Fundur norrænna vinnumálaráðherra
Norðurlandaþjóðirnar glíma við ört vaxandi atvinnuleysi ungs fólks vegna fjármálakreppunnar, en til lengri tíma litið er fyrirsjáanlegt að verulegur skortur verði á vinnuafli vegna breytinga á aldurssamsetningu þjóða.
Á árlegum fundi norrænna vinnumálaráðherra sem fram fer í Reykjavík á morgun, 11. nóvember, verður rætt um hvað Norðurlandaþjóðirnar geta gert til að berjast gegn vaxandi atvinnuleysi ungs fólks og jafnframt hvaða leiðir séu vænlegar til að fyrirbyggja alvarlegan skort á vinnuafli í framtíðínni.
Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, boðar til fundarins, en hann gegnir á þessu ári formennsku í Norrænu ráðherranefndinni um atvinnumál. Auk hans sitja fundinn ráðherrarnir Anni Sinnemäki, Finnlandi, Sven Otto Littorin, Svíþjóð, Johan Dahl, Færeyjum og Jan-Erik Mattsson, Álandseyjum. Fulltrúi Danmerkur á fundinum er Bo Smith, ráðuneytisstjóri, fulltrúi Noregs er Jan-Erik Støstad, ráðuneytisstjóri og Avva Mathiassen er fulltrúi Grænlands.
Fundur ráðherranna fer fram á Hótel Nordica í fyrramálið. Strax að honum loknum kl. 11:30 er boðað til fundar ráðherranna með fréttamönnum og verður hann einnig haldinn á Hótel Nordica.