Upplýsingar um kostnað á legudag á LSH
Meðalkostnaður við hvern legudag á skurðlækningasviði Landspítala – háskólasjúkrahúss var rúmlega áttatíu þúsund krónur í apríl. Þetta er meðal þess sem fram kemur í svari Sivjar Friðleifsdóttur, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, við fyrirspurn Jóhönnu Erlu Pálmadóttur, Sjálfstæðisflokki, sem spurði ráðherra m.a. um bið aldraðra á LSH eftir úrræðum utan spítalans. Svörin eru byggð á gögnum úr DRG-gagnagrunni Landspítala – háskólasjúkrahúss frá 26. apríl sl. Samkvæmt því biðu þá 97 aldraðir einstaklingar eftir hjúkrunarheimilisplássi á LSH og skiptust þeir þannig eftir sviðum: Á geðsviði biðu fimm, á lyflækningasviði I biðu 14, á lyflækningasviði II beið einn, á skurðlækningasviði biðu átta, á endurhæfingarsviði fjórir og öldrunarsviði 65.
Sjá nánar: http://www.althingi.is/altext/132/s/1299.html