Stuðnings - Kría hefur sig til flugs: Stefnt að mótframlagslánum í sumar
Til að bregðast við vanda lífvænlegra sprotafyrirtækja sem lentu í rekstrarvanda vegna COVID-19 heimsfaraldurs, munu stjórnvöld tímabundið bjóða mótframlag til fjárfestinga í sprotafyrirtækjum samkvæmt fyrir fram ákveðnum skilyrðum með tímabundnu stuðningsúrræði, Stuðnings-Kríu.
„Sprota- og nýsköpunarfyrirtæki hafa mikilvægu hlutverki að gegna í uppbyggingu atvinnulífs hér á landi. Stuðnings - Kría nýtist sprotafyrirtækjum í því ótrygga ástandi sem nú ríki og er upptaktur að þeirri auknu samvinnu stjórnvalda sem stefnt er að með Kríu – sprota - og nýsköpunarsjóði,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nýsköpunarráðherra.
Styðja við lífvænleg sprota- og nýsköpunarfyrirtæki
Meginforsenda mótframlagslána er að fjárfestir sé tilbúinn til að veita fyrirtækinu fjármögnun og gert er ráð fyrir að lánsfjárhæð, lánstími og önnur kjör mótframlagslánsins verði þau sömu og fjárfestirinn er tilbúinn að veita fyrirtækinu.
Lánveitingar og skilyrði þeirra styðja því, við lífvænleg sprota- og nýsköpunarfyrirtæki. Nýsköpunarsjóði atvinnulífisins (NSA) hefur verið falið að hafa umsjón með lánveitingunni samkvæmt samkomulagi við nýsköpunarráðherra, en ákvarðanir um veitingu mótframlagslána verða teknar af sérstakri nefnd sem ráðherra skipar. Nefndin metur hvort skilyrði fyrir lánunum séu uppfyllt.
Stuðnings - Kría getur úthlutað allt að 755 milljónum króna. Stjórnvöld leggja fram allt að 700 milljónir króna og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins allt að 70 milljónir króna, en af þeim fjárhæðum greiðast allt að 15 miljónir króna til NSA fyrir umsýslu og framkvæmd verkefnisins.
Mótframlagslán verða aðeins í boði á árinu 2020 og verða þau auglýst á næstu vikum. Stefnt er að útgreiðslu fyrstu lánanna í sumar.