Heilbrigðisráðuneyti í 40 ár
40 ár eru um þessar mundir frá því lög um heilbrigðisráðuneyti tóku gildi og hyggst ráðuneytið minnast þess með margvíslegum hætti á árinu.
Fyrst og fremst verður þetta gert með því að tengja ráðstefnur og fundi sem fyrirhugaðir voru á árinu umræðum um grundvallaratriði heilbrigðisþjónustunnar. 15 heilbrigðisráðherrar hafa setið í embætti frá því til þess var stofnað í 23 ráðuneytum. Ellefu heilbrigðisráðherrum var boðið til samsætis nýlega til að minnast afmælisins. Einn átti ekki heimangengt og þrír eru látnir. Í ávarpi sem Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra, flutti í tilefni afmælisins sagði ráðherra meðal annars: „Fyrir réttum 40 árum, hinn 1. janúar 1970, gengu í gildi ný lög um Stjórnarráð Íslands, en þá var ráðuneytum fjölgað og gerð umtalsverð breyting á starfsemi þeirra með tilliti til verkefna. Á þessum tíma komu fram kröfur um markvissari stefnumótun og samræmingu verkefna í heilbrigðisþjónustunni. Átti það bæði við um heildaráætlanir til langs tíma og áætlanir sem snéru að einstökum þáttum heilbrigðisþjónustu, svo sem uppbyggingu sjúkrahúsþjónustu, heilsugæslu og heilsuverndar. Rétturinn til þjónustu var skilgreindur og sértæk þjónusta við markhópa, t.d. fatlaða og aldraða var skipulögð.
Á þessum árum reis einnig hátt krafan um að tryggja yrði réttláta dreifingu á gögnum og gæðum heilbrigðisþjónustu, svo komið yrði í veg fyrir að íbúar landsins byggju við ójafna lífskosti í heilsufarslegum efnum. Aðgengi að heilbrigðisþjónustunni skyldi jafnframt vera auðvelt og sem jafnast fyrir alla íbúa og þjónustan greidd úr sameiginlegum sjóði, þ.e. af skattfé.
Flestir eru nú sammála um að stofnun ráðuneytisins á sínum tíma hafi verið skynsamleg ráðstöfun og að allt starf að heilbrigðismálum hafi orðið markvissara í sjálfstæðu ráðuneyti.
Miklar breytingar hafa átt sér stað á þeim 40 árum sem liðin eru frá því heilbrigðisráðuneytið var stofnað. Fólk lifir lengur en áður og íbúar landsins eru almennt við betri heilsu en fyrri kynslóðir. Allur aðbúnaður fólks hefur tekið stakkaskiptum á nokkrum áratugum. Þetta má fyrsta og fremst þakka almennri velsæld, breyttum lífsháttum og góðri heilbrigðisþjónustu sem byggist ekki hvað síst á góðri menntun heilbrigðisstarfsmanna.“
Sjá nánar ávarp ráðherra
Ellefu heilbrigðisráðherrar. (Efri röð frá vinstri) Ögmundur Jónasson, Jón Kristjánsson, Sighvatur Björgvinsson, Siv Friðleifsdóttir, Svavar Gestsson, Guðlaugur Þ. Þórðarson, Álfheiður Ingadóttir.
(Fremri röð frá vinstri) Guðmundur Bjarnason, Ragnhildur Helgadóttir, Matthías Bjarnason og Ingibjörg Pálmadóttir.