Hoppa yfir valmynd
19. janúar 2024 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Jákvæð þróun lánshæfismats á síðasta ári

Lánshæfiseinkunn ríkissjóðs þróaðist með jákvæðum hætti árið 2023 eftir að hafa verið óbreytt síðan í nóvember 2019. Þrjú fyrirtæki birta mat á lánshæfi ríkissjóðs; S&P, Moody‘s og Fitch.

Eftir að hafa staðið óbreytt í nær fjögur ár, í gegnum tímabil heimsfaraldurs, þróaðist lánshæfiseinkunn ríkissjóðs með jákvæðum hætti á síðasta ári. Mesta breytingin var þegar S&P setti lánshæfiseinkunn Íslands á jákvæðar horfur í maí og hækkaði síðan lánshæfiseinkunnina í A+ nóvember. Lánshæfiseinkunn Íslands hefur ekki verið jafnhá hjá nokkru fyrirtækjanna frá árinu 2008. Í áliti sínu tilgreindi S&P að hækkunin endurspeglaði áframhaldandi sterkan hagvöxt þrátt fyrir að hagkerfið hafi þegar á fyrsta ársfjórðungi 2022 náð fyrra stigi sínu frá því fyrir heimsfaraldur.

Moody´s færði lánshæfiseinkunn ríkissjóðs einnig á jákvæðar horfur í júlí. Einkunn Íslands hjá Moody‘s er nú A2 sem er sambærilegt A hjá hinum fyrirtækjunum. Hjá Fitch er einkunn Íslands A og horfur stöðugar. Í heimsfaraldrinum var Fitch eina fyrirtækið sem breytti horfum um einkunnina í neikvæðar en breytti þeim svo aftur í stöðugar árið 2022.



Það skiptir miklu bæði fyrir ríkissjóð og aðra innlenda útgefendur skuldabréfa á alþjóðamörkuðum að lánshæfiseinkunn ríkissjóðs sé sem hæst, enda leiðir það að óbreyttu til betri lánskjara og hefur jákvæð áhrif á áhuga fjárfesta á skuldabréfum ríkissjóðs.

Lánshæfiseinkunnir byggja í grunninn á tölfræðilegu mati fyrirtækjanna á á því hversu öruggt það er að íslenska ríkið muni geta staðið við fjárhagslegar skuldbindingar sínar að fullu og á réttum tíma. Matið er byggt á m.a. tekjustigi hagkerfisins, stöðu ríkisfjármálanna, ytra jafnvægi þjóðarbúsins og styrkleika stofnanaumgjörðar samfélagsins. Fyrirtækin gefa sér þó visst svigrúm til þess að víkja frá niðurstöðu tölfræðilíkananna.

Lánshæfismat fyrirtækjanna þriggja grundvallast ekki síst á stórbættum horfum um afkomu og skuldir ríkissjóðs, hröðum efnahagsbata og góðri stöðu ferðaþjónustu. Hraðari afkomubati ríkisfjármála sem styður við peningastefnu í að lækka verðbólgu, lækkun hreinna opinberra skulda, lítil erlend skuldsetning Íslands og sterkur gjaldeyrisforði sem veitir frekari viðnámsþrótt liggja til grundvallar bættri lánshæfiseinkunn. Sterk stofnanaumgjörð og skilvirk stefnumótun stjórnvalda styðja einnig við einkunnina. Lánshæfismatið endurspeglar að viðnámsþróttur ríkissjóðs til að mæta áföllum er almennt séð góður. Fyrirtækin hafa fylgst grannt með stefnufestu í opinberum fjármálum og framfylgd markmiða um afkomubata sem sett hafa verið í fjármálaáætlunum undanfarinna ára. Ef bakslag verður þar á er hætt við að það hafi neikvæð áhrif á þróun lánshæfiseinkunnanna.

Þar sem Moody‘s metur horfur jákvæðar gæti lánshæfiseinkunn hækkað á árinu ef ekki verður verulegur neikvæður viðsnúningur í efnahags- og ríkisfjármálum. Miklu skiptir því að áætlanir standist til að auka líkur á hækkun lánshæfismats.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta