Hoppa yfir valmynd
9. júní 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 668/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 668/2020

Miðvikudaginn 9. júní 2021

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 17. desember 2020, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 16. september 2020 um bætur úr sjúklingatryggingu.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 21. febrúar 2018, móttekinni 23. febrúar 2018, sótti kærandi um bætur úr sjúklingatryggingu vegna afleiðinga meðferðar á C og Landspítala í kjölfar slyss sem kærandi varð fyrir X. Sjúkratryggingar Íslands töldu að um sjúklingatryggingaratvik hefði verið að ræða og samþykktu bótaskyldu með ákvörðun 16. september 2020 en töldu að skilyrði 2. mgr. 5. gr. laga nr. 111/200 um sjúklingatryggingu um lágmarksbótafjárhæð væru ekki uppfyllt. Því kæmi ekki til greiðslu bóta.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 15. desember 2020. Með bréfi, dags. 22. desember 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 5. janúar 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 16. mars 2021, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send lögmanni kæranda til kynningar. Engar athugasemdir bárust.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi kærir ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 16. september 2020 og krefst þess að metin verði til miska og örorku þau varanlegu einkenni sem hún búi við vegna sjúklingatryggingaratburðarins X og ófullnægjandi læknismeðferðar, bæði á C og Landspítalanum næstu mánuði á eftir. Kærandi byggir á því að D læknir hafi gert mistök í aðgerð X sem hafi valdið kæranda varanlegu tjóni.

Í kæru segir að kærandi hafi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu með tilkynningu sem send hafi verið Sjúkratryggingum Íslands 21. febrúar 2018. Með bréfi, dags. 16. september 2020, hafi Sjúkratryggingar Íslands fallist á að kærandi ætti bótarétt úr sjúklingatryggingu samkvæmt framangreindum lögum, enda hefði læknismeðferð á Landspítalanum ekki verið eins og best væri á kosið. Tjónsdagsetning hafi verið ákveðin X.

Það hafi þó verið niðurstaða stofnunarinnar að krafa um lágmarkstjón væri ekki uppfyllt, enda hefði hin ófullnægjandi læknismeðferð ekki valdið kæranda neinum varanlegum afleiðingum. Þessi niðurstaða byggi að einhverju leyti á sérfræðiáliti E bæklunarlæknis, dags. 23. júlí 2020. Kærandi geti á engan hátt sætt sig við framangreinda niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands og telji afleiðingar sjúklingatryggingaratburðarins hafa verið ranglega metnar af stofnuninni.

Fram kemur að kærandi hafi orðið varð fyrir slysi X þegar hún hafi […]. Í slysinu hafi hún brotnað á vinstri fótlegg og verið tekin til aðgerðar á C nokkrum dögum síðar. Henni hafi verið vísað til bæklunarlæknis í F af læknum á C. Í læknabréfi frá F komi fram að kærandi hafi verið send áfram á Landspítalann þar sem læknirinn hafi talið eðlilegra að eftirlit færi fram þar. Þann X hafi hún komið í eftirlit á Landspítalann og þar hafi verið ákveðið að leyfa henni ástig að verkjamörkum. Í kjölfarið hafi kærandi komið nokkrum sinnum á Landspítala og lýst miklum verkjum. Mikið hafi vantað upp á fulla beygju á fætinum, þrátt fyrir að kærandi væri í sjúkraþjálfun. Það hafi ekki verið fyrr en í eftirliti X sem haft hafi verið samband við sérfræðing og málið borið undir hann. Sérfræðingurinn, D bæklunarlæknir, hafi ákveðið að framkvæma „forcible manipulation“ aðgerð á kæranda X. Af gögnum málsins sé ljóst að engin sneiðmynd hafi verið tekin áður en þessi aðgerð hafi farið fram, en kærandi telji að það hefði verið nauðsynlegt. Kærandi kveður þessa aðgerð ekki hafa skilað árangri og verkir og hreyfiskerðing hafi versnað, líkt og ráða megi af gögnum málsins frá Landspítala. Þar sem meðferðin á Landspítala hafi gengið mjög illa hafi kærandi verið send til G bæklunarlæknis í F. Af læknabréfum hans sé ljóst að hann telji aðgerð D í X ekki hafa heppnast sem skyldi því að í læknabréfi hans frá X komi fram að hann telji kæranda hafa fengið læsingu í hnéð við aðgerðina. Þar sem kærandi hafi átt í verulegum erfiðleikum með að rétta úr hnénu hafi læknirinn ekki talið tilefni til annars en að taka kæranda til aðgerðar. Hún hafi farið í þá aðgerð X og þá hafi komið í ljós beinbitar sem hafi verið áfastir liðbandinu. Kærandi sé enn að glíma við mjög slæm einkenni í fætinum og hún telji að meðferðin á C og Landspítala hafi átt stóran þátt í því hver staðan á fætinum sé.

