Hoppa yfir valmynd
2. júní 2006 Heilbrigðisráðuneytið

Siv hvetur til að réttindi kvenna verði aukin

Ráðherrafundi Sameinuðu þjóðanna um alnæmi lauk 2. júní í New York, en alnæmi er eitt stærsta heilbrigðismálið á hnattræna vísu og er bein ógn við öryggi þjóða heims.

Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra sótti fundinn ásamt ráðuneytisstjóra, sóttvarnalækni, fastafulltrúa Íslands hjá SÞ og sendiráðunauti íslensku fastanefndarinnar.

Á fundinum urðu miklar umræður um áherslur í ályktunardrögum sem lágu fyrir fundinum. Aðfaranótt föstudagsmorguns 2. júní náðist samkomulag um ályktun fundarins. Áherslumunur þjóða byggist einkum á viðhorfum manna til getnaðarvarna og fóstureyðinga og ekki síður til viðhorfa til kvenna og barna og réttinda þeirra. Afstaða manna til þessara mála byggist m.a. á trúarbrögðum, menningararfi og afstöðu til mannréttinda.

Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, tók virkan þátt í ráðherrafundinum með ræðu á sjálfum þinginu og í sérstökum hringborðsumræðum, sem efnt var til. Í máli ráðherra kom fram að mikilvægt væri að auka réttindi og styrk kvenna hvað varðar m.a. kynheilbrigði og fjölskyldumál. Einnig kom fram að samstarf við samtök alnæmissjúklinga og líknarsamtaka, s.s. Rauða krossinn væri nauðsynlegur þáttur í baráttunni við alnæmi.

Ráðherra minnti á að Ísland hefði styrkt heimssjóðinn gegn alnæmi, berklum og malaríu (Global Fund) á undanförnum árum og átak Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) gegn alnæmi og skýrði jafnframt frá því að íslensk stjórnvöld hefðu nýlega ákveðið að styrkja Rauða krossinn í baráttunni gegn sjúkdómnum á alþjóðavettvangi.

Í árslok 2005 höfðu greinst á Íslandi samtals 184 tilfelli af HIV smiti frá upphafi faraldursins. Þar af höfðu 36 látist af völdum alnæmis. Í heiminum í dag eru um 40 milljónir manna sem lifa sýktir af HIV og alnæmi, en um 25 milljónir manna hafa fallið í baráttunni við sjúkdóminn frá því að hans var fyrst vart fyrir aðeins 25 árum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta