Nr. 360/2023 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 20. júní 2023 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 360/2023
í stjórnsýslumáli nr. KNU23040075
Kæra [...]
og barns hennar
á ákvörðunum
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 21. apríl 2023 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Nígeríu (hér eftir kærandi), ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 31. mars 2023, um að synja kæranda og barni hennar, [...], fd. [...], ríkisborgara Nígeríu, um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Hinn 31. mars 2023 voru ákvarðanir Útlendingastofnunar sendar talsmanni kæranda með rafrænum hætti.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga. Í ákvæði 7. gr. kemur fram að ákvarðanir Útlendingastofnunar sé heimilt að kæra til kærunefndar útlendingamála innan 15 daga frá því að útlendingi var tilkynnt um ákvörðunina. Kærunefnd barst kæra á ákvörðuninni 21. apríl 2023 en ljóst er að kærufresturinn, sem var til 15. apríl 2023, var þá liðinn.
Í kæru frá talsmanni kæranda til kærunefndar kemur fram að umrætt mál hafi verið á borði starfsmanns sem látið hafi af störfum hjá lögmannsstofunni nýlega, þeim starfsmanni hafi láðst að senda kæruna áfram á yfirmann við starfslok. Atvikið hafi uppgötvast sama dag og kæran barst kærunefnd og hafi umræddar ákvarðanir verið sóttar sama dag líkt og fram komi á svokallaðri Signet kvittun. Til þess að koma í veg fyrir frekari tafir hafi greinargerð í málinu verið lögð fram samdægurs og því ekki óskað eftir fresti til að leggja fram frekari gögn eða rökstuðning. Kærandi telji afsakanlegt, m.t.t. 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að kæran hafi ekki borist fyrr með tilliti til framangreindra atvika sem séu síður en svo fordæmisgefandi. Þá beri að hafa í huga að kæran hafi einungis borist sex dögum eftir lok kærufrestsins. Almennt séu rúmar tvær vikur veittar til að leggja fram greinargerð með kæru. Framangreind mistök hafi verið leiðrétt við fyrsta tækifæri og greinargerð lögð fram samhliða kærunni. Þannig hafi verið gætt að málshraða málsins. Í öðru lagi telur kærandi að samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga mæli veigamiklar ástæður með því að kæran verði tekin til meðferðar. Um sé að ræða kæru vegna synjunar á umsókn um alþjóðlega vernd móður sem sé með ungt barn á sínu framfæri. Engin gagnaðili sé í málinu sem sé með andstæða hagsmuni. Hagsmunir kæranda og barns hennar séu aftur á móti ótvíræðir en kærandi hafi upphaflega lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi 24. janúar 2022. Leggja beri mat á hagsmuni barnsins á eigin forsendum þess, m.a. með hliðsjón af því að það sé ungt að árum. Börn teljist til sérstaklega viðkvæms hóps umsækjenda um alþjóðlega vernd og sé stjórnvöldum skylt að hafa það sem börnunum sé fyrir bestu í forgangi í þeim ákvörðunum sem teknar séu um málefni þeirra, sbr. 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 og 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Þá beri samkvæmt 1. mgr. 22. gr. sama samnings að tryggja að barn sem leitar eftir réttarstöðu sem flóttamaður fái viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningnum og öðrum alþjóðlegum löggerningum á sviði mannréttinda- eða mannúðarmála. Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga sé áréttað að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi og í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga sé tekið fram að við ákvarðanir háðar mati stjórnvalds skuli meðal annars huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska. Hagsmunum barnsins sé augljóslega best borgið með því að kæran verði tekin til meðferðar.
II. Niðurstaða
Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um réttaráhrif þess þegar kæra berst æðra stjórnvaldi að liðnum kærufresti. Þar segir í 1. mgr.:
„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá, nema:
1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða
2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.“
Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga er því að finna tvær undantekningarreglur frá þeirri meginreglu laganna að kærumáli skuli vísað frá æðra stjórnvaldi ef kæra berst að liðnum kærufresti. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum segir um ákvæðið að í fyrsta lagi sé gerð undantekning þegar afsakanlegt sé að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Hér geti t.a.m. fallið undir þau tilvik ef stjórnvald lætur hjá líða að veita leiðbeiningar um kæruheimild skv. 20. gr. laganna eða veitir rangar eða ófullnægjandi upplýsingar. Í öðru lagi megi taka mál til meðferðar ef veigamiklar ástæður mæli með því. Við mat á því hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar hefur í stjórnsýsluframkvæmd meðal annars verið litið til hagsmuna aðila máls svo og almannahagsmuna, t.a.m. hvort mál hafi fordæmisgildi.
Ákvörðun Útlendingastofnunar var sem fyrr segir send talsmanni kæranda með rafrænum hætti, í gegnum Signet transfer 31. mars 2023, sbr. 4. mgr. 44. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, og var því sannanlega aðgengileg talsmanni kæranda þann dag. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var, í samræmi við 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, gerð grein fyrir kæruheimild, kærufresti og hvert kærandi skyldi beina kæru. Ekki verður séð að þær upplýsingar sem kæranda voru veittar í ákvörðun Útlendingastofnunar varðandi kæru til kærunefndar útlendingamála hafi verið ófullnægjandi eða að leiðbeiningarskyldu hafi ekki verið gætt.
Í 7. gr. laga um útlendinga kemur fram að ákvarðanir Útlendingastofnunar sé heimilt að kæra til kærunefndar útlendingamála innan 15 daga frá því að útlendingi var tilkynnt um ákvörðunina. Kveðið er á um útreikning frests í 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga á eftirfarandi hátt: ,,Þar sem kveðið er á um frest í lögum telst sá dagur, sem fresturinn er talinn frá, ekki með í frestinum.“ Samkvæmt þessu var fyrsti dagur kærufrests í máli kæranda 1. apríl 2023 og var síðasti dagur 15 daga frestsins 15. apríl 2023. Var kærufrestur því liðinn er kæran barst kærunefnd útlendingamála 21. apríl 2023. Samkvæmt skipunarbréfi, dags. 27. febrúar 2023, var kæranda og barni hennar skipaður talsmaður í samræmi við 30. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt 2. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, er hlutverk talsmanns að koma fram fyrir hönd umsækjanda og veita honum liðsinni. Samkvæmt leiðbeiningum á vef Útlendingastofnunar hefst hlutverk talsmanns við skipun hans og lýkur við endanlega ákvörðun á stjórnsýslustigi. Ljóst er að skipaður talsmaður kæranda og barns hennar bar ábyrgð á því að kæra ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar innan lögbundins kærufrests og breyttist það ekki þó svo að hún hafi látið af störfum hjá þeirri lögmannsstofu sem hún starfaði hjá enda verður ekki annað séð af gögnum málsins en að hún persónulega hafi verið skipaður talsmaður en ekki í umboði lögmannsstofunnar. Að mati kærunefndar bera gögn málsins ekki með sér að afsakanlegt hafi verið að kæra hafi borist of seint. Að framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að ekki beri að taka kæruna til meðferðar á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.
Kærunefnd hefur farið yfir gögn málsins, þ.m.t. ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kæranda og barns hennar. Að mati nefndarinnar verður ekki ráðið af gögnum málsins að hagsmunir kæranda, barns hennar eða almannahagsmunir krefjist þess að málið verði tekið til meðferðar, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Þótt fallast megi á það með kæranda að ákvarðanir er lúta að alþjóðlegri vernd og mannúðarvernd séu í eðli sínu veigamiklar, og hagsmunir aðila slíkra mála miklir, þá er í 7. gr. laga um útlendinga mælt fyrir um kærufrest til kærunefndar vegna slíkra ákvarðana og verður ekki vikið frá honum nema veigamikil rök mæli með því. Að öðrum kosti væri kærufresturinn til lítils í ljósi eðlis málaflokksins.
Kærunefnd hefur í fyrri úrskurðum sínum lagt til grundvallar að aðstæður í heimaríki kæranda standi að jafnaði endursendingum þangað ekki í vegi. Í ákvörðunum sínum lagði Útlendingastofnun mat á einstaklingsbundnar aðstæður kæranda og barns hennar. Var í ákvörðunum Útlendingastofnunar sérstaklega litið til hagsmuna barns kæranda og verður ekki séð að ágallar hafi verið á vinnslu málsins hjá Útlendingastofnun.
Kærunefnd bendir kæranda á að telji hún aðstæður í máli sínu og barns síns gefa tilefni til getur hún lagt fram endurtekna umsókn hjá Útlendingastofnun samkvæmt 35. gr. a laga um útlendinga.
Með vísan til framangreinds er kærunni vísað frá.
Úrskurðarorð:
Kæru kæranda á ákvörðun Útlendingastofnunar er vísað frá.
The applicants appeal of the decision of the Directorate of Immigration is dismissed.
Jóna Aðalheiður Pálmadóttir
Þorbjörg I. Jónsdóttir Sindri M. Stephensen