Hoppa yfir valmynd
26. ágúst 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 231/2020

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 231/2020

Miðvikudaginn 26. ágúst 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

 

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 12. maí 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins frá 11. nóvember 2019 á umsókn kæranda um styrk/uppbót vegna kaupa á bifreið. 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með ákvörðun, dags. 11. nóvember 2019, var umsókn kæranda um uppbót vegna kaupa á bifreið samþykkt. Með bréfi kæranda, dags. 19. nóvember 2019, óskaði kærandi eftir styrk til bifreiðakaupa og lagði fram læknisvottorð, dags. 11. nóvember 2019. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 20. nóvember 2019, var kærandi upplýstur um að læknisvottorðið gæfi ekki tilefni til breytinga á gildandi hreyfihömlunarmati frá 1. maí 2011. Með tölvubréfi kæranda þann 20. nóvember 2019 fór kærandi fram á að fyrri ákvörðun yrði endurskoðuð. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 26. nóvember 2019, var kæranda veittur rökstuðningur vegna mats á hreyfihömlun. 

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 12. maí 2020. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. maí 2020, var kæranda tilkynnt að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hann að skilyrði, sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, gætu átt við í málinu. Með tölvubréfi 25. maí 2020 bárust skýringar frá kæranda. Með bréfi til Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 10. júlí 2020, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir upplýsingum og gögnum er vörðuðu samskipti kæranda og stofnunarinnar í tengslum við hina kærðu ákvörðun. Þann 20. júlí 2020 barst svar frá Tryggingastofnun ríkisins og var það sent kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. júlí 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram sú krafa að endurskoðað verði hreyfihömlunarmat Tryggingastofnunar vegna bifreiðakaupa. Saga kæranda sé löng og svolítið ruglingsleg og þætti honum vænt um að fá að flytja rökstuðning munnlega, sé það möguleiki.

Í athugasemdum frá 25. maí 2020 kemur fram að kærandi hafi sent Tryggingstofnun ríkisins bréf þann 19. nóvember 2019 þar sem fram hafi komið fram að hann væri ósáttur við málsmeðferð og afgreiðslu málsins hjá stofnuninni. Nánar tiltekið hafi kærandi verið ósáttur við að fá ekki styrk til bifreiðakaupa. Þetta bréf hafi verið sent til að mótmæla niðurstöðu stofnunarinnar ásamt rökstuðningi. Til að fylgjast með stöðu málsins hafi kærandi haft samband við Tryggingastofnun og hafi honum verið tjáð að kæran væri komin til lögfræðinga. Kærandi hafi ekki vitað betur en að kæran færi til réttra aðila, þ.e. þeirra aðila sem fá kærur sem berast stofnuninni. Kærandi hafi því talið að málið væri komið í farveg og hafi því beðið eftir niðurstöðu málsins. Fram hafi komið í bréfi Tryggingastofnunar að vinnslutími geti verið hátt í þrír mánuðir og hafi hann því beðið eftir niðurstöðu.

Þegar ekkert hafi frést af málinu hafi kærandi haft samband við Tryggingastofnun til að kanna stöðu málsins. Þá hafi komið í ljós að bréfið hafi eingöngu farið til lögfræðinga Tryggingastofnunar en ekki verið sent til úrskurðarnefndar velferðarmála. Kærandi hafi verið þess fullviss að með ofangreindu bréfi hafi hann komið kæru til skila á réttan stað, enda hafi hann verið upplýstur um að málið væri í ferli þegar hann hafi kannað stöðuna. Þegar kærandi hafi fengið þær upplýsingar að bréfið hafi eingöngu farið til lögfræðinga Tryggingastofnunar hafi kærufrestur verið liðinn. Eftir viðtal við lögfræðing hjá Tryggingastofnun hafi verið ljóst að um misskilning hafi verið að ræða og hafi lögfræðingurinn bent kæranda á að senda inn kæru þrátt fyrir þennan ágalla, enda hafi stofnunin mátt standa sig betur í að upplýsa hann um réttar leiðir í þessu máli. Kærandi hafi verið upplýstur um að það mætti hafa samband við lögfræðinginn til að fá staðfestingu á framangreindu.

III.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 11. nóvember 2019, um að synja kæranda um styrk til kaupa á bifreið.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.

Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Samkvæmt 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefst kærufrestur ekki fyrr en rökstuðningur hefur verið tilkynntur aðila máls, hafi hann farið fram á rökstuðning samkvæmt 21. gr. laganna.

Samkvæmt gögnum málsins liðu tæplega sex mánuðir frá því að kæranda var tilkynnt um rökstuðning með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 26. nóvember 2019, þar til kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 12. maí 2020. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar var því liðinn þegar kæran barst nefndinni.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort atvik séu með þeim hætti að afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. maí 2020, var kæranda veittur kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hann að skilyrði, sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, gætu átt við í málinu.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að kærandi hafi talið að með því að senda erindi til Tryggingastofnunar, dags. 19. nóvember 2019, hafi hann verið að kæra ákvörðun stofnunarinnar til úrskurðarnefndar velferðarmála og að í símtölum við stofnunina hafi hann verið upplýstur um að málið væri komið til lögfræðinga. Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 11. nóvember 2019, synjun stofnunarinnar um breytingu á hreyfihömlunarmati frá 20. nóvember 2019 og rökstuðningi stofnunarinnar frá 26. nóvember 2019 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Þá er óumdeilt að bréf kæranda, dags. 19. nóvember 2019, var sent til Tryggingastofnunar. Úrskurðarnefndin telur að ekkert í bréfinu hafi gefið Tryggingastofnun tilefni til að líta svo á að um kæru til úrskurðarnefndarinnar væri að ræða, enda var bréfið eingöngu stílað á Tryggingastofnun. Þá liggja engin gögn fyrir um að Tryggingastofnun hafi upplýst kæranda um að málið væri komið til úrskurðarnefndarinnar. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndarinnar að ekki verði talið afsakanlegt að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Þá verður ekki heldur séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Ekkert virðist vera því til fyrirstöðu að kærandi geti á ný sótt um styrk til bifreiðakaupa.

Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta