Tekjustofnanefnd skilar áfangaskýrslu
Tekjustofnanefnd hefur skilað áfangaskýrslu til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra en nefndinni var falið að yfirfara lög um tekjustofna sveitarfélaga. Meðal ábendinga nefndarinnar er að kanna hvernig jafna megi byrðar vegna endurgreiðslu sveitarfélaga á gengistryggðum lánum næstu árin.
Nefndin var skipuð þann 8. júlí síðastliðinn og er verkefni hennar að yfirfara lög nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum. Ennfremur var nefndinni falið að undirbúa nauðsynlegar breytingar á lögunum í tengslum við breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga árið 2011.
Í nefndinni sitja Sigurður Guðmundsson, fulltrúi fjármálaráðherra, Árni Þór Sigurðsson, fulltrúi þingflokks Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, Birna Lárusdóttir, fulltrúi þingflokks Sjálfstæðisflokksins, Ragnheiður Hergeirsdóttir, fulltrúi þingflokks Samfylkingarinnar, Petrína Baldursdóttir, fulltrúi þingflokks Framsóknarflokksins, Jón Kr. Arnarson, fulltrúi þingflokks Borgaraflokksins, Elín Líndal, Lúðvík Geirsson og Sigrún Björk Jakobsdóttir fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Formaður nefndarinnar og fulltrúi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra er Gunnar Svavarsson.
Í samræmi við verkefnaáætlun nefndarinnar sendir hún nú frá sér áfangaskýrslu þar sem settar eru fram tillögur sem tengjast tekjuöflun sveitarfélaga og/eða útgjaldastýringu. Ekki er tekin afstaða til heildarkerfisbreytinga á lögum um tekjustofna sveitarfélaga að sinni en nefndin telur engu að síður mikilvægt að koma þessu áfangaáliti á framfæri. Nefndin mun hins vegar áfram vinna að meginverkefni sínu sem er að breikka og styrkja tekjustofna sveitarfélaga í samræmi við erindisbréfið.
Nefndin hefur fundað reglulega frá því að erindisbréf var gefið út. Skipað var í fjögurra manna framkvæmdahóp sem hefur komið saman milli funda. Fjölmargir gestir hafa komið á fundi nefndarinnar og hefur nefndin nú þegar lokið yfirferð sinni á tekjuöflunarkafla laganna.
Nefndin leggur almennt mikla áherslu á að sameiginlegri vinnu við mat á kostnaði um áhrif ýmissa skattkerfisbreytinga á fjárhag sveitarfélaganna verði hraðað sem kostur er. Heildaráhrif tillagna þurfa að liggja fyrir sem fyrst, enda er það nauðsynlegur grundvöllur fyrir frekari tillögugerð um fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga.