Hoppa yfir valmynd
11. október 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mannréttindi á Íslandi í kastljósi hjá SÞ í Genf

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra fór fyrir íslenskri sendinefnd sem svaraði fyrir stöðu mannréttindamála á Íslandi hjá Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í Genf mánudaginn 10. október. Sent var beint út frá fundinum á vef SÞ og hófst útsendingin kl. 7 að íslenskum tíma og lauk um kl. 9.30.

Íslenska sendinefndin á fundinum í Genf.
Íslenska sendinefndin á fundinum í Genf.

Ögmundur Jónasson sagði í ræðu sinni við upphaf fundar að óhætt væri að segja að staða mannréttindamála á Íslandi væri almennt góð. Að sjálfsögðu væri þó hægt að gera enn betur og því væri tilhlökkunarefni að eiga samtal á alþjóðlegum vettvangi og fá ábendingar um mögulegar úrbætur. Íslensk stjórnvöld legðu mikla áherslu á mannréttindi og nú væri unnið að nýrri og heildstæðri stefnu í málaflokknum í samræmi við alþjóðlega samninga um mannréttindi.

Ráðherra sagði mannréttindi þurfa sífelldrar endurskoðunar við. Réttindi sem áður hefðu þótt eðlilegt að væru einungis fyrir ákveðna hópa væru nú álítin algild, burtséð frá kynþætti, kyni, kynhneigð eða stétt, svo fáein væru nefnd. Ráðherra áréttaði þó að þrátt fyrir að mannréttindi væru viðurkennd í orði þýddi það ekki að þau væru alls staðar í heiðri höfð. Yfirferð eins og sú sem sem Sameinuðu þjóðirnar hafa nú tekið upp væri mikilvægt verkfæri til að hrinda mannréttindum í framkvæmd, sem aftur leiddi hægt en öruggleg til breytinga á stöðu mannréttinda á heimsvísu.

Ráðherra kom inn á mörg málefni í ræðu sinni og benti meðal annars á að um allan heim væru réttindi brotin á konum þrátt fyrir löggjöf sem væri ætlað að koma í veg fyrir það. Jafnrétti kynjanna væri forgangsmál hjá íslenskum stjórnvöldum. Vel hefði tekist til í ýmsum jafnréttismálum en þrátt fyrir að þátttaka kvenna í atvinnulífinu væri með því mesta sem gerist í heiminum og menntunarstig hátt væri launamunur kynjanna viðvarandi. Þá gerði hann kynbundið ofbeldi sérstaklega að umtalsefni og sagði með öllu óásættanlegt að slíkt væri liðið.

Sendinefndin svaraði fjölda spurninga frá fulltrúum aðildarlandanna um stöðu hinna ýmsu mannréttindamála hér á landi. Auk Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra, sátu fyrir svörum þau Halla Gunnarsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra, María Rún Bjarnadóttir, lögfræðingur í innanríkisráðuneytinu, Guðríður Þorsteinsdóttir, skrifstofustjóri í velferðarráðuneytinu, Elín R. Sigurðardóttir, sérfræðingur hjá utanríkisráðuneytinu og starfsmenn úr fastanefnd Íslands í Genf.

Skýrsla um stöðu mannréttindamála á Íslandi var send til Sameinuðu þjóðanna í júlí síðastliðnum en hún er hluti af úttekt SÞ á stöðu mannréttindamála í aðildarríkjunum. Vinnuhópur á vegum innanríkisráðuneytisins og fleiri ráðuneyta vann að gerð skýrslunnar í samræmi við drög að kaflaskipan sem kynnt var fyrir fjölmörgum hagsmunaaðilum og félagasamtökum sem starfa á sviði mannréttindamála. Mikil áhersla var lögð á samráð við frjáls félagasamtök, stofnanir og almenning og fengu um 60 aðilar drög að kaflaskipan skýrslunnar send. Þá var í júní haldinn opinn fundur um skýrsludrögin og komu þar fram ýmsar ábendingar frá ýmsum aðilum.  

Íslensk stjórnvöld þurfa nú að taka afstöðu til þeirra tillagna og ábendinga sem fram komu á fundinum. Vinna hefur nú þegar hafist við að skoða þær tillögur í samráði við fulltrúa annarra ráðuneyta. Sendinefndin mun skýra afstöðu þeirra mála sem þegar liggja fyrir á fundi hjá Mannréttindaráði í dag, þriðjudag. Lokaafstaða íslenskra stjórnvalda verður kynnt Mannréttindaráðinu í mars á næsta ári.  Að því loknu verða niðurstöður úttektarinnar kynntar á Íslandi. Í máli ráðherra í gær kom fram að við framkvæmd tillagnanna á Íslandi muni aðkoma frjálsra félagasamtaka og annarra hagsmunaaðila skipta mikla máli.

Úttekt SÞ á stöðu mannréttindamála hófst 2008 með nýju eftirlitskerfi á vegum SÞ og hafa  aðildarríkin nú í fyrsta sinn að skoðað stöðuna hvert hjá öðru með beinum hætti. Markmiðið er að bæta stöðu mannréttindamála í heiminum og að hvetja ríki til að uppfylla skuldbindingar á sviði mannréttindamála. Skýrsluna má sjá hér að neðan eins og hún var send SÞ á ensku.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta