Hoppa yfir valmynd
25. ágúst 2023 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 25. ágúst 2023

Heil og sæl

Upp er runninn föstudagur. Skólar hófust í vikunni með tilheyrandi umferðartöfum og flóði af sætum myndum á samfélagsmiðlum af litlum börnum með stórar skólatöskur á bakinu. Starfsfólk utanríkisþjónustunnnar er í óða önn að gíra sig upp fyrir annir vetrarins og við skulum skoða hvaða viðburði þessi vika fól í sér. 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra flaggaði úkraínska fánanum við utanríkisráðuneytið í vikunni. Tilefnið var þjóðhátíðardagur Úkraínu og notaði ráðherra tækifærið til að lýsa yfir stuðningi Íslands við Úkraínu og óskum um að árásarstríði Rússlands í landinu ljúki sem fyrst. 

Utanríkisráðherrar Norðurlandanna hittust á fjarfundi í vikunni. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir stýrði fundinum enda fer Ísland með formennsku í norrænu ráðherranefndinni í ár. Á fundinum ræddu ráðherrarnir stuðning Norðurlandanna við Úkraínu, ástandið í Níger í kjölfar valdaráns herforingjastjórnar landsins í síðasta mánuði og málefni og réttindi borgara í Afganistan sem verulega hefur þrengt að frá því að talíbanar náðu þar völdum fyrir tveimur árum. Þá ræddu þeir einnig undirbúning ríkja sinna fyrir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna sem fer fram í lok september á ári hverju. 

Utanríkisráðherra hafði auðvitað í fleiru að snúast í vikunni, meðal annars átti hún fund, ásamt Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra, með framkvæmdastjóra hjá Alþjóðabankanum, viðkunnalegum náunga að nafni Jorge Familiar sem ferðast nú hring um Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin til að kynna fjárhagslega hlið breytinga á starfsemi bankans sem nú eru í bígerð. 

Af vettvangi sendiskrifstofanna var þetta helst: 

Í Tókýó heilsaði sendiherra Íslands þar í landi, Stefán Haukur Jóhannesson, upp á nemendur sem búa í Tama City og hélt kynningu um Ísland í Tama City International Exchange Center.

Sendiherra Íslands í Noregi, Högni Kristjánsson, ásamt viðskiptafulltrúa sendiráðsins, Evu Mjöll Júlíusdóttur, hitti matreiðslumeistarann Atla Má Yngvason, en hann kemur að rekstri fjögurra veitingahúsa í Noregi. 

Í Kanada tók sendiherra Íslands þar í landi, Hlynur Guðjónsson, þátt í athöfn á þjóðhátíðardag Úkraínu, 24. ágúst, þar sem að fáni landsins var dreginn að húni við ráðhúsið í Ottawa.

Í Danmörku voru fulltrúar sendiráðs Íslands þar í landi viðstaddir opnun norrænu samtímalistahátíðarinnar Chart Art Fair í Charlottenborg. Þrjú íslensk gallerí taka þátt í sýnginunni sem stendur yfir dagana 24. til 27. ágúst.

Í Finnlandi tók sendiherra Íslands Harald Aspelund þátt í göngu til stuðnings Úkraínu á þjóðhátíðardegi landsins, 24. ágúst.

Fulltrúar frá sendiráði Íslands í París voru viðstaddir athöfn þegar garður tileinkaður Kænugarði (Kænugarðsgarður) var vígður af borgarstjóra Parísar og borgarstjóra Kænugarðs.

Minnum að vanda á Heimsljós, fréttaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.

Svo ljúkum við föstudagspóstinum að þessu sinni á sumarsmellinum í ár og hvetjum ykkur til að nota helgina til að læra sporin og syngja með.

 

Með kveðju,

upplýsingadeild

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta