Leiðtogafundi NATO í Búkarest lokið
Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, tóku þátt í leiðtogafundi NATO sem lauk í dag í Búkarest. Einnig var þar haldinn fundur Norður Atlantshafsráðsins, m.a. með verðandi aðildarríkjum, Albaníu og Króatíu, hádegisverðarfundur með samstarfsríkjum í Evró-Atlantshafsráðinu, fundur með ríkjum og stofnunum sem leggja af mörkum til öryggis og uppbyggingar í Afganistan, auk funda NATO-Úkraínunefndarinnar og í NATO-Rússlandsráðinu.
Ákveðið var að bjóða Albaníu og Króatíu aðild að NATO og að fyrrum Júgóslavíulýðveldinu Makedóníu yrði boðin aðild um leið og tvíhliða deila þess við Grikkland um opinbert nafn landsins yrði leyst. Þá var samþykkt að aðild Georgíu og Úkraínu að bandalaginu væri framtíðarmarkmið og að utanríkisráðherrar aðildarríkjanna myndu á reglulegum fundi sínum í desember n.k. meta hvort bjóða ætti þessum tveimur ríkjum þátttöku í formlegu undirbúningsferli fyrir aðild.
Af Íslands hálfu lögðu forsætis- og utanríkisráðherrar áherslu á að dyr NATO stæðu opnar evrópskum lýðræðisríkjum sem tækju fullvalda ákvörðun um að óska eftir aðild og uppfylltu skilyrði bandalagsins.
Í fyrsta sinn í sögu bandalagsins sótti framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna fundinn en ástæða þess var sérstök umræða um málefni Afganistan þar sem NATO starfar í umboði öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.
Ísland vinnur nú að þriggja ára áætlun um starf borgaralegra sérfræðinga í Afganistan. Starfað verður á sviðum þar sem íslensk reynsla og þekking hefur gagnast best í samfélagslegri uppbyggingu, s.s. við byggingu vatnsaflsvirkjana, í flugumferðarmálum og í félagslegri ráðgjöf, einkum við konur og fjölskyldur. Á fundinum áréttuðu íslensk stjórnvöld áframhaldandi stuðning við hinar alþjóðlegu aðgerðir í Afganistan og við þau bandalagsríki sem gegna vandasömu hlutverki í eflingu öryggis.