Auknar niðurgreiðslur vegna alvarlegustu tannviðgerðanna
Heilbrigðisráðherra hefur sett reglugerðir sem koma til móts við þá sem bera mikinn tannlæknakostnað vegna fæðingargalla, sjúkdóma eða slysa.
Aðgerðir Álfheiðar Ingadóttur, heilbrigðisráðherra, gagnvart þessum hópi eru þríþættar og rúmast í þremur reglugerðum sem tóku gildi um áramótin. Allar miðast við þá sem mestan kostnað bera vegna tannviðgerða sem grípa þarf til vegna fæðingargalla, sjúkdóma eða slysa.
Í fyrsta lagi er reglugerð um endurgreiðslur vegna áranna 2008 og 2009 í formi eingreiðslu. Í reglugerðinni felst að einstaklingar sem á árunum 2008 og 2009 greiddu meira en 40 þúsund krónur í tannlæknakostnað eiga kost á 75% endurgreiðslu kostnaðar umfram 40 þúsund krónu markið. Rétturinn takmarkast við þá sem báru umtalsverðan tannlæknakostnað vegna fæðingargalla, sjúkdóma eða vegna slysa. Ekki verður greidd út lægri endurgreiðsluupphæð en 2.000 krónur. Ekki er greiddur kostnaður sem til hefur fallið þegar gjaldskrá tannlæknis er meira en 60% hærri en gjaldskrá ráðherra nr. 898/2002.
Í öðru lagi voru niðurgreiðslur auknar til einstaklinga sem bera umtalsverðan tannlæknakostnað vegna alvarlegra afleiðinga fæðingargalla eða sjúkdóma. Um er að ræða þátttöku í kostnaði sem sjúkratryggður þarf að greiða úr eigin vasa eftir að hann hefur fengið endurgreiddan tannlæknakostnað samkvæmt gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands (SÍ). Miðað er við að þeir sem rétt eiga skv. reglugerðinni fái endurgreitt 75% af útlögðum kostnaði umfram 40 þúsund krónur. Þó er ekki greiddur kostnaður sem til hefur fallið þegar gjaldskrá tannlæknis er meira en 70% hærri en gjaldskrá ráðherra nr. 898/2002.
Í þriðja lagi eru niðurgreiðslur auknar til einstaklinga, einkum barna, sem fædd eru með skarð í vör eða gómi, sem þurfa tannréttingar. Dregið er úr niðurgreiðslum til þeirra sem þurfa minniháttar tannréttingar.
Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra, segir aðgerðirnar sem nú er gripið til fyrst og fremst til að koma til móts við þá sem vegna fæðingargalla, sjúkdóma eða slysa bera mikinn tannviðgerðakostnað og ráðherra segir aðgerðirnar nú aðeins fyrsta skref á lengri leið. „Það hlýtur að vera þannig að heilbrigðiskerfið, eða við, greiðum úr sameiginlegum sjóðum meðfædda galla þótt þeir séu í munnholi. Við gerum það við aðra meðfædda galla,“ segir heilbrigðisráðherra.
Sjá nánar umræddar reglugerðir (á vef Stjórnartíðinda og opnast í nýjum glugga)
Reglugerð nr. 1058/2009 um endurgreiðslu sjúkratrygginga á kostnaði vegna þjónustu sérfræðinga í tannréttingum sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands.
Auglýsing nr. 1059/2009 um staðfestingu gjaldskrár Sjúkratrygginga Íslands fyrir tannréttingar sem ekki hefur verið samið um skv. IV. kafla laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar.
Reglugerð nr. 1060/2009 um aukna þátttöku sjúkratrygginga í umtalsverðum tannlækniskostnaði sjúkratryggðra vegna alvarlegra afleiðinga fæðingargalla, sjúkdóma eða slysa.
Reglugerð nr. 1061/2009 um eingreiðslu sjúkratrygginga á umtalsverðum tannlækniskostnaði sjúkratryggðra vegna alvarlegra afleiðinga fæðingargalla, sjúkdóma eða slysa.