Yfirlýsing frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja
Framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu að afloknum fundi með heilbrigðisráðherra föstudaginn 5. febrúar 2010.
„Á fundi stjórnenda Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS) með heilbrigðisráðherra í dag var farið ítarlega yfir stöðu HSS og niðurskurð á framlögum til stofnunarinnar á fjárlögum. Á fundinum kom fram að áhrif skertra framlaga á rekstur stofnunarinnar voru ofmetin og niðurskurður fjárframlaga til HSS verður því ekki jafn mikill og forsvarsmenn stofnunarinnar töldu.
Vegna þessa er ljóst að stjórn HSS verður að endurmeta fyrri ákvarðanir og standa vonir til að hægt verði að halda þjónustu við sykursjúka áfram opinni og sama er að segja um sálfélagslegu þjónustuna. Þá verður almenn móttaka lækna um helgar áfram opin.
Starfsfólk og stjórnendur HSS munu hér eftir sem hingað til tryggja íbúum örugga þjónustu. Neyðarmóttaka verður opin 24 tíma á sólarhring alla daga ársins áfram.
Reykjanesbæ, 5. febrúar 2010
Fh. Framkvæmdastjórnar Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja
Sigríður Snæbjörnsdóttir, forstjóri“