Hoppa yfir valmynd
11. apríl 2018 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 18/2018 Úrskurður 6. apríl 2018

Mál nr. 18/2018                     Millinafn:       Sjafnar

 


 

Hinn 6. apríl 2018 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 18/2018 en erindið barst nefndinni 12. mars. Erindið var áður tekið fyrir á fundi 20. mars en frestað.

Til þess að hægt sé að samþykkja nýtt millinafn og færa það á mannanafnaskrá þurfa öll skilyrði 6. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn að vera uppfyllt. Skilyrðin eru þessi:

 

-          Millinafn skal dregið af íslenskum orðstofnum eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli en má þó ekki hafa nefnifallsendingu.

-          Nöfn, sem aðeins hafa unnið sér hefð sem annaðhvort eiginnöfn karla eða eiginnöfn kvenna, eru ekki heimil sem millinöfn.

-          Millinafn skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.

-          Millinafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

 

Nafnið Sjafnar hefur aðeins unnið sér hefð í íslensku máli sem eiginnafn karla og er skráð sem slíkt á mannanafnaskrá. Þess vegna er ekki heimilt að fallast á millinafnið Sjafnar.

Í rökstuðningi úrskurðarbeiðanda segir að nafngiftin sé til heiðurs langömmu þeirrar sem bera á nafnið. Nafnið Sjafnar sem eignarfallsmynd af Sjöfn gengur einnig gegn 6. grein laga um mannanöfn vegna þess að Sjöfn hefur unnið sér hefð sem eiginnafn kvenna.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga um mannanöfn er eignarfallsmynd eiginnafns einungis heimil sem millinafn ef um er að ræða eiginnafn foreldris nafnbera.

Enn fremur skal bent á að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga um mannanöfn er millinafn sem víkur frá skilyrðunum í 2. mgr. heimilt þegar svo stendur á að eitthvert alsystkini þess sem á að bera nafnið, foreldri, afi eða amma ber eða hefur borið nafnið sem eiginnafn eða sem millinafn. Úrskurðarbeiðanda er bent á að leggja fram frekari upplýsingar um það efni til Þjóðskrár Íslands telji hann sig eiga rétt samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga um mannanöfn. Ekki er þá þörf á að leggja málið á ný fyrir mannanafnanefnd nema ágreiningur sé um nafngjöfina eða önnur álitamál komi upp um hana, sbr. 22. gr. laga um mannanöfn.

 

 

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um millinafnið Sjafnar er hafnað.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta