Hoppa yfir valmynd
8. mars 2023 Forsætisráðuneytið

1130/2023. Úrskurður frá 20. febrúar 2023

Hinn 20. febrúar 2023 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1130/2023 í máli ÚNU 22040006.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 11. apríl 2022, kærði A lögmaður, f.h. Samtaka afurðastöðva í mjólk­uriðnaði, afgreiðslu Skattsins á beiðni hans um gögn, með vísan til 3. mgr. 17. gr. upplýsinga­laga, nr. 140/2012.

Kærandi óskaði hinn 10. febrúar 2022 eftir aðgangi að tilteknum bindandi álitum tollyfirvalda um toll­flokkun. Beiðnin var afmörkuð frekar hinn 23. febrúar sama ár, þegar kærandi óskaði eftir aðgangi að 114 bindandi álitum um tollflokkun vöru í landbúnaðarköflum tollskrár, sem gefin hefðu verið út á síðastliðnum þremur árum.

Í kæru kemur fram að það veki furðu að bindandi álit um tollflokkun séu ekki birt. Slík birting myndi gera fyrirtækjum og einstaklingum kleift að kynna sér tollframkvæmd og haga innflutningi sínum í samræmi við tollalög.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Skattinum með erindi, dags. 13. apríl 2022, og stofnuninni veittur kostur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að Skatturinn léti úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.

Umsögn Skattsins barst úrskurðarnefndinni hinn 25. apríl 2022. Í henni kom fram að tollyfirvöld féll­ust á að veita kæranda aðgang að hinum bindandi álitum að hluta. Eftirfarandi upplýsingar hefðu verið afmáðar úr hverju áliti:

  • Reitur 1: Umsækjandi (fullt nafn og heimilisfang).
  • Reitur 2: Umboðsmaður eða fulltrúi (fullt nafn og heimilisfang).
  • Reitur 3: Sendingarnúmer.
  • Reitur 6: Viðskiptalegt auðkenni og viðbótarupplýsingar, að því marki sem Skatturinn teldi upp­lýs­ingarnar viðkvæmar.
  • Reitur 7: Fylgigögn, að því marki sem Skatturinn teldi upplýsingar í þeim viðkvæmar.
  • Reitur 10: Dagsetning og undirskrift umsækjanda.

Til stuðnings framangreindum takmörkunum var vísað til þagnarskylduákvæðis í 188. gr. tollalaga, nr. 88/2005, auk 9. tölul. 1. mgr. 42. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Þær upplýsingar sem hefðu verið fjarlægðar væru viðkvæmar að mati tollyfirvalda og vörðuðu mikilvæga viðskiptahagsmuni þeirra aðila sem væru til umfjöllunar.

Umsögn Skattsins var kynnt kæranda með bréfi, dags. 26. apríl 2022. Í erindi úrskurðarnefndarinnar var óskað afstöðu kæranda til þess hvort hann teldi afhendingu hinna bindandi álita með framan­greind­um takmörkunum vera fullnægjandi eða hvort hann vildi að málinu yrði haldið áfram hjá nefnd­inni. Svar kæranda barst hinn 10. maí 2022. Þar kom fram að afhendingin væri ófullnægjandi. Kærandi teldi að ekki væri rétt að takmarka aðgang að öllum þeim upplýsingum sem afmáðar hefðu verið. Þá gerði kærandi athugasemd við að honum hefðu ekki verið afhent fylgigögn hinna bindandi álita sem vísað væri til í umsögn Skattsins.

Kærandi telur upplýsingar um hver hafi óskað eftir bindandi áliti tollyfirvalda hverju sinni geti ekki fallið undir þagnarskylduákvæði tollalaga, því þær teljist ekki upplýsingar um viðskipti fyrirtækja. Þá séu álitin allt frá tveggja til fjögurra ára gömul, og viðskiptahagsmunir því tæplega til staðar lengur. Auk þess hafi ekki verið óskað eftir afstöðu þeirra aðila sem upplýsingarnar varða til afhendingarinnar. Loks bendir kærandi á að engin sérstök leynd eigi að ríkja yfir því hvaða aðilar flytji inn hvaða vörur. Að því er varðar fylgigögn geti upplýsingar um innihald einstakra landbúnaðarvara hvorki fallið undir þagnarskylduákvæði tollalaga né 9. gr. upplýsingalaga.

Úrskurðarnefndin gaf Skattinum kost á að bregðast við athugasemdum kæranda með erindi, dags. 10. maí 2022. Viðbrögð Skattsins bárust nefndinni hinn 20. maí sama ár. Þar er áréttað að bindandi álit um tollflokkun séu aðeins bindandi gagnvart umsækjanda og tollyfirvöldum, ekki gagnvart þriðju aðilum. Algengt sé að óska eftir bindandi áliti þegar aðili hyggst flytja til landsins nýja vöru til að eyða óvissu um fjárhæð aðflutningsgjalda. Óheftur aðgangur að álitunum, þ.m.t. nöfnum umsækjenda, geti veitt óeðlilega innsýn inn í viðskiptafyrirætlanir þessara aðila.

Nafn umsækjanda sé ekki nauðsynlegt til að átta sig á efni og niðurstöðu bindandi álits. Nöfn séu ekki birt t.d. í úrskurðum tollyfirvalda eða yfir­skattanefndar. Þá birti Evrópusambandið aðeins bindandi álit sem hafi verið hreinsuð af trúnaðar­upplýsingum. Loks sé algengt að fylgigögn innihaldi upplýsing­ar um innihald, framleiðsluaðferðir og tækniskjöl sem ekki séu opinber gögn. Aðgangur að þeim gæfi óeðlilega innsýn inn í framleiðsluferil vöru og kynni að vera til þess fallið að valda viðkomandi fram­leiðendum tjóni. Í fylgigögnum og reit 6 sé einnig algengt að finna upplýsingar um verð og viðskipta­kjör sem bjóðast umsækjanda. Það séu án efa viðkvæmar upplýsingar.

Niðurstaða

Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál á grundvelli 3. mgr. 17. gr. upplýsingalaga, vegna tafa á afgreiðslu beiðni kæranda. Skatturinn afgreiddi beiðni kæranda við meðferð málsins og af­henti hluta umbeðinna gagna. Synjun Skattsins á þeim upplýsingum sem afmáðar voru úr bindandi álitum um tollflokkun byggist að meginstefnu á þagnarskylduákvæði í 188. gr. tollalaga, nr. 88/2005, og X. kafla stjórnsýslu­laga, nr. 37/1993. Athugun nefndarinnar beinist fyrsta kastið að því hvort ákvæði 188. gr. tollalaga sé þess eðlis að það geti girt fyrir aðgang að gögnum samkvæmt upplýsinga­lög­um og ef svo er, hvort þær upplýsingar sem afmáðar voru úr hinum bindandi álitum falli réttilega undir ákvæðið.

Í 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, kemur fram að almenn ákvæði laga um þagnar­skyldu takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögunum. Andspænis slíkum ákvæðum eru sérstök þagnarskylduákvæði, þar sem upplýsingar þær sem þagnarskyldan tekur til eru sérgreindar. Með gagnályktun frá 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga verður talið að sérstök þagnarskylduákvæði geti takmarkað rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum. Það fer eftir efni og orðalagi við­komandi ákvæðis hvernig það verður skýrt og samræmt ákvæðum upplýsingalaga, sbr. athuga­semdir í frumvarpi því sem varð að gildandi upplýsingalögum.

Í 1. mgr. 188. gr. tollalaga kemur fram að starfsmenn tollyfirvalda séu bundnir þagnarskyldu samkvæmt X. kafla stjórnsýslulaga. Þagnarskyldan taki til upplýsinga um einkahagi manna sem eðlilegt sé að leynt fari og upplýsinga um viðskipti einstakra manna og fyrirtækja, þ.m.t. hvers konar vitneskju sem ráða megi af samritum af sölu- og vörureikningum sem tollyfirvöld halda eftir.

Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að gildandi tollalögum kemur fram að vegna eðlis starfa starfsmanna tollyfirvalda þyki rétt að hafa sérstakt ákvæði í tollalögum um þagnarskyldu, umfram þá almennu þagnarskyldu sem finna megi í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þagnarskyldan nái m.a. til upplýsinga um hvers konar viðskiptamálefni einstaklinga og fyrirtækja, þ.m.t. hvers kyns vitneskju sem ráða megi beint eða óbeint af samritum af sölu- og vörureikningum eða af öðrum skjölum sem látin eru tollstjóra í té.

Ákvæði um þagnarskyldu starfsmanna tollyfirvalda voru fyrst leidd í lög með 25. gr. laga um tollskrá o.fl., nr. 62/1939. Ákvæðinu svipaði til gildandi ákvæðis að því leyti að mælt var fyrir um þagnarskyldu um „verslunarhagi“ einstakra manna og fyrirtækja. Í áliti milliþinganefndar í skatta- og tollamálum, sem myndaði frumvarp það sem varð að lögunum, kom fram um ákvæðið að þagnarskyldan næði til samrita af sölu- og vöru­reikningum auk upplýsinga sem tollyfirvöld öfluðu úr bókhaldi innflytjenda. Þá þyrftu tollyfirvöld að gæta þess að samritin yrðu ekki látin liggja á glámbekk, þar sem óviðkomandi gætu komist í þau.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur slegið því föstu í úrskurðarframkvæmd sinni að 1. mgr. 188. gr. tollalaga teljist vera sérstakt þagnarskylduákvæði að því er varðar upplýsingar um viðskipti ein­stakra manna og fyrirtækja. Í ljósi orðalags ákvæðisins og athugasemda við ákvæðið, fyrr og síðar, verður að líta svo á að undir ákvæðið falli hvers kyns upplýsingar tollyfirvalda um viðskipti einstakra manna og fyrirtækja. Ef upplýsingar falla þannig á annað borð undir ákvæðið leiðir það til takmörkunar á aðgangi að þeim án þess að lagt sé mat á hagsmuni viðkomandi manna eða fyrir­tækja af því að við­­komandi upplýsingum um viðskipti þeirra sé haldið leyndum, sbr. 9. gr. upplýsingalaga.

Úrskurðarnefndin hefur farið yfir þær upplýsingar sem Skatturinn afmáði úr þeim bindandi álitum um toll­­flokkun sem afhent voru kæranda. Nánar tiltekið eru það upplýsingar um auðkenni umsækjanda, send­ingarnúmer, viðskiptalegt auðkenni og viðbótarupplýsingar, auk fylgigagna. Það er mat úrskurðar­nefnd­arinnar með hliðsjón af því hvernig ákvæði 188. gr. tollalaga verði túlkað að þær upplýsingar sem voru afmáðar teljist í heild sinni varða viðskipti þeirra manna og fyrirtækja sem óskuðu eftir bind­andi áliti um tollflokkun vöru og falli þannig undir þagnarskylduákvæðið. Á það einnig við um upplýsingar um nöfn/heiti umsækjenda, enda myndi af­hending þeirra leiða til þess að veittar væru upp­lýs­ingar um viðskipti umsækjendanna, sem falla undir ákvæði 188. gr. tollalaga. Því telur úrskurðar­nefnd­in að upplýsingaréttur kæranda nái ekki til þeirra upplýsinga sem Skatturinn hefur afmáð úr þeim bind­andi álitum sem kærandi óskaði aðgangs að.

Úrskurðarorð

Samtök afurða­stöðva í mjólkuriðnaði eiga ekki rétt til aðgangs að frekari upplýsingum úr þeim bind­andi álitum um tollflokkun, sem óskað var eftir hinn 23. febrúar 2022, en Skatturinn hefur með erindi til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 25. apríl 2022, fallist á að samtökunum skuli veittur að­gangur að.

Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta