Innanríkisráðherra á málþingi um samgöngumál á Vestfjörðum
Áherslur Fjórðungssambands Vestfirðinga í samgöngumálum, leiðaval fyrir Vestfjarðaveg nr. 60, heilsárssamgöngur í Árneshrepp, samgöngur og ferðaþjónusta og rekstur fiskeldis voru umfjöllunarefni á málþingi Fjórðungssambandsins sem haldið var á Tálknafirði í dag. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra var meðal frummælenda svo og Hreinn Haraldsson vegamálastjóri.
Meðal þess sem kom fram í máli frummælenda úr hópi heimamanna var eftirfarandi: Beðið er um akfæra vegi, að fjórðungurinn standi jafnfætis öðrum landshlutum og að það eigi líka við um fjarskipti, að þéttbýlisstaðir á Vestfjörðum séu tengdir við Hringveginn, að láglendisvegur verði lagður um Barðastrandasýslu, heilsársvegur sé forsenda byggðar í Árneshreppi á Ströndum og að samráðshópur verði myndaður um lagningu hans.
Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði þennan fund vera fyrsta samráðsfundinn sem hún tæki þátt í sem innanríkisráðherra og hún væri komin til að sýna þann vilja ríkisstjórnarinnar að sinna samgöngumálefnum á Vestfjörðum. Hún sagði ríkisstjórnina skilja stöðu samgangna á sunnanverðum Vestfjörðum og telja hana ekki vera í lagi meðan verkefnum þar væri enn ólokið. Hún kvaðst fyrst og síðast vera komin til að hlusta á heimamenn og kvaðst sammála því að verkefnin bíða.
Ráðherra sagði það hafa verið eitt fyrsta verk sitt að heimila Vegagerðinni að setja Teigsskóg í umhverfismat og kvaðst telja hana bestu leiðina sem láglendisveg á þessu svæði, hún væri örugg og hagkvæm. Ráðherra sagðist sammála því að stofna til samráðshóps um heilsársveg í Árneshrepp.
Hugsanlegt útboð 2015
Hreinn Haraldsson vegamálastjóri fór yfir helstu möguleika um veglínur um Gufudalssveit. Hann sagði kröfur Vestfirðinga varðandi stöðu samgöngumála eðlilegar og hógværar, landshlutinn hefði setið eftir. Framundan væri hins vegar að koma á dagskrá nokkrum stórverkefnum á Vestfjörðum. Fram kom í máli vegamálastjóra að áætlaður kostnaður við leiðina um Teigsskóg væri ríflega 6 milljarðar króna. Sagðist hann vonast til að hægt verði að sækja um framkvæmdaleyfi til sveitarstjórnarinnar í lok árs 2014. Matsáætlunin yrði send Skipulagsstofun á næstu dögum til afgreiðslu. Yrði hún samþykkt t.d. í haust yrði verkefnið unnið næsta vetur og verkið hannað. Með bjartsýni mætti telja að bjóða megi verkið út árið 2015.
Þá upplýsti vegamálastjóri að endurbyggingu kaflans á Vestfjarðavegi um Kjálkafjörð og Mjóafjörð myndi hugsanlega ljúka á næsta ári en ekki 2015 eins og áætlun gerði ráð fyrir enda væri verktakinn öflugur.