Innanríkisráðherra heimsækir sérstakan saksóknara
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra heimsótti nýverið embætti sérstaks saksóknara. Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, kynnti ásamt samstarfsmönnum sínum ráðherra og fylgdarliði starfsemi embættisins og starfsmenn.
Alls eru starfsmenn embættisins nú nálega 90 og embættinu hafa borist rúmlega 180 mál til meðferðar. Kærur berast úr ýmsum áttum, frá skilanefndum, einstaklingum, stjórnvöldum og mál hafa einnig verið tekin upp að frumkvæði embættisins. Kringum tíu mál eru langt komin hjá embættinu.
Ákveðið skipulag hefur verið tekið upp við undirbúning rannsókna mála og farið þar eftir handbók embættisins. Í fyrsta lagi eru málin tekin í nákvæma skoðun og sett upp rannsóknaráætlun ef taka á mál til meðferðar. Verkefnisstjóri er skipaður og aðgerðir skipulagðar. Þegar gögn liggja fyrir eru þau tekin til nákvæmrar greiningar en slík gögn geta verið skjöl, hljóðrit af símtölum og margháttuð tölvugögn. Jafnframt fara fram skýrslutökur og yfirheyrslur.