverfisstofnunar við Suðurlandsbraut 24 sem er í eigu Reita. 

„Þetta er frábær áfangi sem ég vona að sé bara byrjunin á því sem koma skal almennt í endurbótum á byggingum. Byggingargeirinn útheimtir mikinn efnivið og auðlindir og það er mikilvægt að við förum vel með þær, endurnýtum það sem við getum og komum öðru í endurvinnslu. Að lágmarka áhrif framkvæmda á umhverfi og heilsu er bæði gott fyrir okkur og náttúruna í heild.“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

„Við erum afar stolt af þessu og tökum hlutverk okkar sem fyrirmynd mjög alvarlega. Þetta er fordæmisgefandi og sýnir að þetta er hægt. Það var okkur mikilvægt að nýta það sem hægt var að nýta áfram og að hugsað sé um umhverfið og heilsu starfsfólks við val á nýju byggingarefni og innanstokksmunum,“ segir Sigrún Ágústsdóttir forstjóri Umhverfisstofnunar.

„Svansvottun húsnæðis Umhverfisstofnunar er merkur áfangi. Vottunin er til marks um metnað til að beita sér fyrir umbótum í umhverfismálum þegar kemur að byggingum. Reitir óska Umhverfisstofnun til hamingju með endurnýjað húsnæði og þakka fyrir gott samstarf um þetta samvinnuverkefni Reita og Umhverfisstofnunar“ segir Andri Þór Arinbjörsson, framkvæmdastjóri eignaumsýslusviðs hjá Reitum fasteignafélagi.

Viðmið Svansins fyrir endurbætur eru umfangsmikil þar sem markmiðið er að lágmarka áhrif framkvæmda á umhverfi og heilsu. Svansvottunin tryggir gæði byggingarinnar meðal annars með betri innivist sem er tryggð með ströngum kröfum á efnainnihald byggingavara. Í Svansvottun er einnig lögð áhersla á endurnotkun byggingarefna og að úrgangur fari í endurvinnslufarveg.

Endurbæturnar og aðrar Svansvottaðar framkvæmdir hafa haft jákvæð áhrif á íslenska birgja, þar sem úrval af vottuðum og samþykktum byggingarefni hefur aukist sýnilega síðustu ár.

Sem dæmi um árangur sem náðist í framkvæmdunum við Suðurlandsbraut 24 má nefna:

  • Flokkunarhlutfall byggingarúrgangs var 94,4% á framkvæmdatíma
  • Áætlað er að notkun loftræstikerfis með hitaendurvinnslu muni draga úr orkunotkun um 40%
  • Öll málning og sparsl sem var notað var umhverfisvottað
  • Álrimlar, korkflísar og fleiri byggingarhlutir voru notaðir áfram
  • Veglegt barnaherbergi var sett upp til að bæta aðstöðu starfsmanna

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta