Hoppa yfir valmynd
26. ágúst 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 206/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 206/2021

Fimmtudaginn 26. ágúst 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Erla Guðrún Ingimundardóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 21. apríl 2021, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Fæðingarorlofssjóðs, dags. 3. febrúar 2021, vegna umsóknar hans um greiðslur úr sjóðnum.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags 6. janúar 2021, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna barns síns sem fæddist X. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 3. febrúar 2021, var fallist á umsókn kæranda. Í greiðsluáætlun kom fram að mánaðarleg greiðsla til hans yrði 190.747 krónur á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 21. apríl 2021. Með bréfi, dags. 26. apríl 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 11. maí 2021, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 12. maí 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að umsókn hans um fæðingarorlof, dags. 7. janúar 2021, hafi verið samþykkt 3. febrúar 2021 með útgáfu á greiðsluáætlun. Í ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs segi að forsendur útreiknings mánaðarlegra greiðslna í fæðingarorlofi byggi á tekjum hans á viðmiðunartímabili sem hafi verið 0 krónur. Óumdeilt sé að viðmiðunartímabilið sé frá ágúst 2019 til júlí 2020.

Í svarbréfi Fæðingarorlofssjóðs þann 18. febrúar 2021 við beiðni kæranda, dags. 15. febrúar 2021, um endurskoðun greiðsluáætlunar og svarbréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 3. mars 2021, við ítrekun hans um endurskoðun greiðsluáætlunar megi helst greina tvö meginsjónarmið Fæðingarorlofssjóðs um útreikning á meðaltali heildarlauna á viðmiðunartímabilinu sem leiði til hinnar kærðu ákvörðunar. Sjónarmiðin séu þau að aðeins verði tekið tillit til tekna sem aflað hafi verið á innlendum vinnumarkaði og að útreikningur verði aðeins byggður á tekjum sem staðfest sé samkvæmt tryggingagjaldskrá að tryggingagjald hafi verið greitt af. Kærandi geri þá kröfu að ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs verði felld úr gildi og tekið verði tillit til aflaðra tekna á viðmiðunartímabili við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Kærandi gerir grein fyrir eftirfarandi sjónarmiðum.

Innlendar tekjur kæranda á viðmiðunartímabili

Fæðingarorlofssjóður hafi í svarbréfum sínum látið að því liggja að tekna á viðmiðunartímabili hafi ekki verið aflað á innlendum vinnumarkaði. Á viðmiðunartímabili hafi kærandi starfað hjá O í tengslum við ][…]. Staðfesting á störfum hans fyrir stofnunina hafi fylgt kæru til úrskurðarnefndarinnar. Þann tíma sem hann hafi starfað fyrir O hafi hann haft lögheimili, búsetu, starfsstöð, ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi og laun í íslenskum krónum. Allra launa á viðmiðunartímabilinu hafi því verið aflað á innlendum vinnumarkaði í skilningi 1. mgr. 22. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof  sem starfsmaður, sbr. 4. tl. 4. gr. laganna. Á skattframtölum vegna tekjuáranna 2019 og 2020 sé gerð grein fyrir þeim tekjum og séu þær grundvöllur tekjustofns álagningar. Allar tekjur á viðmiðunartímabilinu séu launagreiðslur frá O.

Tekjur samkvæmt lögum um tryggingagjald

Í 1. mgr. 23. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof segi að mánaðarleg greiðsla starfsmanns skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna á innlendum vinnumarkaði. Til launa á innlendum vinnumarkaði teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sbr. 4. mgr. 23. gr. laganna.

Í 3. kafla laga nr. 133/1990 um tryggingargjald sé tilgreint hvaða greiðslur myndi stofn til greiðslu tryggingagjalds en þar segi að stofn til tryggingagjalds séu allar tegundir launa eða þóknana fyrir starf, hverju nafni sem nefnist, sem skattskyld séu samkvæmt 1. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Að mati kæranda sé það nokkuð afdráttarlaust. Eins og áður segi hafi hann borið ótakmarkaða skattskyldu á viðmiðunartímabilinu og margumræddar tekjur hafi fallið undir 1. tl. A-liðar 7. gr. tekjuskattslaga og hafi þeim verið gerð skil á skattframtali.

Til staðgreiðslu tekjuskatts vegna þessara tekna komi hins vegar ekki þar sem frádráttarheimild 2. tl. A-liðar 30. gr. tekjuskattslaga hafi leitt til þess að skattstofn hafi orðið að engu en í ákvæðinu segi að draga megi frá tekjum manna:

Launatekjur sem greiddar eru embættismönnum, fulltrúum og öðrum starfsmönnum sem starfa hjá alþjóðastofnunum eða ríkjasamtökum, enda sé kveðið á um skattfrelsið í samningum sem Ísland er aðili að.“

Í stofnsamningi O og viðaukum sem Ísland sé aðili að, sé kveðið á um skattfrelsi tekna skipaðra fulltrúa. Athygli sé vakin á því að um frádráttarheimild sé að ræða en ekki greiðslur sem teljist ekki til tekna, sbr. 28. gr. tekjuskattslaga. Þannig séu tekjurnar skattskyldar en aftur á móti sé einnig heimilt að draga þær frá skattstofni tekjuskatts. Hafi þetta meðal annars þá þýðingu að launagreiðslurnar myndi tekjustofn ársins sem til dæmis hafi leitt til algjörrar skerðingar á barnabótum eins og niðurstaða álagningar ársins 2020 vegna tekna ársins 2019 beri með sér. Fæðingarorlofssjóður telji hins vegar að ekki verði litið til sömu tekna við útreikning mánaðarlegra greiðslna í fæðingarorlofi.

Túlkun Fæðingarorlofssjóðs á úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 233/2019

Í svari Fæðingarorlofssjóðs í tölvupósti, dags. 18. febrúar 2021, við beiðni um endurskoðun á greiðsluáætlun sé fullyrt að úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 233/2019 staðfesti að tryggingagjald þurfi að hafa verið greitt af launum á viðmiðunartímabili. Í úrskurðinum séu rakin sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs, sem sé tíðrætt um tryggingagjald og bendi á að sjóðurinn sé fjármagnaður með skattinum. Úrskurðarnefnd velferðarmála taki hins vegar ekki afstöðu til þeirra sjónarmiða heldur byggi niðurstöðu sína eingöngu á því að: „Þar sem kærandi var ekki á innlendum vinnumarkaði á viðmiðunartímabilinu verður að líta til framangreindrar 4. mgr., sbr. 7. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, og fallast á að kærandi hafi eingöngu öðlast rétt til lágmarksgreiðslna[...]“ og að ekki sé „[...]að finna heimild til að taka mið af tekjum kæranda á erlendum vinnumarkaði eins og kærandi óskar eftir.“

Eins og áður segi hafi allra tekna kæranda á viðmiðunartímabilinu verið aflað á innlendum vinnumarkaði. Niðurstaða úrskurðarnefndar í máli nr. 233/2019 verði því að engu leyti yfirfærð á atvik og aðstæður í máli kæranda. Frjálsleg túlkun Fæðingarorlofssjóðs og fullyrðingar um staðfestingu úrskurðarnefndar á sjónarmiðum sjóðsins um þýðingu greiðslu tryggingagjalds séu því í besta falli afvegaleiðandi og samræmist illa leiðbeiningarskyldu 7. gr. stjórnsýslulaga.

Greiðsla tryggingagjalds sem skilyrði tekjuviðmiðunar starfsmanna

Skýring 1. ml. 4. mgr. og 1. og 2. ml. 5. mgr. 23. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof sé lykilatriði við úrlausn fyrirliggjandi máls, enda kveði þar á um hvað teljist til launa á innlendum markaði og á hverju útreikningur til ákvörðurnar á meðaltali heildarlauna skuli byggjast.

Fæðingarorlofssjóður hafi í svörum sínum ítrekað að við útreikning á meðaltali heildarlauna á viðmiðunartímabili starfsmanna verði eingöngu tekið tillit til tekna sem greitt hafi verið tryggingagjald af. Vísi sjóðurinn meðal annars í ótilgreind ákvæði laga um fæðingar- og foreldraorlof um að sjóðurinn sé fjármagnaður með tryggingagjaldi og líta þurfi til þess við útreikning. Þá vísi Fæðingarorlofssjóður til athugasemda um 5. mgr. 23. gr. frumvarps til laganna en þar segi að:

„í 5. mgr. kemur fram að útreikningur á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þannig skal einungis greitt úr Fæðingarorlofssjóði á grundvelli skattframtala, staðgreiðsluskrár og tryggingagjaldsskrár skattyfirvalda enda talið mikilvægt að einungis þær tekjur foreldris sem gefnar hafa verið upp til skattyfirvalda og tryggingagjald verið greitt af komi til útreiknings á greiðslum foreldris úr Fæðingarorlofssjóði“

Vísanir Fæðingarorlofssjóðs í lögskýringargögn verði ekki skildar öðruvísi en svo að sjóðurinn telji að horfa verði sérstaklega til vilja löggjafans við skýringu á 5. gr. 23. gr. laganna. Þannig hafi löggjafinn í raun skilyrt heimild til að byggja útreikninga á meðaltali heildarlauna á viðmiðunartímabilinu á tekjum sem gefnar hafi verið upp til skatts og að tryggingagjald hafi sannarlega verið greitt og fært í tryggingagjaldskrá.

