Mál nr. 5/2018
ÁLIT
KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA
í máli nr. 5/2018
Kostnaðarþátttaka: Eldvarnarhurð.
I. Málsmeðferð kærunefndar
Með bréfi, dags. 10. janúar 2018, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við húsfélagið B, hér eftir nefnt gagnaðili.
Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.
Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 7. febrúar 2018, athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 25. febrúar 2018, og athugasemdir gagnaðila, dags. 5. mars 2018, lagðar fyrir nefndina.
Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 13. mars 2018.
II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni
Um er að ræða fjöleignarhúsið B, alls 10 eignarhluta. Álitsbeiðandi er eigandi íbúðar í húsinu. Ágreiningur er um kostnaðarskiptingu vegna eldvarnarhurða.
Krafa álitsbeiðanda er:
Að viðurkennt verði að allur kostnaður við uppsetningu eldvarnarhurða í húsfélaginu B verði sameiginlegur og skiptist eftir eignarhlutum.
Í álitsbeiðni kemur fram að meginágreiningsefnið sé kostnaðarskipting vegna uppsetningar eldvarnarhurða, þ.e.a.s. hvort teljist kostnaður viðkomandi séreignar eða sameiginlegur kostnaður. Álitsbeiðandi telji að heildarkostnaður við að skipta út hurðum í eigninni fyrir eldvarnarhurðar eigi frekar að vera sameiginlegur og skiptast eftir eignarhlutum.
Álitsbeiðanda hafi verið ætlað að bera séreignarkostnað vegna tveggja eldvarnarhurða, en meirihluti eigenda annarra eignarhluta eingöngu vegna einnar hurðar. Um sé að ræða kvöð á húsfélaginu sem opinber aðili hafi sett vegna grunnöryggis húss og öryggi íbúa með tímamörkum.
Álitsbeiðandi telji að gagnaðili hafi tekið íþyngjandi ákvörðun í tilviki hans í þágu heildarhagsmuna og kvaða sem hvíli á gagnaðila. Það sé með öllu óréttlátt og órökrétt að krafa að fjárhæð X kr. hvíli á eignarhluta álitsbeiðanda á meðan meirihluti annarra eignarhluta hafi fengið kröfu að fjárhæð X kr. Um sé að ræða grófa eignarupptöku og geri fasteign hans með slíka auka kvöð af hálfu gagnaðila ill seljanlega.
Í greinargerð gagnaðila segir að kostnaðarskipting sé í samræmi við skiptingu á séreignar- og sameignarkostnaði. Fyrir liggi að um séreignarhurðir sé að ræða og því óeðlilegt að skipta kostnaði á sameign. Ný eldvarnarhurð auki verðgildi íbúðar viðkomandi eiganda, enda tilheyri hún henni.
Í athugasemdum álitsbeiðenda segir meðal annars að verðmæti fasteignar hans aukist ekki heldur þvert á móti minnki við að bera tvöfaldan kostnað. Heimild sé til þess í fjöleignarhúsalögum að víkja frá séreignarkostnaði og fordæmi fyrir slíku hjá húsfélögum.
III. Forsendur
Fyrir liggur að tekin var lögmæt ákvörðun um að skipta öllum innihurðum út fyrir eldvarnarhurðir í húsfélagsdeild fjöleignarhússins á aðalfundi gagnaðila sem haldinn var X 2017, sbr. álit kærunefndar húsamála í máli nr. 61/2017.
Í máli þessu snýr ágreiningur að kostnaðarþátttöku vegna nýrra hurða, annars vegar að íbúð álitsbeiðanda og hins vegar að geymslu hans. Álitsbeiðandi telur að kostnaður vegna þessa skuli vera sameiginlegur.
Í 5. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, er að finna upptalningu á því hvað fellur undir séreign fjöleignarhúss og falla þar undir 6. tölul. hurðir sem skilja séreign frá sameign. Ljóst er af þessu ákvæði að um er að ræða kostnaðarþátttöku vegna hurða sem eru séreign álitsbeiðanda.
Um kostnaðarþátttöku vegna viðhalds séreignar gildir ákvæði 50. gr. laga um fjöleignarhús en þar segir að eigandi skuli sjá um að kosta allt viðhald og allan rekstur á séreign sinni þar með talið á búnaði, tækjum og lögnum sem henni tilheyra, sbr. 4. og 5. gr. Jafnframt segir að allur slíkur kostnaður, hverju nafni sem hann nefnist, teljist vera sérkostnaður. Með hliðsjón af framangreindum ákvæðum er það niðurstaða kærunefndar að álitsbeiðandi skuli greiða kostnað vegna hurðanna.
IV. Niðurstaða
Það er álit kærunefndar að álitsbeiðandi skuli greiða kostnað vegna nýrra hurða að séreign hans.
Reykjavík, 13. mars 2018
Auður Björg Jónsdóttir
Valtýr Sigurðsson
Eyþór Rafn Þórhallsson