Hoppa yfir valmynd
9. september 2011 Heilbrigðisráðuneytið

Skipulag heilbrigðisþjónustu og ráðstöfun fjármuna

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hefur sett á fót ráðgjafahóp til að fjalla um skipulag heilbrigðiskerfisins og ráðstöfun fjármuna. Hópurinn mun skoða hvort þörf sé á grundvallarbreytingum og í hverju þær gætu falist þannig að unnt sé að uppfylla markmið um öryggi og jöfnuð á sama tíma og aðhaldskröfum fjárlaga er mætt.

Formaður ráðgjafahópsins er Anna Lilja Gunnarsdóttir, ráðuneytisstjóri velferðarráðuneytisins. Auk sérfræðinga ráðuneytisins eiga sæti í hópnum stjórnendur og sérfræðingar frá Landspítala og

Sjúkrahúsinu á Akureyri, heilbrigðisstofnunum, heilsugæslustöðvum og embætti landlæknis. Samið hefur verið við alþjóðlega ráðgjafafyrirtækið Boston Consulting Group um að veita hópnum leiðsögn og styðja við verkefnið. Ráðgjafarnir sem koma að verkefninu hér eru sænskir en Boston Consulting Group rekur starfsemi í 42 löndum víða um heim og hefur starfað í Svíþjóð frá árinu 1989. Litið verður meðal annars á gæði, afköst, kostnað og aðgengi að heilbrigðisþjónustu.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherraGuðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir nauðsynlegt að ráðast í nákvæma greiningu á útgjöldum til heilbrigðismála, hvernig verkefnum er forgangsraðað og fjármunum varið. Megináherslan á alltaf að vera á sjúklingana og þarfir þeirra umfram kerfisins. Hann bendir á að útgjöld til heilbrigðismála hafi dregist saman um 10–20% frá árinu 2008 til ársins 2011. Samdrátturinn hafi dreifst á allt heilbrigðiskerfið en lagst þyngra á þá hluta þess sem lúta beinni stjórn ráðuneytisins, þ.e. sjúkrahúsum, heilbrigðisstofnunum og heilsugæslu, en heilbrigðisþjónustu sem er utan þess ramma. Á sama tíma hafa útgjöld sjúkratrygginga til sérgreinalækna að mestu haldist óbreytt.

„Fyrir liggur að velferðarráðuneytið þarf að skerða útgjöld til heilbrigðismála um 1,5% á næsta ári. Þótt prósentutalan sé ekki há er ljóst að útfærslan verður erfið ofan á fyrri hagræðingu og mun reyna á stofnanir velferðarkerfisins. Til að vinna þetta sem best verðum við að skoða á gagnrýninn hátt hvort fjármunum sé ráðstafað á réttan hátt og verkefnum forgangsraðað. Við þurfum að átta okkur á því hverju þarf að breyta og skoða alla þætti heilbrigðiskerfisins, jafnt stofnanaþjónustu og þjónustu sem veitt er utan stofnana. Markmiðið er að vera áfram með heilbrigðisþjónustu í fremstu röð.“

Ráðgjafahópnum er ætlað að skila ráðherra annars vegar tillögum um aðgerðir sem unnt er að hrinda í framkvæmd á skömmum tíma og hins vegar tillögum um langtímaaðgerðir. Tillögurnar eiga að liggja fyrir 15. október næstkomandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta