Frumvarp til laga um leigubifreiðar – áform um lagasetningu til umsagnar
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur tekið ákvörðun um að í ráðuneytinu skuli hefja undirbúning að frumvarpi til nýrra laga um leigubifreiðar með hliðsjón af tillögum starfshóps. Ráðgert er að leggja frumvarpið fram á haustþingi Alþingis 2019 og eru áform um lagasetninguna nú til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Opið er fyrir umsagnir til og með 19. júlí nk.
Starfshópurinn, sem skipaður var á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins í október á síðasta ári til að endurskoða í heild regluverk um leigubifreiðaakstur á Íslandi, skilaði lokaskýrslu með tillögum sínum 11. apríl síðastliðinn. Starfshópurinn telur m.a. rétt að afnema fjöldatakmarkanir á útgefnum atvinnuleyfum til leigubifreiðaaksturs og leggur til að fallið verði frá lögbundinni stöðvarskyldu.
Tilefni endurskoðunarinnar var annars vegar frumkvæðisathugun Eftirlitsstofnunar EFTA á íslenskum leigubifreiðamarkaði og mögulegum hindrunum á aðgengi að honum. Hins vegar rökstutt álit ESA gagnvart Noregi þar sem gerðar eru alvarlegar athugasemdir við aðgangshindranir að norskum leigubifreiðamarkaði. Norsk löggjöf um leigubifreiðar er um margt lík þeirri íslensku.
Starfshópnum var falið að leggja fram tillögur til ráðuneytisins um hvort og þá hvaða breytingar væri nauðsynlegt að gera á íslensku regluverki um leigubifreiðaakstur með hliðsjón af áliti ESA gagnvart Noregi og frumkvæðisathugun ESA á Íslandi.
Meginmarkmið starfshópsins var að stuðla að góðu aðgengi að hagkvæmri, skilvirkri og öruggri leigubifreiðaþjónustu á Íslandi. Einnig að tryggja að regluverkið væri í fyllsta samræmi við skuldbindingar íslenska ríkisins að EES-rétti og að engar aðgangshindranir fælust í regluverkinu nema þær sem væru réttlætanlegar vegna almannahagsmuna. Niðurstöður starfshópsins kalla á talsverðar lagabreytingar. Haft verður víðtækt samráð við hagsmunaaðila.
- Frumvarp til laga um leigubifreiðar – áform um lagasetningu til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda
- Frétt um niðurstöður starfshópsins á vef ráðuneytisins 13. apríl 2018