Ríkisstjórnin styrkir íslenskudeild Manitobaháskóla
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að styrkja íslenskudeild Manitóbaháskóla með því að efla tengsl hennar við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Komið verður á fót lektorsstöðu í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands sem forsætisráðuneytið fjármagnar að hluta.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, flutti ávarp af þessu tilefni í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur, í morgun. Í ávarpi sínu rifjaði forsætisráðherra upp ferð sína á slóðir Vestur-Íslendinga í ágúst 2018. Í þeirri heimsókn sagðist hún hafa skynjað sterkt þá ræktarsemi sem afkomendur Íslendinga í Kanada og Bandaríkjunum leggja við uppruna sinn og íslenska menningu.
Innan marka hefðbundinnar kennslu- og rannsóknaskyldu verður hlutverk viðkomandi lektors að kenna tvö bókmenntanámskeið á ári við íslenskudeildina í Winnipeg og sinna framhaldsnemum deildarinnar, hafa umsjón með sumarnámskeiði á Íslandi fyrir stúdenta íslenskudeildarinnar og skiptinemum íslenskudeildarinnar við HÍ. Þá mun viðkomandi einnig hafa umsjón með mögulegum rannsóknaverkefnum og útgáfustarfsemi í tengslum við bókmennta- og menningararf íslenskra innflytjenda og afkomenda þeirra í Norður Ameríku.
Lektorsstaðan er hluti af verkefninu: „Víðernið í íslensku tungumáli, bókmenntum og menningu“. Markmiðið með verkefninu er að Háskóli Íslands ræki skyldur sínar við bókmennta- og menningarstarf íslenskra innflytjenda og afkomendur þeirra í Vesturheimi í tilefni af 75 ára afmæli lýðveldisins.