Átaksverkefni um 210 störf og vinnumarkaðsúrræði í Hafnarfirði
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, undirrituðu í dag samkomulag um framkvæmd átaksverkefnisins; Vinna og virkni – átak til atvinnu 2013. Alls verða til 210 störf og starfstengd vinnumarkaðsúrræði í bænum í tengslum við átakið.
Þegar hafa verið undirritaðir samningar um sambærileg átaksverkefni í Reykjavík og á Akureyri. Gert er ráð fyrir að á landsvísu muni þjóðarátakið Vinna og virkni tryggja um 3.700 atvinnuleitendum tilboð um starfstengd vinnumarkaðsúrræði á þessu ári og byggist framkvæmdin á sameiginlegri viljayfirlýsingu velferðarráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytisins, aðila vinnumarkaðarins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Vinnumálastofnunar, VIRK starfsendurhæfingarsjóðs og Starfs vinnumiðlunar og ráðgjafar.
Atvinnuleysistryggingasjóður leggur 2,7 milljarða króna til átaksins sem miðar að því að öllum atvinnuleitendum sem hafa fullnýtt eða munu fullnýta rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins á tímabilinu 1. september síðastliðnum til loka næsta árs, verði boðin vinna eða starfsendurhæfing árið 2013. Almenni vinnumarkaðurinn mun leggja til stærstan hluta þeirra starfa sem átakið felur í sér, eða 60%, sveitarfélögin 30% og ríkið 10%. Framlag Atvinnuleysistryggingasjóðs nýtist að mestu sem mótframlag til launa í sex mánuði fyrir þau störf sem til verða með átaksverkefninu en hluta fjárins verður varið til einstaklinga sem þurfa á atvinnutengdri endurhæfingu að halda.
Í Hafnarfirði leggur bæjarfélagið til 63 störf og starfstengd vinnumarkaðsúrræði, almenni vinnumarkaðurinn 126 og ríkið 21. Í samkomulaginu er meðal annars kveðið á um ráðgjöf til atvinnuleitenda meðan á þátttöku þeirra í vinnumarkaðsúrræðum átaksverkefnisins stendur. Ein af forsendum samkomulagsins er að samstarf um þjónustu við ungt fólk á aldrinum 16-25 ára sem nýtur fjárhagsaðstoðar hjá félagsþjónustu sveitarfélagsins verði efld. Hafnarfjörður er eitt þeirra sveitarfélaga þar sem rekið er sérstakt Atvinnutorg fyrir ungt fólk en átaksverkefnið Vinna og virkni miðast við að opnað verði fyrir aðkomu fleiri sveitarfélaga að Atvinnutorgum á þessu ári.
Einstakt samstarfsverkefni
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra sagði við undirritun samkomulagsins við Hafnarfjörð í dag að þjóðarátakið Vinna og virkni væri einstakt samstarfsverkefni. Allir sem ættu aðild að því væru einhuga um aðgerðirnar og reiðubúnir að leggja mikið af mörkum til að styrkja stöðu atvinnuleitenda og ýta undir möguleika þeirra til að verða virkir á vinnumarkaði á nýjan leik: „Þetta er geysistórt verkefni og mikið í húfi að vel takist til. Þeir sem hafa verið án atvinnu um langa hríð búa við mjög erfiðar aðstæður og veruleg hætta er á að fólk verði óvinnufært til frambúðar ef ekkert er að gert. Átaksverkefnið opnar fólki dyr að vinnu og virkni sem er ómetanlegt og getur skipt sköpum fyrir framtíðina.