Hoppa yfir valmynd
4. nóvember 2022 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 4. nóvember 2022

Heil og sæl.

Við heilsum ykkur héðan af Rauðarárstígnum og förum yfir það sem bar hæst í störfum utanríkisþjónustunnar síðustu tvær vikurnar.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra var stödd í París á dögunum. Þar stýrði hún fundi þróunarseturs Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD Development Centre) þar sem græn umskipti og jafnréttismál voru helstu umfjöllunarefnin. 

Þórdís Kolbrún fundaði einnig með Mathias Cormann, framkvæmdastjóra OECD. Mikilvægi fjölþjóðasamstarfs, framfylgni alþjóðlaga til viðbótar við áherslumál Íslands hjá stofnuninni voru helstu umfjöllunarefni fundarins.

Þá átti Þórdís Kolbrún fund með Laurence Boone, Evrópumálaráðherra Frakklands, þar sem Evrópusamstarf, alþjóðasamstarf, innrás Rússlands í Úkraínu, orkuöryggi og öryggi mikilvægra innviða komu helst til umræðu. Auk þess ræddu þau tvíhliða samskipti Íslands og Frakklands.

Af vettvangi ráðuneytisins sögðum við svo frá tveimur íslenskum hjálparstarfsmönnum sem nú taka þátt í vatnshreinsiverkefni í Pakistan á vegum almannavarna Norðurlanda.

Tvíhliða samráð Íslands og Írlands fór einnig fram í vikunni í utanríkisráðuneytinu. Vel var farið ofan í saumana á væntanlegri formennsku Íslands í Evrópuráðinu sem hefst formlega þann 9. nóvember nk. en þá tekur Ísland við formennskunni af Írlandi. Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins leiddi fundinn fyrir Íslands hönd. Fyrir írsku sendinefndinni fór Joseph Hackett ráðuneytisstjóri írska utanríkisráðuneytisins. 

Þá var formennskuáætlun Íslands í norrænu ráðherranefndinni fyrir árið 2023 kynnt á fundi Norðurlandaráðs í Helsinki í vikunni. 

En þá að sendiskrifstofunum.

Í Bratislava afhenti Kristín A. Árnadóttir Zuzana Čaputová, forseta Slóvakíu trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands í Slóvakíu með aðsetur í Vínarborg.

Í Berlín bauð sendiherra og Green by Iceland til móttöku í sendiherrabústað í lok Evrópsku jarðhitaráðstefnunnar 2022. Yfir 80 gestir frá Þýskalandi, Íslandi, Danmörku, Noregi, Póllandi, Króatíu, Ungverjalandi, Bretlandi, Belgíu, Frakklandi og Bandaríkjunum hittu íslensk fyrirtæki og fagaðila og fengu upplýsingar um sjálfbærar lausnir og verkþekkingu á sviði jarðhita.

Þá opnaði hún einnig viðburð þar sem bók rithöfundarins Yrsu Sigurðardóttur, Bráðin, var kynnt í Felleshus. 

Nýr kjörræðismaður Íslands í Ostend, Chantal Vanaudenaerde, tók við skipunarbréfi í sendiráðinu í Brussel á dögunum.

Af nógu er svo að taka hjá okkar fólki í Helsinki. 25 ára afmæli sendiráðs Íslands þar í borg er fagnað þessa dagana. Það var opnað formlega 25. ágúst 1997. Hannes Heimisson, sendiherra í Svíþjóð, heimsótti sendiráðið nýlega en hann var fyrsti diplómatinn til þess að starfa í sendiráðinu, 1997-1999, og varð síðar sendiherra 2005-2009 í Helsinki.

Þá fór þing Norðurlandaráðs einnig fram í Helsinki eins og fram hefur komið. Harald Aspelund sendiherra í Helsinki bauð til móttöku.

Í Danmörku hittu Helga Hauksdóttir sendiherra og Stefanía Bjarandóttir viðskipta- og menningarfulltrúi sendiráðsins í Kaupmannahöfn, kjörræðismann Íslands á Bornholm, Jørgen Hammer.

Í Noregi tók starfsfólk sendiráðsins m.a. á móti Guðmundi Inga Guðbrandssyni félags- og vinnumarkaðsráðherra.

Útgáfuhóf í tilefni útgáfu tveggja íslenskra glæpasagna í enskri þýðingu var haldið í sendiráði Íslands í London.


Í Genf hófst önnur samningalota EFTA í viðræðum við Taíland um fríverslunarsamning.

Árni Þór Sigurðsson sendiherra Íslands gagnvart Kirgistan, með aðsetur í  Moskvu, átti á dögunum fund með sendiherra Kirgistan í Moskvu, Gulnara-Klara Samat. Viðskiptafulltrúar sendiráðanna sátu einnig fundinn.

Þriðji þáttur af hlaðvarpi aðalræðisskrifstofu Íslands í New York, Icelandic voices - American accent, kom út á fimmtudaginn í síðustu viku.

Nikulás Hannigan aðalræðismaður Íslands í New York tók svo þátt í viðburði í Chicago þar sem starf norrænu aðalræðisskrifstofanna var kynnt.

Okkar fólk í Washington fylgdist með aðdraganda þingkosninga þar í landi.

Í Ottawa var hrekkjavakan haldin hátíðleg.

Í Lilongwe var stórum áfanga í orkumálum og þróunarsamvinnu Íslands þar í landi fagnað.

Óháður ráðgjafi á vegum utanríkisráðuneytisins, Erik Arling frá ráðgjafafyrirtækinu NIRAS, heimsótti jarðhitaverkefni íslenska jarðhitaráðgjafarfyrirtækisins GEG Power í Himachal Pradesh ríki á Indlandi nýlega. Verkefnið miðar að því að nýta jarðhitaorku til að knýja kælikerfi fyrir eplaframleiðslu í hérðaðinu. Tilgangur ferðarinnar var að gera úttekt á verkefninu en það hlaut styrk úr Heimsmarkmiðasjóði atvinnulífs um þróunarsamvinnu árið 2021. 

Þórir Ibsen, sendiherra Íslands í Kína, afhenti konungi Taílands trúnaðarbréf sitt á dögunum, en Taíland er í umdæmi sendiráðsins í Peking.

Þá afhenti Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra Íslands í Tókýó, Halimah Yacob , forseta Singapúr, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands þar í landi, með aðsetur í Tókýó.

Við minnum að endingu á Heimsljós.

Fleira var það ekki í bili. Í næstu viku verður ráðherra í Strassborg þar sem framundan er formennska Íslands í Evrópuráðinu.

Bestu kveðjur frá upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta