Hoppa yfir valmynd
22. mars 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Tillögur Velferðarvaktarinnar um bættar aðstæður utangarðsfólks

Á fundi Velferðarvaktarinnar þann 20. mars sl. voru samþykktar tillögur um bættar aðstæður utangarðsfólks. Í tillögunum er meðal annars kallað eftir því að komið verði upp dagdvöl fyrir utangarðsfólk sem yrði opin allan daginn, en ekkert slíkt er fyrir hendi í dag. Í dagdvöl væri snyrtiaðstaða og sturtur, matur, fataúthlutun, hvíldaraðstaða, virkni og launuð verkefni, félagsráðgjöf og heilbrigðisþjónusta. Æskilegt væri að dagdvöl væri í nálægð við Gistiskýlið og Konukot.

Á sínum tíma var opið dagsetur fyrir utangarðsfólk á Grandanum á vegum Hjálpræðishersins en rekstri var hætt í lok ágúst 2015 þegar þau misstu húsnæðið að Eyjaslóð. Í dag er Kaffistofa Samhjálpar opin á daginn og í Vin á Hverfisgötu hafa einstaklingar sótt sem treysta sér til þess að fara að húsreglum. Næturskýlin eru lokuð milli kl.10-17. Á daginn er því í nær engin hús að venda og veldur það álagi á einstaklingana, heilbrigðiskerfið og borgarsamfélagið.

Velferðarvaktin leggur til að heilbrigðisráðherra, félags- og jafnréttismálaráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga setji af stað formlegan starfshóp þar sem fjallað verði um tillögur Velferðarvaktarinnar í þeim tilgangi að bæta aðstæður utangarðsfólks. Starfshópurinn verði í góðu samstarfi við frjáls félagasamtök sem hafa komið að málefnum utangarðsfólks.

Tillögur um bættar aðstæður utangarðsfólks

 Fjöldi einstaklinga sem eru utangarðs og/eða heimilislausir á Íslandi fer vaxandi samkvæmt upplýsingum Reykjavíkurborgar. Árið 2009 voru þeir 121, árið 2012 alls 179 en árið 2017 alls 349. Mikilvægt er að þessari þróun verði snúið við og aðstæður hópsins bættar. Velferðarvaktin telur að eftirfarandi aðgerðatillögur séu mikilvægastar við þær aðstæður sem nú eru uppi:

  1. Koma þarf upp dagdvöl fyrir utangarðsfólk  sem er opið allan daginn, en ekkert slíkt er fyrir hendi í dag. Í dagdvöl væri  snyrtiaðstaða og sturtur, matur, fataúthlutun, hvíldaraðstaða, virkni og launuð verkefni, félagsráðgjöf og heilbrigðisþjónusta. Æskilegt væri að dagdvöl væri ekki langt frá Gistiskýlinu og Konukoti.
  2. Bæta þarf aðgengi að meðferð við vímefnavanda og uppræta biðlista.
  3. Koma þarf upp fleiri áfangaheimilum þar sem stutt er við utangarðsfólk. Einnig þarf að tryggja aðgengi að öruggu húsnæði til lengri tíma og er mælt með að „housing first“ hugmyndafræðin verði leiðarljósið í þeirri vinnu.
  4. Útvega þar atvinnutækirfæri þ.e. lágþröskuldsvinnu (low treshold work) sem gæti hentað utangarðsfólki.
  5. Heilbrigðisráðherra, félags- og jafnréttismálaráðherra og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga setji af stað formlegan starfshóp þar sem fjallað verði um ofangreindar aðgerðir með því markmiði að aðstæður utangarðsfólks verði bættar. Starfshópurinn verði í góðu samstarfi við frjáls félagasamtök sem hafa komið að málefnum utangarðsfólks. 

Ofangreindar tillögur eru þess eðlis að bæði ríki og sveitarfélög þurfa að koma að þeim og vinna að lausnum sameiginlega. Ekkert sveitarfélag er stikkfrí í því sambandi. Einnig er rétt að frjáls félagasamtök komi að málum þar sem þau hafa sinnt þessum hópi og hafa þekkingu á aðstæðum hans.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta