Umsóknarfrestur um endurgreiðslu umtalsverðs tannlæknakostnaðar framlengdur
Ákveðið hefur verið að framlengja frest til að sækja um endurgreiðslu á umtalsverðum tannlæknakostnaði til 15. febrúar.
Samkvæmt ákvörðun heilbrigðisráðherra með reglugerð nr. 1061/2009 er Sjúkratryggingum Íslands heimilt að endurgreiða sjúkratryggðum hluta umtalsverðs útlagðs kostnaðar við tannlækningar á árunum 2008 og 2009 vegna alvarlegra afleiðinga fæðingargalla, sjúkdóma eða slysa.
Endurgreiðslan nemur 75% af kostnaði umfram 40.000 krónur, sem sjúkratryggður hefur sjálfur borið og SÍ eða TR tekið þátt í að greiða, vegna áður nefndra tilvika á árunum 2008 og 2009. Endurgreiðslan tekur hins vegar ekki til kostnaðar sem sjúkratryggður hefur borið vegna þess að gjaldskrá tannlæknis er meira en 60% hærri en gjaldskrá ráðherra nr. 898/2002.
Bréf og umsóknareyðublöð hafa verið send til þeirra sem rétt eiga á endurgreiðslu samkvæmt upplýsingum úr greiðslukerfi Sjúkratrygginga. Um 1250 einstaklingar sem hafa þurft á meiriháttar tannréttingum að halda hafa greitt meira en 40 þúsund krónur úr eigin vasa á tímabilinu 2008-2009. Í dag höfðu 27 af þessum hópi ekki sótt um endurgreiðslu og því er frestur til að sækja um hana framlengdur til 15. febrúar n.k. með reglugerð.
Nánari upplýsingar:
Sími: 560-4433 eða í tölvupósti: [email protected]