Hoppa yfir valmynd
18. nóvember 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Nemendasamsetning í framhaldsskólum: 31% nemenda í starfsnámi

Nemendasamsetning í framhaldsskólum haustið 2020. - mynd

Teknar hafa verið saman lykiltölur um nemendasamsetningu í framhaldsskólum og innritun síðasta hausts. Þar kemur fram það þann 1. október sl. voru alls 22.644 nemendur skráðir í 34 framhaldsskóla hér á landi.

Alls innrituðust 8660 nýir nemendur í framhaldsskóla haustið 2020, þar af voru 4.225 nemendur sem kláruðu grunnskóla í vor og 4435 eldri nemendur. Töluvert meiri aðsókn var meðal eldri nemenda í að komast í framhaldsskóla þetta haustið vegna áhrifa COVID-19 á atvinnuástand í samfélaginu. Brugðist var við fjölgun umsókna með ýmsum leiðum og fjölguðu framhaldsskólar m.a. hópum í starfsnámi og bættu við námsleiðum í nám seinni hluta dags og á kvöldin. Alls fjölgaði framhaldsskólanemendum um tæplega 1500 nemendur milli ára, eða um 7,2% frá því í fyrrahaust.

„Fjölbreytni er einn af mikilvægustu kostum íslenska framhaldsskólastigsins og ég fagna því hversu vel skólunum hefur tekist að mæta fjölbreyttum þörfum og fleiri nemendum nú í haust. Við sjáum líka árangur skólanna líka í hækkun brautskráningarhlutfalls í framhaldsskólunum, en það hefur farið stighækkandi síðustu ár. Það er viðvarandi verkefni okkar á kynna starfs- og tækninám betur og við sáum jákvæðar vísbendingar um sókn þeirra greina, ekki síst hjá eldri nemendum í framhaldsskólum,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Námsval nýrra nemenda í framhaldsskólum
Þegar námsval þeirra tæplega 4500 nýju nemenda sem innrituðust í haust er skoðað nánar kemur í ljós að stærstur hluti þeirra stundar nám á starfsnámsbrautum, eða 51%. Hlutfall 16 ára nýnema sem innritast í starfsnám er 15,2% sem er hliðstætt hlutfall og undanfarin ár. Gögn sýna að ásókn í starfsnám eykst verulega með hækkandi aldri. Það kann að benda til þess að nokkur hluti nemenda hafi ekki fundið sig á þeirri námsleið sem þau höfðu valið áður og kjósa að færa sig yfir í starfsnám. Samanburður á milli námsvals og innritunar nemenda sýnir að ekki komust allir nemendur að á þeim starfsnámsbrautum sem þeir kusu helst en það skýrist oftast af því að viðkomandi nemendur uppfylltu ekki inntökuskilyrði fyrir þær brautir og því innritast þeir í flestum tilfellum í undirbúningsnám í framhaldsskólum.



Fjölbreytni í framhaldsskólakerfinu
Námsframboð í íslenskum framhaldsskólum er afar fjölbreytt og þeir hafa frelsi til þess að byggja upp nám sem tekur mið af sérstöðu skólans, þörfum nemenda, nærsamfélags og atvinnulífs. Horfið hefur verið frá miðstýrðri námskrárgerð og skólarnir sjálfir semja nú námsbrautarlýsingar og leggja þær fyrir ráðuneytið til staðfestingar. Yfir hundrað námsbrautir eru kenndar í starfsmennt í framhaldsskólum landsins og fjölbreytnin mikil; allt frá gull- og silfursmíði til bílamálunar eða rennismíði. Þá eru kynjahlutföll að breytast, ungum konum hefur fjölgað í greinum þar sem áður voru nánast eingöngu karlar eins og í rafiðngreinum og pípulögnum og körlum hefur á móti fjölgað greinum eins og fataiðn.

Erlendur samanburður
Um helmingur starfsnámsnema leggja stund á hefðbundnar iðn- og verkgreinar, eins og byggingargreinar, bílgreinar og matvælagreinar, sem er hærra hlutfall en í flestum öðrum ríkjum OECD. Um 14% af heildarfjölda framhaldsskólanema stunda nám í þessum greinum sem er sambærilegt við meðaltal OECD. Þessar greinar hafa verið í vexti á Íslandi undanfarin ár. Sem dæmi má nefna að árið 2014 voru um 300 nemar í húsasmíði en í ár eru hátt í 900 skráðir í það nám.

Erlendur samanburður varpar ljósi á þann mun sem er á fyrirkomulagi starfsnáms milli landa. Víða eru viðskiptagreinar, heilbrigðis- og félagsþjónustugreinar fyrirferðarmiklar. Í Danmörku eru 20% starfsnámsnema við nám í viðskiptagreinum, en hér á landi er hlutfallið innan við 1%. Ein af ástæðunum fyrir þessum mun er sú að í Danmörku lýkur starfsnámi í þessum greinum með starfsmiðaðri diplómagráðu á háskólastigi. Hér á landi verður að ljúka bóklegu námi til stúdentsprófs til að sækja sér menntunar í þessum greinum á háskólastigi. Annað sem kemur í ljós er að hlutfall kvenna í starfsnámi er lægra hér á landi en í mörgum ríkjum OECD. Hér eru 36% starfsnámsnema konur en meðaltal OECD ríkja er 44%. Eins og annars staðar í ríkjum OECD er starfsnám mjög kynjaskipt. Af þeim sem hafa lokið starfsnámi á aldrinum 25-34 ára er þriðjungurinn konur.

Ný framsetning menntatölfræði
Samantekt af þessu tagi er nú kynnt í fyrsta sinn en við hana er stuðst við ISCED-flokkun sem er sambærileg þeirri sem Hagstofa Íslands notar við flokkun gagna um skólakerfið og miðlar m.a. til erlendra aðila sem safna alþjóðlegri menntatölfræði, s.s. OECD og Eurostat. Mikilvægt er að til séu stöðluð sambærileg gögn um nám á framhaldsskólastigi og ekki síst starfs- og tækninám og hefur verið unnið að því að undanförnu að samræma þau gögn sem fyrir liggja hjá skólum, Menntamálastofnun og Hagstofu Íslands, bæði til þess að auka yfirsýn yfir málaflokkinn og auðvelda vinnslu og miðlun upplýsinga um hann.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta