Árangur af vinnumarkaðsúrræðum Vinnumálastofnunar
Um 75% þeirra sem skráðir voru hjá Vinnumálastofnun í atvinnuleit á árunum 2009–2013 voru í vinnu eða námi haustið 2013 samkvæmt niðurstöðum könnunar sem Vinnumálastofnun lét gera á aðstæðum þessa hóps. Markmiðið var að kanna stöðu hópsins og einnig viðhorf einstaklinga innan hans til mismunandi vinnumarkaðsúrræða.
Þýði könnunarinnar voru um 24.000 einstaklingar sem skráðir voru í atvinnuleit á fyrrnefndu árabili en úrtakið var um 3.500 einstaklingar. Svarhlutfall var tæp 60%. Úrtakinu var skipt í sex 500 manna hópa. Einstaklingar í fimm þessara hópa höfðu tekið þátt í einhverjum af eftirtöldum vinnumarkaðsúrræðum Vinnumálastofnunar, þ.e; Vinnandi vegi – Nám er vinnandi vegur – Liðsstyrk – ÞOR þekking og reynsla og Ungt fólk til athafna. Í sjötta hópnum voru einstaklingar sem höfðu notið einhverrar annarrar þjónustu Vinnumálastofnunar.
Helstu niðurstöður
Stærstur hluti svarenda var í vinnu þegar könnunin var gerð eða 63,5% en þar af voru 1,5% í fæðingarorlofi. Því til viðbótar voru tæplega 5% í vinnu samhliða námi og 8% voru í námi. Samtals voru því um 75,5% í vinnu og/eða námi. Ef þessi niðurstaða er umreiknuð á þýðið má áætla að tæplega 18.100 af 24.000 einstaklingum sem í hlut áttu hafi verið í vinnu og/eða námi haustið 2013.
Samkvæmt könnuninni má ætla að um 2.100 einstaklingar af heildinni hafi hætt þátttöku á vinnumarkaði á tímabilinu vegna aldurs, örorku eða langtímaveikinda. Um 200 einstaklingar voru í fæðingarorlofi.
Um 15% hópsins eru hvorki virk á vinnumarkaði né í námi
Niðurstöður könnunarinnar sýna að um 15% þátttakenda eru hvorki virk á vinnumarkaði né í námi án þess að fyrir því séu tilgreindar ástæður. Nánari skoðun á aðstæðum þessa hóps sýndi að karlar eru þar fleiri en konur, einstaklingar af erlendum uppruna eru þar fleiri en Íslendingar og flestir í þessum hópi eru 45 ára og eldri. Ósérhæft starfsfólk er áberandi í þessum hópi og fólk sem áður var í störfum sem kröfðust ýmis konar tæknikunnáttu. Niðurstöðurnar benda einnig til þess að hlutfallslega fleiri í þessum hópi búi í leiguhúsnæði, í foreldrahúsum eða séu húsnæðislausir borið saman við fólk í hinum hópunum. Velferðarráðuneytið og Vinnumálastofnun munu skoða hvaða leiðir eru færar til að koma til móts við þennan hóp sem hvorki er virkur á vinnumarkaði né í námi.