Hoppa yfir valmynd
5. mars 1997 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 8/1997

Á L I T

K Æ R U N E F N D A R  F J ÖL E I G N A R H Ú S A M Á L A

 

Mál nr. 8/1997

 

Hagnýting sameignar: Bílastæði.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar.

Með bréfi, dags. 23. janúar 1997, beindi A, til heimilis að X nr. 6, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B og C, til heimilis að sama stað, um merkingu bílastæða við húsið.

Erindið var lagt fram á fundi 29. s.m. Samþykkt var að gefa gagnaðilum kost á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum, í samræmi við 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Greinargerð C, hér eftir nefnd gagnaðili, dags. 20. janúar en móttekin 25. febrúar, var lögð fram á fundi kærunefndar 26. sama mánaðar, þar sem nefndin fjallaði um málið og tók það til úrlausnar. B hefur ekki skilað greinargerð.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni.

Um er að ræða fjölbýlishús sem reist var um 1967. Í húsinu eru sex eignarhlutar. Haustið 1996 merkti gagnaðili tiltekin bílastæði á lóð hússins án samþykkis álitsbeiðanda.

 

Krafa álitsbeiðanda er:

Að bílastæði skuli vera ómerkt.

 

Kröfu sinni til stuðnings vísar álitsbeiðandi í 33. gr. laga um fjöleignarhús. Álitsbeiðandi hafi verið spurð að því á göngum hússins hvort hún væri þessu samþykk en hafi neitað því.

Gagnaðili viðurkennir að hafa merkt bílastæði álóðinni fyrir sig og tvo aðra eigendur sem búi vinstra megin í stigaganginum. Engar athugasemdir hafi komið fram frá álitsbeiðanda né öðrum eigendum fyrr en hálfu ári síðar. Gagnaðili kveður rót vandans liggja í því einn til tveir óskráðir bílar séu vikum saman á bílaplaninu og taki upp stæði fyrir framan húsið. Gagnaðili kveðst hafa farið fram á að einhverjar reglur giltu á bílastæði hússins og merkt stæðin til að leggja áherslu á þá kröfu.

 

III. Forsendur.

Samkvæmt 1. mgr. 33. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, teljast bílastæði á lóð fjöleignarhúss sameiginleg ogóskipt, nema ákveðið sé í þinglýstum heimildum, að tiltekin bílastæði fylgi ákveðnum séreignarhlutum. Verður óskiptum bílastæðum ekki skipt nema allir eigendur samþykki og skulu þá gerðar nauðsynlegar breytingar á eignaskiptayfirlýsingu og þeim þinglýst, sbr. 2. mgr. sömu greinar, sbr. einnig 8. tl. A-liðar 41. gr.

Lóð við húsið nr. 6 við X er hluti af óskiptri heildarlóð fyrir húsin nr. 2-24 við X. Engin gögn styðja það að gagnaðila hafi verið heimilt að merkja umrædd bílastæði. Telst bílaplanið allt því sameign rétthafa lóðarinnar.

Kærunefnd telur ástæðu til að vekja athygli á því að óheimilt er að nota sameign, þ.á m. lóð, til annars en hún er ætluð. Bílastæði eru ætluð til þess að þjóna umferð til og frá húsinu. Sé sú fullyrðing gagnaðila rétt að bílastæði séu notuð til geymslu á óskráðum bifreiðum getur húsfélag brugðist við því með því að láta fjarlægja þær.

 

IV. Niðurstaða.

Það er álit kærunefndar að bílastæði við X nr. 6 skuli vera ómerkt. Gagnaðila ber að fjarlægja merkingar þær á bílastæðum sem hann setti upp.

 

 

Reykjavík, 5. mars 1997.

 

 

Valtýr Sigurðsson

Guðmundur G. Þórarinsson

Karl Axelsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta