Athugasemd vegna úrskurðar um ávana- og fíkniefni
Í dómi Hæstaréttar Íslands frá 19. febrúar síðast liðnum vegna gæsluvarðhalds yfir manni sem hafði í fórum sínum 3,7 kg. af „efni sem líktist amfetamíni“ segir rétturinn að umrætt efni sé „ekki á skrá yfir ávana- og fíkniefni sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði.“
Af þessu tilefni telur heilbrigðisráðuneytið nauðsynlegt að fram komi að umrætt efni, 4-flúoróamfetamin, er afleiða amfetamíns sem fellur undir 4. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 sbr 2. mgr. 1. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirritunarskyld efni nr. 233/2001.
Í reglugerð um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001 eru tilgreindir listar þeirra efna, er INCB, sem er stofnun Sameinuðu þjóðanna, er fjallar um þessi mál, hefur skilgreint sem ávana-og fíkniefni. Bæði í lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og reglugerðinni segir, að bannið taki einnig til salta, esta, amíða, peptíða og hvers konar afleiða þessara efna, þó þau séu ekki upptalin á fylgiskjali reglugerðarinnar. Umrætt efni, flokkast því sem ávana- og fíkniefni.
23. febrúar 2010