Mál nr. 78/2023 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 78/2023
Miðvikudaginn 19. apríl 2023
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.
Með rafrænni kæru, móttekinni 6. febrúar 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 6. febrúar 2023 um að samþykkja umsókn barnsmóður hans um milligöngu um sérstakt framlag vegna tannréttinga sonar þeirra.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með rafrænni umsókn, móttekinni 2. febrúar 2023, sótti barnsmóðir kæranda um milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins um sérstakt framlag vegna tannréttinga sonar þeirra. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 6. febrúar 2023, var kæranda tilkynnt um milligöngu stofnunarinnar á sérstöku framlagi til barnsmóður kæranda með syni þeirra vegna tannréttinga sonar þeirra að fjárhæð 158.051 kr.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 6. febrúar 2023. Með bréfi, dags. 7. febrúar 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 6. mars 2023, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15 mars 2023. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru greinir kærandi frá því að hann hafi ekki tök á að greiða kröfu vegna tannréttinga á syni sínum þar sem hann sé með lágar tekjur og eigi ekki einu sinni fyrir mat og eldsneyti til að lifa út mánuðinn. Í þokkabót fái hann drenginn til sín aðra hvora helgi og oft komi hann þar inn á milli að ósk hans og/eða móður hans. Kærandi geti rétt svo náð að halda þaki yfir höfði sér en ekki meira en það.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar um að verða við beiðni barnsmóður kæranda um að hafa milligöngu um sérstakt framlag vegna tannréttinga sonar þeirra að fjárhæð 158.051 kr.
Kveðið sé á um það í 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar að hver sá sem fái úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hafi á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, geti snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skuli gilda þegar lagt sé fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga.
Samkvæmt 67. gr. barnalaga nr. 76/2003 sé Tryggingastofnun skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla, sem búsettur sé hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setji.
Allar sömu reglur og þær sem gildi um meðlag gildi einnig um sérstakt framlag og framlag vegna náms. Þetta sé allt í sama lagaákvæðinu í lögum um almannatryggingar, þ.e. 63. gr.
Einnig megi nefna 60. gr. barnalaga sem kveði á um sérstök útgjöld vegna barna. Þar segi að þegar barn eigi fasta búsetu (lögheimili) hjá öðru foreldra sinna geti foreldrar óskað eftir því að sýslumaður staðfesti samning þeirra um greiðslu framlags vegna sérstaktra útgjalda í lífi barns. Sérstök útgjöld geti meðal annars verið vegna skírnar, fermingar, tannréttinga og fleira.
Ef ágreiningur sé á milli foreldra um sérstakt framlag geti lögheimilisforeldrið farið fram á að sýslumaður úrskurði um skyldu umgengnisforeldris til greiðslu framlags vegna sérstakra útgjalda. Samkvæmt 3. mgr. 60. gr. barnalaga verði framlag aðeins úrskurðað ef krafa um það sé höfð uppi við sýslumann innan þriggja mánaða frá því að svara varð til útgjalda hjá öðru foreldrinu nema eðlileg ástæða hafi verið til að bíða með slíka kröfu.
Eins og fram komi í 61. gr. barnalaga ljúki framfærsluskyldu og skyldu til sérstakts framlags þegar barn hafi náð 18 ára aldri.
Tryggingastofnun hafi tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 6. febrúar 2023, að stofnunin hefði samþykkt að hafa milligöngu um greiðslu sérstaks framlags vegnar tannréttinga sonar hans að fjárhæð 158.051 kr. Tryggingastofnun hafi borist umsókn barnsmóður kæranda þann 2. febrúar 2023 um greiðslu sérstaks framlags vegna tannréttinga sonar þeirra. Einnig hafi Tryggingastofnun borist úrskurður frá Sýslumanninum á B, dags. 11. janúar 2023, þar sem fram komi að kærandi skuli greiða barnsmóður sinni sérstakt framlag vegna tannréttinga drengsins að fjárhæð 158.051 kr.
Hlutverk Tryggingastofnunar sé að hafa milligöngu um greiðslu meðlags og sérstaks framlags þegar ákvörðun hafi verið tekin um slíkt með lögmætum hætti. Ef foreldri leggi fram löggilda meðlagsákvörðun eða ákvörðun um sérstakt framlag beri Tryggingastofnun samkvæmt 63. gr. laga um almannatryggingar og 67. gr. barnalaga að hafa milligöngu um greiðslu meðlags og sérstaks framlags. Lög og reglur veiti Tryggingastofnun ekki heimild til að taka önnur gögn til greina við milligöngu um greiðslu meðlags og sérstaks framlags en þau sem talin séu upp í framangreindum ákvæðum.
Hjá Tryggingastofnun liggi fyrir löggild ákvörðun um greiðslu sérstaks framlags vegna tannréttinga á syni kæranda, þ.e. úrskurður Sýslumannsins á B, dags. 11. janúar 2023, sem kveði á um að kærandi skuli greiða barnsmóður sinni sérstakt framlag vegna tannréttinga sonar þeirra að fjárhæð 158.051 kr. Þá liggi fyrir umsókn barnsmóður kæranda um greiðslu sérstaks framlags, dags. 2. febrúar 2023.
Með vísan til framangreinds beri Tryggingastofnun skylda til að hafa milligöngu um meðlag og sérstakt framlag samkvæmt lögformlegri ákvörðun sé þess farið á leit við stofnunina. Tryggingastofnun hafi engar heimildir til að virða að vettugi lögbundna skyldu sína til að greiða meðlag og sérstakt framlag samkvæmt hinni lögformlegu ákvörðun. Tryggingastofnun hafi því borið að hafa milligöngu um greiðslu sérstaks framlags til barnsmóður kæranda að fjárhæð 158.051 kr.
Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi margsinnis í úrskurðum sínum staðfest hlutverk Tryggingastofnunar um milligöngu á greiðslu meðlags og meðal úrskurða nefndarinnar varðandi það megi nefna úrskurði í málum nr. 215/2019, 407/2019, 408/2019, 59/2020, 76/2021 og 134/2022.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 6. febrúar 2023 um að samþykkja umsókn barnsmóður kæranda um milligöngu um greiðslu sérstaks framlags vegna tannréttinga sonar hans.
Kveðið er á um greiðsluskyldu Tryggingastofnunar ríkisins í 67. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þar segir að Tryggingastofnun ríkisins sé skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla laganna, sem búsettur sé hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setji.
Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar getur hver sá sem fær úrskurð um meðlag með barni, sem hann hefur á framfæri sínu, snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags og annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Hið sama gildir þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga.
Samkvæmt framangreindu ber Tryggingastofnun ríkisins að hafa milligöngu um greiðslu sérstaks framlags, berist beiðni þar um á grundvelli lögformlegrar ákvörðunar. Fyrir liggur að barnsmóðir kæranda sótti um milligöngu Tryggingastofnunar um greiðslu sérstaks framlags með syni þeirra með rafrænni umsókn, móttekinni 2. febrúar 2023. Stofnunin samþykkti umsóknina á grundvelli úrskurðar Sýslumannsins á B, dags. 11. janúar 2023. Samkvæmt úrskurðinum ber kæranda að greiða barnsmóður sinni sérstakt framlag vegna tannréttinga sonar þeirra, að fjárhæð 158.051 kr.
Hlutverk Tryggingastofnunar í tengslum við greiðslur sérstaks framlags markast af ákvæðum viðeigandi laga. Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar er stofnuninni falið að hafa milligöngu um sérstakt framlag, sé þess farið á leit við stofnunina í þeim tilvikum þar sem lögformleg ákvörðun liggur fyrir.
Í kæru er vísað til þess að kærandi sé fjárhagslega illa staddur og fái son sinn til sín reglulega. Með vísan til þágildandi 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar er það mat úrskurðarnefndar að ekki sé heimilt að synja barnsmóður kæranda um milligöngu sérstaks framlags með vísan til framangreindra málsástæðna þar sem fyrir liggur löggild ákvörðun sem kveður á um greiðsluskyldu kæranda.
Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 6. febrúar 2023 um að hafa milligöngu um sérstakt framlag vegna tannréttinga sonar kæranda.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að hafa milligöngu um sérstakt framlag vegna tannréttinga sonar A, til barnsmóður hans, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
_______________________________________
Rakel Þorsteinsdóttir