Mál nr. 1/2023 Úrskurður 5. janúar 2023
Mál nr. 1/2023 Eiginnafn: Hyrrokkin (kvk.)
Hinn 5. janúar 2023 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 1/2023 en erindið barst nefndinni 2. janúar.Til þess að heimilt sé að samþykkja nýtt eiginnafn þurfa öll skilyrði 5. gr. laga, nr. 45/1996, um mannanöfn að vera uppfyllt. Skilyrðin eru:
1. Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli.
2. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi.
3. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
4. Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.
Eiginnafnið Hyrrokkin (kvk.) kemur fyrir í fornu máli sem gýgjarheiti og getur því hafa talist unnið sér menningarhelgi samkvæmt 3. grein vinnulagsreglna mannanafnanefndar sem hún setti sér á fundi 22. mars 2022, enda telst nafnmyndin ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Umsækjandi vill samkvæmt umsókn hafa eignarfallsmynd nafnsins Hyrrokkins, en það samræmist ekki kvenkyni nafnsins og verður því aðeins fallist á það ef það fylgir beygingarmynstri kvenkynsorða og hafi eignarfallið Hyrrokkinar.