Norrænir dómsmálaráðherrar funda á Íslandi
Dómsmálaráðherrar Norðurlandanna sitja nú reglulegan fund sem fram fer á Íslandi og stýrir honum Sigmundur Davíð Gunnlaugsson dómsmálaráðherra. Á fundinum er meðal annars rætt um ýmsar hliðar dóms- og réttarvörslukerfisins, unga afbrotamenn og samspil refsinga og félagslegrar aðstoðar.
Í upphafi fundar gerðu ráðherrarnir grein fyrir helstu verkefnum sem unnið hefur verið að í löndunum á sviði dómsmála. Í ávarpi sínu greindi Sigmundur Davíð frá þróun mála eftir hrun, frá stofnun embætti sérstaks saksóknara, frá skipulagsbreytingum á umdæmum lögreglustjóra sem nú er unnið að, frá undirbúningi við gerð réttarvörsluáætlunar og frá byggingu nýs fangelsis.
Þá ræddi Sigmundur Davíð um framtíðarskipan dómskerfisins á Íslandi sem er frábrugðið kerfinu á öðrum Norðurlöndum þar sem dómstigin á Íslandi eru aðeins tvö. Sagði hann hafa verið rætt um að koma á millidómstigi.