Í bréfi Sjúkratrygginga Íslands frá 16. september 2020 komi fram sú niðurstaða að meðferð á Landspítala hafi verið ófullnægjandi. Áverki kæranda hafi verið það alvarlegur að telja yrði að sérfræðingur hefði þurft að skoða kæranda fyrr en eftir komu á Landspítala X, sérstaklega þegar horft væri til þess hve hreyfiskerðing hafi verið mikil og verkjatakmarkanir miklar í fyrri heimsóknum hennar á Landspítala. Þá hafi engin sneiðmynd verið tekin áður en kærandi hafi verið tekin til aðgerðar í X. Því verði að telja að eftirmeðferð á Landspítala hafi verið ábótavant. Í þessu felist hinn eiginlegi sjúklingatryggingaratburður samkvæmt 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu og hafi tjónsdagsetning verið ákveðin X.

Í ákvörðuninni sé þannig tekið nánast fullum fetum undir það sem fram komi í kvörtun kæranda frá 21. febrúar 2018. Tjónsdagsetningin sem stofnunin ákveði sé fjórum mánuðum eftir upphaflega áverkann. Að mati kæranda sé með þessari ákvörðun á tjónsdagsetningu einnig tekið undir það sem kærandi hafi haldið fram í málinu, þ.e. að töf á því að hún fengi fullnægjandi meðferð hafi ein og sér valdið henni auknu tjóni. Í ljósi þessa hefði kærandi ætlað að stofnunin mæti tjón kæranda til varanlegs miska og varanlegrar örorku en það hafi stofnunin ekki gert. Með vísan í sérfræðiálit E hafi stofnunin talið að hin ófullnægjandi meðferð á Landspítala hafi ekki valdið kæranda neinu tjóni. Að mati kæranda sé það í mótsögn við það sem fyrr hafi verið rakið í bréfi Sjúkratrygginga Íslands. Í sérfræðiáliti E sé enda gengið út frá því að kærandi hafi fengið fullnægjandi meðferð á Landspítala.

Kærandi telji augljóst af gögnum málsins að í það minnsta hluta þeirra varanlegu einkenna sem hún glími við í dag sé að rekja til ófullnægjandi læknismeðferðar sem felist í eftirfarandi:

  1. Aðgerðin sem framkvæmd hafi verið á C á tjónsdegi hafi ekki verið fullnægjandi og eftirlit með kæranda eftir hana hafi ekki verið nægilegt.
  2. Læknismeðferð á Landspítala frá því að kæranda hafi verið vísað þangað í X og þangað til fengið hafi verið álit sérfræðings hafi verið ófullnægjandi, líkt og Sjúkratryggingar Íslands taki undir. Þar hafi liðið of margir mánuðir án þess að kærandi fengi fullnægjandi meðferð. Á þessu tímabili hafi henni verið ráðlagt að leggja álag á fótinn og stíga í hann, þegar hún hefði í raun átt að vera löngu búin að gangast undir aðra aðgerð.
  3. Aðgerð sem D hafi framkvæmt í X hafi verið ófullnægjandi. Ekki hafi verið rétt að henni staðið þar sem sneiðmynd hafi ekki verið fengin áður en aðgerðin fór fram. Þá hefði þessi aðgerð þurft að vera framkvæmd mun fyrr en gert hafi verið. Þá sé ljóst af gögnum frá G hjá F að aðgerðin hafi misheppnast og kærandi læst í hnénu eftir hana.

