Hoppa yfir valmynd
18. janúar 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 32/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 18. janúar 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 32/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU22120019

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 5. desember 2022 kærði […], fd. […], ríkisborgari Japan ( hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. nóvember 2022, um að synja umsókn hennar um dvalarleyfi fyrir hugsanlegt fórnarlamb mansals samkvæmt 75. gr. laga um útlendinga.

Ráða má að kærandi krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að henni verði veitt dvalarleyfi hér á landi á grundvelli 75. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Hinn 21. apríl 2022 kom kærandi inn á Schengen-svæðið í gegnum Holland. Kærandi lagði fram umsókn um dvalarleyfi hér á landi fyrir hugsanlegt fórnarlamb mansals á grundvelli 75. gr. laga um útlendinga 18. júlí 2022. Í umsókninni kom fram að tilgangur dvalar hennar á Íslandi væri að aðstoða lögreglu við rannsókn á mansalsmáli hennar hér á landi. Kærandi hefur aldrei haft dvalarleyfi hér á landi. Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun sendi stofnunin fyrirspurn til lögreglu þar sem óskað var eftir upplýsingum um meint mansal og hvort rannsókn stæði yfir hjá embættinu. Í svari lögreglu við framangreindri fyrirspurn kom fram að engin rannsókn væri í gangi hjá embættinu sem varði meint mansal kæranda. Þá væru ekki í gangi önnur mál tengd kæranda hjá lögreglu. Í ljósi framangreindra upplýsinga sendi Útlendingastofnun kæranda tölvubréf, dags. 3. október 2022, þar sem kæranda var gefið færi á að leggja fram andmæli. Kærandi lagði fram andmælabréf 12. október 2022 þar sem m.a. kom fram að lögreglan hér á landi væri með tengsl við pólsku mafíuna og erlend öryggisfyrirtæki sem útskýri hvers vegna lögreglan væri ekki að rannsaka mansal hennar. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. nóvember 2022, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að tilgangur dvalar hennar væri ekki í samræmi við dvalarleyfið sem hún sótti um, sbr. 2. mgr. 55. gr. og 75. gr. laga um útlendinga. Kæranda var afhent ákvörðun Útlendingastofnunar með ábyrgðarpósti 5. desember 2022. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar sama dag og lagði fram athugasemdir til stuðnings kærunni 27. og 28. desember 2022 ásamt fylgiskjölum. Kærunefnd bárust viðbótargögn frá kæranda 10. janúar 2023.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í rökstuðningi kæranda kemur m.a. fram að Útlendingastofnun hafi hafnað fullyrðingum hennar um að tilteknir lögreglufulltrúar hefðu mögulega tekið við mútum af hálfu pólsku mafíunnar. Lögreglufulltrúi á Ísafirði, sem vinni reglulega með fulltrúa Útlendingastofnunar í máli kæranda, hafi fullyrt að kærandi væri ímyndunarveik. Fulltrúi Útlendingastofnunar hafi viljað vernda lögreglufulltrúann og því hafnað framangreindum fullyrðingum kæranda um að lögreglan hefði tengsl við pólsku mafíuna hér á landi. Þá kveðst kærandi hafa lagt fram svo mikið magn af gögnum að fulltrúi Útlendingastofnunar hafi kosið að lesa þau ekki, þ. á m. tölvubréf hennar til lögreglunnar varðandi samskipti hennar við fyrrum meðleigjandi hennar hér á landi sem sé meðlimur pólsku mafíunnar og hafi tengsl við tiltekna lögreglufulltrúa á Ísafirði. Telur kærandi að framangreind tengsl pólsku mafíunnar, sem hafi staðið að baki rafrænum ofsóknum á hendur henni ásamt rússnesku mafíunni hér á landi, við lögregluna á Ísafirði hafi haft áhrif á niðurstöðu Útlendingastofnunar í máli hennar.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í ákvæði 1. mgr. 75. gr. laga um útlendinga kemur m.a. fram að heimilt sé að veita útlendingi sem grunur leiki á að sé fórnarlamb mansals dvalarleyfi í allt að níu mánuði þótt skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. sé ekki fullnægt. Við rannsókn málsins skal lögregla veita Útlendingastofnun aðstoð, t.d. við mat á aðstæðum viðkomandi. Samkvæmt 2. mgr. 75. gr. laganna veitir það ekki rétt til dvalarleyfis ef rökstuddur grunur er um að útlendingur geri tilkall til að vera í stöðu fórnarlambs í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis og ekki er sýnt fram á annað svo óyggjandi sé.

Samkvæmt athugasemdum við ákvæði 75. gr. laga um útlendinga er ekki nægilegt að gera tilkall til dvalarleyfis á þessum grundvelli til að eiga rétt til þess heldur verður að vera fyrir hendi skilyrði 1. mgr. ákvæðisins um að grunur leiki á að viðkomandi sé fórnarlamb mansals. Þannig getur viðkomandi þurft að sýna fram á að skilyrðum 1. mgr. sé fullnægt ef fyrir hendi er rökstuddur grunur um að tilkall til dvalarleyfis á þessum grundvelli sé gert í þeim tilgangi einum að afla sér dvalarleyfis án þess að nokkuð annað styðji við frásögn viðkomandi. Ef hin sérstöku skilyrði eru fyrir hendi skal veita dvalarleyfið jafnvel þótt ekki sé fullnægt öllum skilyrðum 55. gr. laganna sem fjallar um grunnskilyrði þess að fá útgefið dvalarleyfi hér á landi. Þá er einnig mælt fyrir um að ekki skuli vísa viðkomandi aðila úr landi á þessum tíma þrátt fyrir að brottvísunarheimildir XII. kafla laganna geti átt við.

Kærandi hefur greint frá því að hún telji sig vera þolanda mansals í þeim skilningi að erlend öryggisfyrirtæki séu að fylgjast með henni, sitja um hana og beita hana ofbeldi með rafrænum vopnum. Lagði kærandi fram mikið magn af gögnum máli sínu til stuðnings, m.a. samskipti hennar við lögreglu hér á landi, eigin skrif og myndbönd ásamt ýmsum greinum um beitingu rafrænna vopna. Kærunefnd telur, með vísan til frásagnar hennar og fyrirliggjandi gagna í málinu, að kærandi hafi ekki sýnt fram á að hún sé þolandi mansals í skilningi 75. gr. laga um útlendinga. Horfir kærunefnd til þess að ekki er til rannsóknar mál hjá lögreglu er varðar meint mansal kæranda og hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að aðstæður hennar séu þess eðlis að hún geti talist þolandi mansals í skilningi ákvæðisins. Telur kærunefnd málsástæður kæranda fjarstæðukenndar og ekki á rökum reistar. Að framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að kærandi uppfylli ekki skilyrði 2. mgr. 55. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. og 2. mgr. 75. gr. sömu laga. Er ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda því staðfest.

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta