Aðgerðaáætlun landbúnaðarstefnu sett í samráð
Katrín Jakobsdóttir, sem gegnir embætti matvælaráðherra nú um stundir, hefur sett aðgerðaáætlun landbúnaðarstefnu í samráðsgátt .
Áætlunin nær til fimm ára og eru þar settar fram aðgerðir sem miðast við tíu meginviðfangsefni:
- Fæðuöryggi
- Loftslagsmál
- Líffræðileg fjölbreytni
- Landnýting og varðveisla landbúnaðarlands
- Hringrásarhagkerfi
- Alþjóðleg markaðsmál
- Neytendur
- Nýsköpun og tækni
- Menntun, rannsóknir og þróun
- Fyrirkomulag stuðnings við landbúnað
Settar eru fram afmarkaðar og tímasettar aðgerðir sem taka mið af tímaramma áætlunarinnar. Meginviðfangsefnin tengjast innbyrðis og aðgerðir sem eru settar fram undir einu viðfangsefni geta haft áhrif á önnur.
Til grundvallar áætluninni liggur landbúnaðarstefna til 2040 sem samþykkt var á Alþingi í júní árið 2023. Stefnan inniheldur framtíðarsýn fyrir íslenskan landbúnað sem tekur til umhverfis, samfélags og samkeppnishæfni, meginmarkmið eru að efla og styðja íslenskan landbúnað og styrkja stoðir hans til framtíðar með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
Aðgerðaáætlunina má nálgast hér.