Kærandi telji ljóst að í það minnsta hluta af þeim varanlegu einkennum sem hún glími við í dag sé að rekja til ófullnægjandi læknismeðferðar. Þrátt fyrir að um alvarlegan áverka sé að ræða sé ekki hægt að fallast á það að hnéð hafi verið ónýtt strax eftir slysið líkt og E hafi haldið fram. Kærandi telji að hefði hún fengið fullnægjandi læknismeðferð væri tjón hennar minna en það sé í dag.

Þá telji kærandi stóran hluta varanlegra einkenna að rekja til þess að hún hafi ekki verið skoðuð og meðhöndluð af sérfræðingi á Landspítala fyrr en í X.

Kærandi telji það liggja í augum uppi að hún hafi hlotið varanlegan skaða í vinstra hné af því að fá ekki meðhöndlun sérfræðings á Landspítala fyrr en eftir X. Þá hafi verið liðnir margir mánuðir frá slysinu og upphaflegu aðgerðinni. Sjúkratryggingar Íslands taki undir þetta í ákvörðun sinni frá 16. september 2020, en þar komi fram að læknismeðferð hafi verið ófullnægjandi vegna þessa. Á því hálfa ári sem liðið hafi verið frá upphaflegu aðgerðinni, hafi kæranda verið ráðlagt að stíga í fótinn og beita álagi á hann sem kærandi telji gefa augaleið að hafi ekki verið ráðlegt í ljósi þess hvert ástandið á fætinum hafi verið. Þá hafi hún einnig verið í „aggressívri“ sjúkraþjálfunarmeðferð samkvæmt læknisráði, án þess að vera í raun í ástandi til þess. Það hafi svo ekki verið fyrr en í X, um sex mánuðum eftir upphaflegan áverka, sem D hafi framkvæmt „forseraða manipuleringu“. Kærandi byggi á því að á þeim tímapunkti hafi hún þegar orðið fyrir miklu tjóni vegna þess að læknismeðferð hafi ekki verið fullnægjandi. Þá hafi þessi aðgerð augljóslega misheppnast, enda megi ráða það af fyrirliggjandi læknabréfi G, bæklunarlæknis í F.

Að öllu framangreindu virtu telji kærandi ljóst að sú ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 16. september 2020 þar sem því sé slegið föstu að sjúklingatryggingaratburðurinn, þ.e. um sex mánaða töf á fullnægjandi læknismeðferð, hafi ekki valdið neinum varanlegum afleiðingum, sé röng. Kærandi telji ljóst að stóran hluta þeirra einkenna sem hún búi við, þ.e. verki í hné, hreyfi- og réttiskerðingu, sé beinlínis að rekja til þeirrar tafar sem hafi orðið á fullnægjandi læknismeðferð. Því sé ljóst að varanlegur miski hennar og varanleg örorka sé töluverð vegna sjúklingatryggingaratburðarins.

Með vísan til framangreinds telji kærandi óforsvaranlegt að leggja til grundvallar niðurstöðu örorkumats Sjúkratrygginga Íslands frá 16. september 2020. Ljóst sé að kærandi búi við varanlegan miska og varanlega örorku sem beinlínis megi rekja til þess að hún hafi ekki fengið fullnægjandi læknismeðferð í kjölfar slyssins X.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að kærandi hafi sótt um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000 með umsókn sem hafi borist Sjúkratryggingum Íslands 23. febrúar 2018. Sótt hafi verið um bætur vegna afleiðinga meðferðar sem fram hafi farið á C og Landspítala í kjölfar [slyss] sem kærandi hafi orðið fyrir X. Aflað hafi verið gagna frá meðferðaraðilum og málið tekið fyrir á fundi fagteymis sem skipað sé læknum og lögfræðingum Sjúkratrygginga Íslands. Umsóknin hafi verið til skoðunar hjá Sjúkratryggingum Íslands og það sé niðurstaða stofnunarinnar að kærandi hafi ekki notið bestu mögulegu meðferðar á Landspítala í þeirri eftirfylgnimeðferð sem hún hafi verið í þar. Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 16. september 2020, hafi umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu verið samþykkt en skilyrði um lágmarksbótafjárhæð samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga um sjúklingatryggingu hafi ekki verið uppfyllt og því hafi kæranda ekki verið greiddar bætur. Með vísan til þeirra röksemda sem komi fram í framangreindri ákvörðun, dags. 16. september 2020, beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Tekið er fram að kærandi virðist meðal annars byggja á því í kæru sinni að mat sérfræðilæknis á afleiðingum sjúklingaatburðar sé rangt þar sem sérfræðilæknir telji að ekkert hafi farið úrskeiðis við læknismeðferð kæranda og leggi því aðrar forsendur til grundvallar en Sjúkratryggingar Íslands geri í ákvörðun sinni, dags. 16. september 2020. Sjúkratryggingar Íslands vilji benda á að sá sérfræðilæknir, sem hafi unnið sérfræðiálit í málinu, hafi verið með öll gögn málsins. Þó að sérfræðilæknir komi inn á það í áliti sínu að hann geri ekki athugasemdir við læknismeðferðina í málinu, skorti hann engin gögn í málinu og álitið byggi á sömu málsatvikum og ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands hafi byggt á. Sjúkratryggingar Íslands telji raunar að sú skoðun sérfræðilæknis að læknismeðferð sem kærandi hafi hlotið eftir slysið hafi verið fullnægjandi styðji við það mat Sjúkratrygginga Íslands að grunnsjúkdómur ([slysið]) hafi valdið einkennum kæranda frá hné en ekki sjúklingatryggingaratburðurinn frekar en að mat hans á afleiðingum sjúklingatryggingaratburðarins sé rangt.

Þá liggi fyrir matsgerð H bæklunarskurðlæknis, dags. 9. júlí 2019, sem ekki hafi legið fyrir við ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 16. september 2020. Þar séu öll einkenni kæranda rakin til [slyssins] og hvergi tekið fram að aðrir tjónsatburðir hafi átt þátt í einkennum hennar. Jafnframt komi fram í matsgerðinni að við mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku sé miðað við að gera þurfi gerviliðsaðgerð á vinstra hné. Í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands sé gert ráð fyrir því að áverki kæranda vegna [slyssins] hafi verið það alvarlegur að hún hefði þurft að gangast undir gerviliðsaðgerð vegna áverkans og sjúklingatryggingaratburðurinn hafi ekki aukið á þessi einkenni kæranda.

Jafnframt vilji Sjúkratryggingar Íslands taka það fram að aðeins sé stuðst við sérfræðiálitið í hinni kærðu ákvörðun og byggi niðurstaða á sjálfstæðu mati Sjúkratrygginga Íslands á atvikum og afleiðingum málsins. Með vísan til þess, sem að framan sé rakið, þeirra röksemda sem fram komi í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 16. september 2020, og gagna málsins, beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.  

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar mat á afleiðingum sjúklingatryggingaratviks sem kærandi varð fyrir við meðferð á C og Landspítala í kjölfar slyss sem kærandi varð fyrir X. Kærandi telur að afleiðingar sjúklingatryggingaratviksins hafi verið ranglega metnar. Telur hún að stóran hluta þeirra einkenna sem hún búi við, þ.e. verki í hné, hreyfi- og réttiskerðingu, megi rekja til tafar á fullnægjandi læknismeðferð og að varanlegur miski hennar og varanleg örorka séu töluverð vegna sjúklingatryggingaratburðarins.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu fer um ákvörðun bótafjárhæðar samkvæmt lögunum eftir skaðabótalögum nr. 50/1993, sbr. þó 2. mgr. 10. gr. laga um sjúklingatryggingu. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga skal sá sem ber bótaábyrgð á líkamstjóni greiða skaðabætur fyrir atvinnutjón, sjúkrakostnað og annað fjártjón sem af því hlýst og enn fremur þjáningabætur.

Í greinargerð meðferðaraðila, I, yfirlæknis bæklunarskurðdeildar Landspítalans, dags. 17. apríl 2018, kemur fram:

„Af ofangreindu verður ekki annað séð en að eðlilega hafi verið staðið að málum. Og þótt einhver misbrestur hafi verið í samskiptum þess aðila (C) sem framkvæmdi aðgerð á A X er þess að geta að einn og sami deildarlæknir sér hana fyrir þá aðgerð sem og á eftir. Er sömuleiðis ekki annað að sjá en að hreyfigeta A hafi hægt og rólega farið batnandi og má því ætla að einhvern ávinning hafi hún haft af aðgerðinni. Telur undirritaður engin mistök hafa verið gerð og sé það í raun lágmarks krafa að ásakanir um slíkt séu studdar einhverjum rökum um hver þau mistök hafi verið. Liggur í grunninn alvarlegur áverki á vinstra hné og sem slíkur ekki ólíklegur til að valda varanlegum meinum en ekki annað að sjá en að eðlilega hafi verið staðið að meðhöndlun.“

Í greinargerð meðferðaraðila, J, bæklunarskurðlæknis á C, dags. 14. október 2018, segir:

„Tjónið felst í því áliti A að aðgerð hafi ekki verið nægilega vel framkvæmd en undirritaður hefur nú farið í gegnum sjúkraskrá sjúklings og röntgenmyndir og getur ekki séð að brotið hefði verið betur lagað, liðflöturinn var í vel ásættanlegri legu og beinmolar sem lýst er eru beinbitar við krossbandsfestu þar sem krossbandið var fest niður og ekki óeðlilegt að brotflaskar myndist þar að mati undirritaðs án þess að þeir eigi endilega að takmarka hreyfingu í liðnum þar sem þeir eru ekki nálægt liðflötum.

[…]

Þannig hefur undirritaður skoðað sjúkraskrá og farið í gegnum aðgerðarlýsingu og röntgenrannsóknir og getur ekki séð annað en að sú meðferð sem A hafi fengið hér á C hafi verið eðlileg og ásættanlegt. Hinsvegar er ljóst að brotið er alvarlegt, það gengur inn í hnéliðinn og sprengir upp liðflötinn og er jú vel þekkt að verulega er aukin tíðni svokallaðra seinni tíma slitbreytinga sem er fylgikvilli svona áverka.“

Í sérfræðiáliti D á afleiðingum sjúklingatryggingaratburðarins, dags. 23. júlí 2020, segir meðal annars:

„Ég hef farið í gegnum sjúkraskrárnar allar og komist að því að meðferð er í raun rétt og góð. Það er hins vegar grunnsjúkdómurinn og áverkinn sem er undirstaða fyrir öllum vandamálum í dag sem er hreyfiskerðing, verkir og rýrnun á vinstri ganglim. A er að mínu mati komin að gerviliðsaðgerðinni og orsakast það af grunnsjúkdóm, ekki af eftirmeðferð.

Þegar myndir eru skoðaðar sést að það náðist upp góð lega í brotum og ágætis festur fyrir skrúfur og þó svo síðar hafi sést beinbitar inni í hnénu og það að krossband hafi ekki festst almennilega niður verður þetta að teljast góð aðgerð í grunninn. Eftirmeðferð tel ég einnig góða og einnig það að reynt var að gera svokallaða manipulation í ágústmánuði en það er örþrifaráð sem gripið er til þegar í raun allt er að vinna, engu að tapa

[…]

Þá má telja samskiptaleysi ef til vill vera vandamál í þessu ferli, þ.e. léleg upplýsingagjöf og kannski að A hafi ekki hitt sérfræðinga þegar hún var í eftirlit, hins vegna get ég ekki gert athugasemdir við meðferðina sjálfa læknisfræðilega. Því tel ég stöðu A í dag eingöngu grundvallast af grunnáverkanum sem er slysið sjálft.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, hefur lagt mat á fyrirliggjandi gögn í málinu og telur þau fullnægjandi. Kærandi lenti í [slysi] X og brotnaði á efri enda sköflungs sem nær upp í liðflöt hnjáliðar vinstra megin. Þá var fremri krossbandafesta upplyft og brot gekk niður í efri hluta sköflungs. Gert var við brotið með aðgerð X þar sem það var sett saman með plötum og skrúfum og krossbandafesta saumuð. Samkvæmt því sem fram kemur í læknisfræðilegum gögnum málsins var kærandi með töluverða hreyfiskerðingu í hnénu X og var henni ráðlögð sjúkraþjálfun áfram til að liðka. Enn var töluverð hreyfiskerðing X, þrátt fyrir stífa sjúkraþjálfun eða um 90° sveigja að 20° sem vantaði á réttu. Þann X gerði C aðgerð í svæfingu til þess að losa um samgróning og lýsti hann því svo í aðgerðarlýsingu að hún hafi verið beygð að fullu og rétt úr hné að mestu. Þann X var því lýst að eftir framangreinda aðgerð hafi kærandi verið áfram í sjúkraþjálfun og náð 120° til 130° beygju en það hafi vantað 15° á fulla réttu. Lýst var miklum verkjum í sveigju og þurfti kærandi að ganga við hækju þar sem verkir hömluðu. Enn vantaði 10° til 15° á fulla réttu í hné X en kærandi náði að sveigja hné í 110°. Liðmýs greindust í framanverðu hnénu X sem talið var að hafi takmarkað réttuna og aðgerð var ráðgerð til að fjarlægja slíkt sem fór síðan fram X. Þann X var því lýst að eftir aðgerð hafi vantað 5° upp á fulla réttu og kærandi sveigði um 90° en hafði óþægindi og verki framanvert í hnénu við allar hreyfingar. Þá fór hún í aðgerð í X þar sem örvefshreinsun fór fram og festibúnaður var fjarlægður. Þann X vantaði 15° upp á fulla réttu og sveigja var 110°.

Ljóst er að kærandi hlaut mjög alvarlegan áverka í slysi á efri hluta sköflungs með brotum sem gengu inn í hnjálið sem og með losi á fremri krossbandsfestu. Sjúkratryggingar Íslands hafa komist að þeirri niðurstöðu að eftirmeðferð kæranda á Landspítala hafi verið ábótavant. Taldi stofnunin að áverki kæranda hafi verið það alvarlegur að sérfræðingur hefði átt að skoða hana fyrr en í kjölfarið á heimsókn kæranda X, sérstaklega þegar horft væri til þess hve hreyfiskerðing og verkjakvartanir væru miklar í fyrri heimsóknum hennar á Landspítala. Auk þess hafi sneiðmynd ekki verið tekin áður en kærandi hafi farið í aðgerð á Landspítala í X.

Við skoðun á gögnum málsins fær úrskurðarnefndin hvorki ráðið að kærandi hafi orðið fyrir varanlegu heilsutjóni vegna sjúklingatryggingaratburðarins né að einkenni hennar hafi versnað vegna hans. Það er mat úrskurðarnefndar velferðarmála að tjón kæranda megi rekja til hins alvarlega slyss sem hún varð fyrir X.

Með vísan til þess, sem rakið er hér að framan, er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um synjun greiðslu bóta samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja A um greiðslu bóta samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, er staðfest.

 

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta