Hoppa yfir valmynd
13. mars 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 125/2018 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 13. mars 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 125/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18020017

 

Beiðni […] um endurupptöku

 

I.             Málsatvik

Þann 18. janúar 2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 24. nóvember 2017 um að synja […], fd. […], ríkisborgara Íraks (hér eftir kærandi), um dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli hjúskapar samkvæmt 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, með úrskurði nr. 26/2016.

Þann 7. febrúar 2018 barst kærunefnd beiðni frá kæranda um endurupptöku málsins, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Í erindi kæranda til kærunefndar útlendingamála kemur fram að kærandi og eiginmaður hennar leggi fram ný gögn varðandi hjúskap þeirra. Þau vonist nú til að gögnin séu fullnægjandi svo hún fái að koma til landsins. Með beiðni um endurupptöku málsins fylgdi íranskt hjúskaparvottorð, dags. 3. febrúar 2018, þar sem fram kemur að kærandi og […] hafi gengið í hjónaband samkvæmt írönskum hjúskaparsamningi sem gerður hafi verið þann 3. febrúar 2018. Þá lagði kærandi fram afrit af vegabréfi sínu, útgefnu af stjórnvöldum í Írak, með áritun til Írans og með gildistíma frá 27. janúar 2018 til 27. apríl sama árs. Jafnframt lagði kærandi fram afrit af vegabréfi eiginmanns síns […], útgefnu af Útlendingastofnun, með áritun til Írans og með gildistíma frá 30. janúar 2018 til 28. febrúar sama árs.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum kemur m.a. fram:

Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. á aðili rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef íþyngjandi ákvörðun um viðvarandi boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því ákvörðun var tekin. Ef atvik þau, sem talin voru réttlæta slíka ákvörðun, hafa breyst verulega er eðlilegt að aðili eigi rétt á því að málið sé tekið til meðferðar á ný og athugað hvort skilyrði séu fyrir því að fella ákvörðunina niður eða milda hana. Ákvæði þetta hefur náin tengsl við meðalhófsregluna í 12. gr. 

Í úrskurði nr. 26/2016 komst kærunefnd útlendingamála að þeirri niðurstöðu að 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga kæmi í veg fyrir að kæranda yrði veitt dvalarleyfi hér á landi. Vísaði nefndin í því sambandi til þess að kærandi og eiginmaður hennar hefðu ekki bæði verið viðstödd vígsluathöfn sem hjúskapur þeirra væri byggður á. Um væri að ræða svonefnda fulltrúagiftingu sem að mati nefndarinnar í ljósi lagagrundvallar málsins færi í bága við meginreglur íslensk hjúskaparréttar og allsherjarreglu.

Eins og að framan greinir hefur kærandi nú lagt fram gögn sem benda til þess að hún og eiginmaður hennar hafi hinn 3. febrúar 2018 bæði verið viðstödd vígsluathöfn í Íran þar sem hjúskaparsamningur þeirra hafi verið staðfestur. Hafa atvik málsins breyst verulega að þessu leyti frá því að kærunefnd kvað upp úrskurð í málinu þann 18. janúar 2018. Að mati kærunefndar eru upplýsingarnar þess eðlis, í ljósi lagagrundvallar málsins, að tilefni sé til að mál kæranda sé tekið upp á ný hjá kærunefnd.

Kærunefnd fellst því á að mál kæranda verði endurupptekið hjá nefndinni á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi umsókn um dvalarleyfi

Úrlausnarefni málsins er að skera úr um hvort staðfesta eigi ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar samkvæmt 70. gr. laga um útlendinga.

Í VIII. kafla laga um útlendinga er fjallað um dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar. Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. laganna er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi hyggist hann flytjast hingað til lands til að búa með maka sínum eða sambúðarmaka. Skilyrði þess er að makinn hafi rétt til fjölskyldusameiningar samkvæmt VIII. kafla laga um útlendinga og að hann sé annaðhvort í hjúskap eða sambúð, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 70. gr. laganna. Þá segir í sama ákvæði að sambúð skuli hafa varað lengur en eitt ár og hvor aðili um sig verði að hafa verið eldri en 18 ára þegar stofnað var til hjúskaparins eða sambúðarinnar og að hjúskapur eða sambúð þurfi að uppfylla skilyrði til skráningar samkvæmt lögheimilislögum. Heimilt sé að krefja aðila um að leggja fram gögn til sönnunar á hjúskap eða sambúð erlendis.

Í málinu liggur fyrir hjúskaparvottorð, dags. 3. febrúar 2018, en samkvæmt því vottorði gengu kærandi og […] í hjónaband samkvæmt írönskum hjúskaparsamningi. Sé framlagt hjúskaparvottorð kæranda lagt til grundvallar og talið fullnægjandi má telja ljóst að ekki hafi verið um að ræða svonefnda fulltrúagiftingu í skilningi 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga.

Eftir stendur að kanna hvort önnur ákvæði laga um útlendinga kunni að vera uppfyllt svo heimilt sé að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar. Í þeim efnum koma t.d. grunnskilyrði 55. gr. laga um útlendinga til skoðunar sem og önnur sértækari skilyrði 70. gr. sömu laga, t.a.m. 3.-5. mgr. greinarinnar, í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga um að maki kæranda hafi fengið dvalarleyfi hér á landi árið 2016 á grundvelli alþjóðlegrar verndar, sbr. 73. gr. laga um útlendinga.

Meginmarkmið stjórnsýslukæru er að stuðla að réttaröryggi aðila máls með skoðun máls hans á tveimur stjórnsýslustigum. Að mati kærunefndar er því rétt að mál kæranda verði tekið til nýrrar meðferðar hjá Útlendingastofnun þar sem afstaða verði tekin til gildis þeirra gagna sem kærandi hefur lagt fram hjá kærunefnd og skilyrða laga um útlendinga sem ekki komu til skoðunar þegar Útlendingastofnun tók ákvörðun í máli hennar. Kærandi getur þá eftir atvikum leitað endurskoðunar á ákvörðun Útlendingastofnunar hjá kærunefnd útlendingamála.

Í ljósi framangreinds er það mat kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina taka mál kæranda til meðferðar á ný.

 

 

Úrskurðarorð

 

Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans.

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

 

The appellant´s request for re-examination of the case is granted.

 

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate of Immigration is instructed to re-examine the appellant‘s case.

 

 

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                                                 Árni Helgason

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta