Kvennaskólanemar fræða heilbrigðisráðherra um Hugarafl
Nemendur í 3. NÞ í Kvennaskólanum ræddu í dag við Álfheiði Ingadóttur heilbrigðisráðherra um Hugarafl, sem eru samtök fólks sem hefur átt við geðræna erfiðleika að stríða og iðjuþjálfa með víðtæka reynslu af geðheilbrigðismálum. Heimsóknin var hluti af góðgerðardegi Kvennaskólans, þar sem bekkjum var úthlutað ýmsum ólíkum málefnum til að vekja athygli á og láta gott af sér leiða.
Í kynningu nemendanna kom fram að fæst þeirra höfðu áður heyrt af starfi Hugarafls – en nú myndu þau gera hvað þau geta til að bera hróður samtakanna sem víðast. Til stæði að ræða við fjölmiðla, auk þess sem bekkurinn ætlar að stofna Facebook-síðu til að vekja athygli á starfi samtakanna.
Heilbrigðisráðherra sagði heimsóknina vera brýna áminningu og vonaði að sem flestir hlustuðu. Það væri einkenni á íslensku heilbrigðiskerfi hversu stór hlutverk frjálsra félagasamtaka er, og hversu gott starf væri unnið innan þeirra. Sérstaklega bæri að fagna því að innan Hugarafls myndaðist stuðningsnet, þar sem notendur geðheilbrigðisþjónustu nálgast hvern annan á jafningjagrundvelli. „Þegar við stöndum frammi fyrir því að notkun geðdeyfðarlyfja er óvíða meiri en hér á landi, þá vaknar sífellt sú spurning hvort hægt sé að bæta líðan fólks með öðrum hætti. Starf Hugarafls miðar að því. Jafnframt vinna samtökin að því að draga úr fordómum gagnvart geðsjúkdómum – og ekki veitir af“ sagði Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra.
Kvennaskólanemar fræða heilbrigðisráðherra um Hugarafl