Í fyrsta lagi sé nærtækast að líta til almennrar textaskýringar á ákvæðum 4. og 5. mgr. 23. gr. laganna en í 1. málsl. 4. mgr. 23. gr. segi að til launa á innlendum vinnumarkaði teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Eins og áður sé rakið falli tekjur hans á viðmiðunartímabilinu undir lög um tryggingagjald. Í 1. og 2. málsl. segi að útreikningur skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun afli um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldskrá skattyfirvalda. Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna viðmiðunartímabila samkvæmt 1-3. mgr. Í málsgreininni sé beinlínis lögð skylda á Fæðingarorlofssjóð að byggja útreikning ekki eingöngu á tryggingagjaldskrá, án þess að staðfesting skattyfirvalda um að upplýsingar séu í samræmi við álagningu skattyfirvalda. Eins og áður hafi segi hafi tekjur kæranda verið gefnar upp til skatts og séu grundvöllur tekjustofns álagningar.

Í öðru lagi megi við skoðun á 23. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof sjá að löggjafinn geri mikinn greinarmun á sjálfstætt starfandi og starfsmanni, sbr. 3. og 4. tl. 4. gr. laganna. Á meðan til launa starfsmanna á innlendum markaði teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald, eigi það einungis við um að reiknað endurgjald hafi komið til greiðslu tryggingargjalds, sbr. 3. og 4. mgr. 23. laganna. Þannig sé greiðsla tryggingagjalds áskilin sérstaklega þegar um reiknað endurgjald sé að ræða en miða við tekjur starfsmanna sem heyri undir lög um tryggingagjald, en ekki sé gerður sérstakur áskilnaður um greiðslu þess.

Raunar sé það svo að löggjafinn sé auðsjáanlega meðvitaður um að tryggingagjald sé ekki alltaf greitt af tekjum þeirra sem starfi á innlendum vinnumarkaði og sé ráðherra þannig veitt heimild í 57. gr. laganna til þess að mæla sérstaklega fyrir um rétt þeirra sem séu undanskildir greiðslu tryggingagjalds lögum samkvæmt. Ráðherra hafi ekki enn séð tilefni til að setja slíka reglugerð. Þá hafi réttindi þessa hóps heldur ekki verið takmörkuð með reglugerð nr. 1218/2008 um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks sem sett hafi verið með samhljóma heimild í eldri lögum nr. 95/2020 um fæðingar- og foreldraorlof.

Þegar litið sé til áskilnaðar um greiðslu tryggingagjalds sjálfstætt starfandi, ásamt reglugerðarheimild 57. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, sem vísi í réttindi þeirra sem séu undanskildir greiðslu tryggingagjalds, leiði skýring sjóðsins um sannarlega greiðslu tryggingagjalds til innra ósamræmis ákvæða laganna. Samræmisskýring ákvæðanna styðji því enn fremur við lagatextann líkt og hann komi fyrir.

Í þriðja lagi sé óhætt að vísa til markmiðs laganna við skýringu á ákvæðunum sem um ræði. Í 2. gr. segi skýrt að markmið laganna sé að tryggja barni samvistir við báða foreldra og gera foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Skýring Fæðingarorlofssjóðs gangi gegn markmiði laganna, enda séu möguleikar dóttur hans til samvista við föður sinn verulega skertir, verði ekki tekið tillit til tekna hans á viðmiðunartímabilinu þar sem greiðslur myndu verða 68% lægri.

Í fjórða lagi beri samkvæmt viðteknum lögskýringarreglum að skýra lög eftir orðanna hljóðan, svokallaðri almennri lögskýringu. Efni standi því síst til þess að beita þrengjandi lögskýringu líkt og Fæðingarorlofssjóður virðist gera og taka með þeirri skýringu ákvæðisins íþyngjandi ákvörðun um útreikning greiðslna. Það sé í raun sama hvar beri niður í lögskýringarfimiæfingum, allt beri að sama brunni.

Þó svo að í lögskýringargögnum megi finna tilvísun til þess að ekki verði byggt á greiðslum við útreikning heildarlauna á viðmiðunartímabili nema laun séu gefin upp til skatts og tryggingagjald greitt af þeim, verði slík túlkun á vilja löggjafans að yfirstíga gagnstæð lögskýringarsjónarmið og nærtækustu lögskýringarleið.

Aðferð Fæðingarorlofssjóðs við útreikning þann, sem lagður sé til grundvallar hinni kærðu ákvörðun, leiði raunar til réttrar niðurstöðu í langflestum tilvikum, enda komi langoftast til greiðslu tryggingagjalds vegna launa sem skapi stofn til greiðslu samkvæmt lögunum. Hins vegar verði að gera þá kröfu að sjóðurinn hlíti skýrum fyrirmælum laganna og byggi á þeim tekjum sem lögin taki til.

III.  Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærður sé útreikningur sjóðsins á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Með umsókn, dags. 6. janúar 2021, hafi kærandi sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna fæðingar barns þann X. Auk umsóknar kæranda hafi legið fyrir tilkynning um tilhögun fæðingarorlofs, dags. 21. desember 2020, og launaseðlar fyrir tímabilið ágúst 2019 til júlí 2020. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar frá Skattinum og Þjóðskrá Íslands. Á kærustigi málsins hafi verið þörf á frekari rannsókn í kjölfar samskipta við Skattinn og hafi því verið óskað eftir afriti af skattframtölum kæranda fyrir tekjuárin 2019 og 2020. Í framhaldi af því hafi borist svar við fyrirspurn til Skattsins, dags. 10. maí 2021.

Þann 3. febrúar 2021 hafi kæranda verið send greiðsluáætlun með útreikningum á væntanlegum greiðslum þar sem fram hafi komið að mánaðarleg greiðsla yrði 190.747 krónur á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof. Sú ákvörðun er kærð í þessu máli.

Ágreiningur málsins snúi að því hvort Fæðingarorlofssjóði sé skylt að líta til tekna sem kærandi hafi aflað í störfum sínum fyrir O við útreikning á meðaltali heildarlauna og ekki hafi verið greitt tryggingagjald af eða teljist til þeirra tilvika sem sérstaklega sé kveðið á um að skuli taka með til útreiknings.

Í 1. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof sé kveðið á um gildissvið laganna. Þar segi að lögin taki til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs. Þau eigi við um foreldra sem séu starfsmenn og/eða sjálfstætt starfandi. Samkvæmt 1. mgr. 21. gr. laganna öðlist foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Óumdeilt sé að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 21. gr. laganna um sex mánaða samfellt starf á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns og eigi tilkall til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sem starfsmaður samkvæmt 4. tölul. 4. gr. laganna.

Í 1. mgr. 23. gr. laganna sé meðal annars kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns, sbr. 4. tölul. 4. gr., í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og skuli miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex almanaksmánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann almanaksmánuð sem barn komi inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá almanaksmánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 22. gr., án tillits til þess hvort laun samkvæmt því ákvæði eða reiknað endurgjald samkvæmt 2. mgr. hafi komið til. Aldrei skuli þó miða við færri almanaksmánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Í 4. mgr. 23. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof komi fram að til launa á innlendum vinnumarkaði samkvæmt 1.-3. mgr. teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Jafnframt skuli telja til launa þau tilvik sem teljist til þátttöku á innlendum vinnumarkaði samkvæmt a-e-liðum 2. mgr. 22. gr. laganna. Í 3. mgr. 6. gr. laganna sé kveðið á um það að Fæðingarorlofssjóður skuli fjármagnaður með tryggingagjaldi, sbr. lög nr. 113/1990 um tryggingagjald, auk vaxta af innistæðufé sjóðsins. Í lögum um tryggingagjald sé síðan nánar kveðið á um meðal annars gjaldskylda aðila, gjaldstofn, laun og þess háttar, hlunnindi, undanþágur frá gjaldstofni og erlenda launagreiðendur. Við útreikning á meðaltali heildarlauna foreldra á innlendum vinnumarkaði sé nauðsynlegt að líta til framangreindra ákvæða, enda sé Fæðingarorlofssjóður fjármagnaður með tryggingagjaldi og þá sé sérstaklega kveðið á um það í 23. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof hvaða laun skuli koma til útreiknings og hvaða önnur tilvik skuli koma til útreiknings. Þá sé kveðið um það í 24. gr. laganna hvernig skuli farið með starfsmenn sem uppfylli skilyrði til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði en hafi ekki starfað á innlendum vinnumarkaði á viðmiðunartímabili.

Í 1. mgr. 6. gr. laga um tryggingagjald komi fram að stofn til tryggingagjalds séu allar tegundir launa eða þóknana fyrir starf, hverju nafni sem nefnist, sem skattskyld séu samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt. Í 2. tölul. A-liðar 30. gr. laga um tekjuskatt sé að finna undanþágu frá skattskyldu samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. sömu laga. Í 1. mgr. 30. gr. laganna sé þannig meðal annars kveðið á um að frá tekjum manna samkvæmt II. kafla laganna, sem ekki séu tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi megi draga launatekjur sem greiddar séu embættismönnum, fulltrúum og öðrum starfsmönnum sem starfi hjá alþjóðastofnunum eða ríkjasamtökum, enda sé kveðið á um skattfrelsið í samningum sem Ísland sé aðili að.

Fyrir liggi að þær tekjur sem kærandi hafi aflað í starfi sínu fyrir O séu undanþegnar skattskyldu samkvæmt 2. tölul. A-liðar 30. gr. laga um tekjuskatt, enda sé kveðið á um skattfrelsið í stofnsamningi O. Af þessari undanþágu leiði að tekjurnar myndi ekki stofn til tryggingagjalds og falli því ekki undir 1. mgr. 6. gr. laga um tryggingagjald. Tekjurnar teljist því hvorki til launa eða annarra þóknana samkvæmt lögum um tryggingagjald sem skylt sé að taka mið af við útreikning af meðaltali heildarlauna né teljist þær til annarra tilvika sem skylt sé að taka mið af við útreikning á meðaltali heildarlauna, sbr. 4. mgr. 23. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof. Þar sem ekki sé hægt að telja tekjurnar til launa á innlendum vinnumarkaði samkvæmt 4. mgr. 23. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof telji Fæðingarorlofssjóður að þær komi ekki til útreiknings á meðaltali heildarlauna samkvæmt 1. mgr. 23. gr. laganna. Þá sé enga heimild að finna í lögum um fæðingar- og foreldraorlof fyrir Fæðingarorlofssjóð til að taka tillit til þeirra tekna sem kærandi aflaði á viðmiðunartímbilinu við útreikning á meðaltali heildarlauna hans.

Í 5. mgr. 23. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof sé kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun afli um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldskrá skattyfirvalda. Þar segi jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna viðmiðunartímabila samkvæmt 1.-3. mgr. Hafi það verið gert við meðferð málsins.

Í athugasemdum við 23. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof segi um 5. mgr. 23. gr. að einungis skuli greitt úr Fæðingarorlofssjóði á grundvelli skattframtala, staðgreiðsluskrár og tryggingagjaldskrár skattyfirvalda, enda sé talið mikilvægt að einungis þær tekjur foreldris sem gefnar hafi verið upp til skattyfirvalda og tryggingagjald verði greitt af komi til útreikninga á greiðslum foreldris úr Fæðingarorlofssjóði, sbr. einnig tekjur foreldris samkvæmt 2. og 3. málsl. 4. mgr.

Fæðingardagur barns kæranda hafi verið þann X og skuli því mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hans þá mánuði sem kærandi hafi verið á innlendum vinnumarkaði tímabilið ágúst 2019 til júlí 2020, sbr. 1. mgr. 23. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof.

Samkvæmt upplýsingum frá skattyfirvöldum hafi kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram komi á staðgreiðsluskrá skattyfirvalda um tekjur hans á fyrrgreindu viðmiðunartímabili og telji Fæðingarorlofssjóður að þar með liggi fyrir staðfesting á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda. Á tímabilinu hafi engar tekjur verið skráðar á kæranda né greitt tryggingagjald og eigi hann því rétt á lágmarksgreiðslu í samræmi við 2. og 3. mgr. 24. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof að fjárhæð 190.747 krónur miðað við 100% fæðingarorlof, sbr. greiðsluáætlun til hans, dags. 3. febrúar 2021.

Í tölvupósti til kæranda, dags. 3. mars 2021, hafi honum verið leiðbeint um að hafi verið greitt tryggingagjald af þeim tekjum sem hann hafi aflað í starfi sínu fyrir O gæti hann sent staðfestingu þess efnis og þá yrði ákvörðunin endurskoðuð.

Með vísan til alls framangreinds telji Vinnumálstofnun – Fæðingarorlofssjóður að greiðsluáætlun, dags. 3. febrúar 2021, beri með sér réttan útreikning á greiðslum til kæranda.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi, dags. 3. febrúar 2021, um að mánaðarleg greiðsla til kæranda yrði 190.747 krónur á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort líta eigi til tekna sem kærandi aflaði við störf hjá O við útreikning á greiðslum til hans úr sjóðnum.

Í 1. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin taki til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs. Í athugasemdum við 1. gr. frumvarps til laganna kemur fram að lagt sé til að veita eingöngu foreldrum sem séu þátttakendur á innlendum vinnumarkaði rétt til fæðingar- og foreldraorlofs. Þetta sé ekki breyting frá lögum nr. 57/1987, með síðari breytingum, en í 2. gr. þeirra laga sagði „Foreldrar, sem gegna launuðum störfum og eiga lögheimili á Íslandi, eiga rétt á fæðingarorlofi í allt að sex mánuði …“. Þá kemur fram að fallið hafi verið frá búsetuskilyrðum og gert nægilegt að viðkomandi starfi á íslenskum vinnumarkaði. Það hafi einkum verið gert með tilliti til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. ffl. öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Óumdeilt er að kærandi starfaði á innlendum vinnumarkaði sex mánuðum fyrir fæðingardag barns, meðal annars hjá fyrirtækinu B, og uppfyllir því skilyrði laganna um að eiga rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Í 1. mgr. 23. gr. ffl. segir að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til foreldris í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna. Miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns eða þann dag sem barn komi inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Auk þess segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 22. gr., án tillits til þess hvort laun samkvæmt því ákvæði eða reiknað endurgjald samkvæmt 2. mgr. hafi komið til. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Barn kæranda fæddist þann X. Samkvæmt framangreindum lagaákvæðum skal því mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hans tímabilið ágúst 2019 til júlí 2020. Óumdeilt er að á því tímabili starfaði kærandi hjá O og starfaði því ekki á innlendum vinnumarkaði á viðmiðunartímabilinu.  

Í 2. mgr. 24. gr. ffl. segir að þegar starfsmaður uppfylli skilyrði 1. mgr. 21. gr. um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, en hafi ekki starfað á innlendum vinnumarkaði á viðmiðunartímabili samkvæmt 1.-3. mgr. 23. gr. skuli hann öðlast rétt til lágmarksgreiðslna samkvæmt 3. mgr. laganna í samræmi við starfshlutfall hans. Greiðsla til foreldris í 50–100% starfi í hverjum mánuði skal aldrei vera lægri en sem nemur 190.747 krónum á mánuði, sbr. 3. mgr. 24. gr. ffl.

Þar sem kærandi var ekki á innlendum vinnumarkaði á viðmiðunartímabilinu verður að líta til framangreindrar 2. mgr. 24. gr., sbr. 3. mgr. 24. gr. ffl., og fallast á að kærandi hafi eingöngu öðlast rétt til lágmarksgreiðslna sem nemur 190.747 krónum á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof, líkt og gert er í hinni kærðu ákvörðun. Hvorki í lögum nr. 144/2020 né reglugerð nr. 1218/2008 er að finna heimild til að taka mið af tekjum kæranda á erlendum vinnumarkaði eins og kærandi óskar eftir. Þá benda lögskýringargögn við 1. mgr. 23. gr. laga nr. 144/2020, svo sem rakið er að framan af hálfu Fæðingarorlofssjóðs, eindregið til að eingöngu skuli miða við tekjur sem aflað er á innlendum vinnumarkaði á áðurnefndu viðmiðunartímabili, sbr. einnig skýrt orðalag 2. málsliðar 1. mgr. 23. gr. laganna. Tekjur sem undanþegnar eru skattskyldu mynda ekki stofn til tryggingagjalds og falla því ekki undir lög um tryggingagjald. Þar sem tryggingagjald hefur ekki verið greitt af tekjum kæranda hjá O uppfyllir hann ekki það skilyrði laganna. Að mati úrskurðarnefndar er því ljóst að útreikningur Fæðingarorlofssjóðs í greiðsluáætlun, dags. 3. febrúar 2021, er í samræmi við ákvæði laga nr. 144/2020. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

Að því virtu og með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

 

 

 

 Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 3. febrúar 2021, um mánaðarlegar greiðslur til A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta