Hoppa yfir valmynd
12. október 2016 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 2/2016

Hinn 28. september 2016 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 2/2016:

Beiðni um endurupptöku
hæstaréttarmáls nr. 320/2016

B, C, D og E

gegn

F, G og H

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

I. Beiðni um endurupptöku

Með erindi dagsettu 13. maí 2016 fór X þess á leit að mál nr. 320/2016, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 10. maí 2016, yrði endurupptekið.

Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um beiðni þessa. Nefndina skipa Björn L. Bergsson, Ásgerður Ragnarsdóttir og Þórdís Ingadóttir.

II. Málsatvik

Með úrskurði Héraðsdóms Vesturlands var fallist á kröfu F, G og H um ógildingu tveggja kaupmála á milli A og B þannig að þeir yrðu ekki lagðir til grundvallar við skipti á dánarbúi A. Endurupptökubeiðandi var meðal fjögurra varnaraðila, B, C, D, og E. C, D og E létu ágreininginn ekki til sín taka fyrir héraðsdómi en einungis B hélt þar uppi vörnum. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar og eru allir varnaraðilar í héraði, þar á meðal endurupptökubeiðandi, skilgreindir sem kærendur úrskurðarins. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 320/2016 var leyst úr því að kærendurnir C, D og E, en endurupptökubeiðandi var einn þeirra, hafi ekki látið mál þetta til sín taka í héraði. Af þeim sökum hafi þeim brostið heimild til að kæra úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. og 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Kröfum þeirra var af þeim sökum vísað frá Hæstarétti. Ráða má af málsgögnum að skiptastjóri dánarbús A hafi tiltekið endurupptökubeiðanda meðal varnaraðila þegar ágreiningi við skipti dánarbúsins var skotið til úrlausnar héraðsdóms en endurupptökubeiðandi hvorki tekið til varna né látið málið til sín taka. Þegar svo úrskurður héraðsdóms var kærður til Hæstaréttar hafi lögmaður sá sem gætti hagsmuna B skilgreint endurupptökubeiðanda meðal kærenda að honum fornspurðum með þeim rökum að réttarfarsnauðsyn hafi staðið til þess.

III. Grundvöllur beiðni

Af hálfu endurupptökubeiðanda er óskað endurupptöku dóms Hæstaréttar þar sem hann hafi ekki látið málið til sín taka í héraði og hafi ekki ætlað að hafa afskipti af því fyrir Hæstarétti. Hann hafi ekki óskað eftir neinni lögfræðivinnu í tengslum við mál þetta og því komið á óvart að hann hafi verið meðal sóknaraðila í kærumálinu í Hæstarétti. Lögmaðurinn hafi viðurkennt að þetta væru alfarið hans mistök. Endurupptökubeiðandi æskir endurupptöku þar sem þessi mistök lögmannsins hafi haft áhrif á hann á margvíslegan hátt, andlega, félagslega og atvinnulega ásamt því að hann upplifi þetta sem mikinn hnjóð á mannorði sínu.

IV. Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í 1. mgr. 168. gr. laganna segir að skriflegri beiðni um endurupptöku skuli beint til endurupptökunefndar og í henni skuli rökstyðja ítarlega þær ástæður sem þykja standa til endurupptöku og skuli gögn fylgja henni eftir þörfum.

Í 1. mgr. 169. gr. laga um meðferð einkamála segir að endurupptökunefnd geti leyft samkvæmt umsókn aðila að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 167. gr. laganna. Skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála fyrir endurupptöku eru eftirfarandi:

a. sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,
b. sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,
c. önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.

Til að fallist verði á endurupptöku þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt. Í 2. mgr. 168. gr. laganna segir að ef beiðni er bersýnilega ekki á rökum reist synji endurupptökunefnd þegar í stað um endurupptöku.

Fyrir liggur að endurupptökubeiðandi hafði ekki hug á því að láta dómsmál það til sín taka sem endurupptökubeiðni varðar. Hann óskaði aldrei eftir þjónustu lögmanns til að gæta hagsmuna sinna fyrir dómi, hvorki í héraði né Hæstarétti. Samkvæmt tölvubréfi lögmannsins sem fór með málið voru það mistök af hans hálfu að tilgreina endurupptökubeiðanda sem kæranda málsins til Hæstaréttar án hans samþykkis. Kæra í málinu var allt að einu lögð fram í nafni endurupptökubeiðanda af hálfu þess lögmanns sem stóð að kærunni.

Kröfum sem settar voru fram í nafni endurupptökubeiðanda var vísað frá Hæstarétti. Það var rökstutt með vísan til þess að endurupptökubeiðandi hafi ekki látið málið til sín taka í héraði og því brostið heimild til að kæra úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga um meðferð einkamála, sbr. 1. og 2. mgr. 133. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl. Hæstiréttur vísaði þannig kærunni hvað endurupptökubeiðanda varðar frá dómi þar sem lagaskilyrði skorti til þeirrar kæru án þess að taka afstöðu til réttarstöðu hans að öðru leyti eða krafna í kæru. Eins og mál þetta liggur fyrir hefur dómur Hæstaréttar ekki þýðingu fyrir réttarstöðu endurupptökubeiðanda. Er því málinu vísað frá endurupptökunefnd.

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni X um endurupptöku máls nr. 320/2016, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 10. maí 2016, er vísað frá endurupptökunefnd.

Björn L. Bergsson formaður

Ásgerður Ragnarsdóttir

Þórdís Ingadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta